30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1196 í B-deild Alþingistíðinda. (1796)

99. mál, iðnaðarnám

Einar Olgeirsson:

Það eru fyrst nokkur orð út af því, sem hv. síðasti ræðumaður var að segja. — Það kemur úr hörðustu átt, þegar hv. íhaldsþm. hér í d. eru að tala um frelsi, og það kemur mér kynlega fyrir sjónir, þegar þeir eru að tala um, að það þurfi að skera kúgunarböndin burt. Ég vildi bara spyrja: Hvernig er þeirra afstaða, svo að ég taki aðeins eitt dæmi, til l., sem hv. þm. G.-K., þáv dómsmrh., gaf út í des. 1932, sem bönnuðu öllum fiskimönnum að flytja út saltfisk. Var það frelsi? Nei, þessir háu herrar eru ekki mikið að hugsa um frelsi almennings í landinu, heldur um sín eigin völd. Ég held, að þessum herrum væri nær að athuga, hvaða frelsi það er, sem verkalýðurinn hefir nú við að búa í þjóðfélaginu, frelsi til þess að geta lifað og fengið atvinnu. Haldið þið, að það sé frelsi, að hér verða 14 þús. manns að eiga allt undir geðþótta og vilja ca. 30 togaraeigenda. Haldið þið, að það sé frelsi, að mörg þúsund manna verði að eiga atvinnu og lif sitt undir því, sem nokkrum eigendum fárra en þýðingarmikilla framleiðslutækja þóknast að ákveða.

Mig langar til að upplýsa þennan hv. þm. A.-Húnv. um, að það var einusinni sá tími, að þetta „frelsi“ ríkti og það ótakmarkað. Það var á þeim tíma, sem iðnaðurinn var að brjótast í gegn í Englandi á fyrri hluta aldarinnar, sem leið. Og þá kom þetta „frelsi“ fram í því að börn, allt niður í 6 ára, voru látin þræla í 12–15 tíma á dag, þræla þangað til þau dóu, og þegar það hafðist í gegn eftir 30 ára baráttu í enska þinginu, 1846, að bannað var með l. að börn innan 10 ára aldurs mættu vinna í verksmiðjum, þá hrópuðu þeir upp, íhaldsmennirnir í þinginu, að þetta væri sú ógurlegasta skerðing á persónufrelsinu sem hægt væri að hugsa sér.

Þá er það viðvíkjandi því, sem hv. 1. þm. Árn. sagði. Hann orðaði það rétt, sem okkur greinir á. Það, sem hér liggur fyrir er, hvort synjunarréttur sveinafélaganna á að haldast eða ekki. Ég vil vekja eftirtekt hv. þm. á því, að þó að samþ. verði brtt. iðnn. á þskj. 316 og brtt. hv. 1. landsk. á þskj. 377, þá er þar með samt sem áður í raun og veru skertur og að mestu leyti afnuminn synjunarréttur sveinafélaganna, þannig að þó að þessar brtt. nái fram að ganga, þá er frv. nógu bölvað og íhaldssamt samt.

Það er rangt, að sveinafélögin hafi sérstaklega misnotað sinn rétt og að það horfi til einhverra voðalegra vandræða í iðnaðinum. Sem stendur horfir ekki til neinna vandræða í iðnaðinum, nema ef mönnum finnst það vandræði, að þar sé ekki tómt atvinnuleysi. Yfirleitt er ekki neitt vandræðaástand í iðnaðinum, það er þannig, að fjöldi af sveinum hefir möguleika til þess að fá vinnu, eftir að þeir eru búnir að vera 4 ár sem nemendur, og það verður að teljast heilbrigt ástand. — hitt óheilbrigt, ef svo er hrúgað inn í iðnaðinn, að þegar menn séu búnir að vera nemendur í 4 ár, þá sé þeim sparkað.

Þess vegna álít ég, eins og ég hefi lýst yfir áður, að það sé bezt, að sitja við sama eins og nú er, að þau l., sem nú gilda, stæðu óbreytt, og að synjunarréttur sveinafélaganna héldist.

Hinsvegar, til þess að gera þetta frv. ekki að hnefahöggi í andlit allra iðnaðarmanna í landinu, jafnt meistara og sveina, þá álít ég nauðsynlegt að samþ. þær till., sem hér hafa komið fram á þskj. 376 og 377, því að þær tryggja iðnaðarmönnum umráð yfir sínum eigin málefnum, en jafnvel þó að þær brtt. yrðu að l., þá er réttur sveinafélaganna samt sem áður stórkostlega skertur.