30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1187 í B-deild Alþingistíðinda. (1787)

99. mál, iðnaðarnám

*Jón Pálmason:

Eins og hv. þdm. að sjálfsögðu muna, var nokkuð rætt um þetta mál við 1. umr. Ég lét þá í ljós, að ég teldi, að þetta frv. frá hv. 1. þm. Árn. væri spor í rétta átt. En ég tók fram, að af eðlilegum ástæðum ætti að ganga svo frá þessu máli, að það væri ekki á valdi stéttarfélaganna að ákveða, hvað marga nemendur mætti taka í þessa og þessa iðngrein, vegna þess að það svaraði til, að eitthvert stéttarfélag embættismanna ætti að hafa vald til að ákveða hvað skólarnir mættu taka marga nemendur. Þessari skoðun held ég að sjálfsögðu fast fram, því að ég fæ ekki séð, að þarna sé neinn eðlismunur. Í samræmi við þetta hefi ég leyft mér að bera fram brtt. á þskj. 395. Aðalatriði brtt. er, að 1. gr. frv. verði snúið á þá leið, að það skuli vera samningsmál milli meistara og nemenda, hvort þeir hafa fulltrúa frá viðkomandi stéttarfélögum með í ráðum, þegar þeir ákveða, hvaða kaup og kjör nemendur eigi við að búa. Þessu var þannig fyrir komið áður en hin nýju iðnaðarlög voru samþ., og ég hefi ekki heyrt, að það hafi valdið mikilli óánægju, nema hjá þessum stéttarfélögum kannske. En síðan l. voru sett, hefir komið í ljós, að almenningur er óánægður með þá takmörkun, sem á þessu sviði er um að ræða.

Aðrar brtt. á þessu þskj. eru smávægilegar. Önnur brtt. felur í sér að fella úr l. ákvæðið um, hvað kaffihlé skuli vera langt. Það þarf ekki að lögbjóða slíkt, þegar vinnutíminn er ákveðinn með l.

Í þriðja lagi er brtt. um, að upphaf 14. gr. orðist þannig, að það skuli vera nemendurnir sjálfir, foreldrar þeirra eða fjárráðamenn, sem geti slitið námssamningi, ef þeir annmarkar eru fyrir hendi, sem tiltekið er. Þessi brtt. er í samræmi við mína 1. brtt. og miðar að því, að afnema yfirráð stéttarfélaganna yfir þeim nemendum, sem þarna er um að ræða.

Hv. frsm. iðnn. sagði, að þetta væri nýtt frv. Það má kannske segja, að ef breyt. eru gerðar á einhverju frv., þá sé það að því leyti nýtt frv. Annars sjá það allir hv. þm., að hér er um brtt. að ræða, sem byggð er á eðlilegum skoðanamun á þessu sviði. Sannleikurinn er sá, að ég hefi ekki getað fundið rök fyrir því, að nein nauðsyn beri til þess, að hafa þarna eitthvert aukavald, til þess að takmarka námsrétt manna á þessu sviði frekar en öðrum.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 377, frá hv. 7. landsk. og hv. þm. Ak., er það að segja, að mér virðist hún gera frv., eins og það upphaflega var, að engu, því að þá eru yfirráðin á þessu sviði aftur komin í hendur iðnfélaganna, þótt atvmrh. að vísu eigi að skipa þriðja manninn í n. án tilnefningar. Ég verð að segja, að það er eins gott að láta frv. daga uppi og að samþ. slíka breyt. og þessa. Það virðist þó vera nokkur bót að því að samþ. frv. eins og það upphaflega var, þó að ég telji óþarfa að skapa þann millilið, sem þar er gert ráð fyrir.