30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1191 í B-deild Alþingistíðinda. (1791)

99. mál, iðnaðarnám

Einar Olgeirsson:

Hv. 1. þm. Árn. beindi til mín nokkrum orðum út af brtt., sem keyra svo úr hófi, að þær koma ekki til greina, og standa á þskj. 395, frá hv. þm. A.- Húnv. Þeim þarf ekki að svara, en um brtt. 376 og 377 vil ég gera þessa aths. Eins og frv. lá fyrir frá hendi hv. flm. beindist það bæði móti meisturum og sveinum. Með samþykkt þessara brtt. yrði það tryggt, að ekki væri hægt að aðhafast neitt gersamlega móti vilja þeirra beggja, en eftir sem áður væri vald sveinafélaganna stórlega skert, frá því sem er í gildandi lögum, þar sem þau hafa nú úrslitavaldið, með því að fulltrúar þeirra verða að hafa skrifað upp á námssamninga nemenda við meistara, til þess að samningur gildi, þau líta eftir, að samningar séu ekki rofnir. Ég skil þess vegna ekki, hvers vegna hv. flm. berst svo harðvítugt móti brtt., úr því að hann hefir einu sinni sagt, að það sé ekki tilætlun sín að svipta sveinafélögin öllum áhrifum á þessi efni. Þau eru nógu svipt, þó að brtt. séu samþ.

Afstaða okkar kommúnista er greinileg. Við óskum fyrst og fremst eftir því, að frv. verði ekki samþ. En þar sem þess er varla að vænta eftir þeim kraftahlutföllum, sem hér eru í þinginu, er ekki um annað að gera en reyna að búa frv. svo sæmilega úr garði sem hægt er. Og þá teljum við brtt. á þskj. 376 og sérstaklega á þskj. 377 vera til stórbóta og munum greiða þeim atkv.