30.04.1938
Neðri deild: 58. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1197 í B-deild Alþingistíðinda. (1797)

99. mál, iðnaðarnám

Frsm. (Emil Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð til. hv. þm. A.-Húnv., af því að ég kann því ekki, að hann sagði við mig, að ég hefði farið rangt með. að samkv. hans till. væri vinnutími nemendanna lengdur. — Ég fullyrði þetta, — og ég skal sanna þetta. Það stendur í l. eins og þau eru nú, með leyfi hæstv. forseta: „Starfstími iðnnema má ekki fara fram úr 60 klst. á viku, að meðtöldum kaffihléum 1/2 klst. tvisvar á dag eða tilsvarandi styttingu á daglegum vinnutíma annars“. Í brtt. hv. þm. stendur, að niður falli klst. tvisvar á dag“. Þá verður gr. svona: „Starfstími iðnnema má ekki fara fram úr 60 klst. á viku, að meðtöldum kaffihléum“, o. s. frv. Þá stendur ekkert um það, hvað kaffihléin eigi að vera löng, heldur fer það eftir geðþótta meistaranna, hve löng þau eigi að vera, og þeir hefðu þannig möguleika til að auka vinnutíma nemendanna um 6 klst. á viku.

Þá er annað, sem hann sagði, að líka væri rangt hjá mér, að það væri verið að herða á böndunum með hans till. — þvert á móti væri verið að losa þau —, og sagði, að í l. væru ákvæði um það, með hvaða kjörum nemendurnir væru ráðnir. Það er ekki rétt. Þetta eru aðeins samningsatriði. Það stendur í 4. gr. l., að það skuli tiltekið í námssamningi, með hvaða kaupi og kjörum nemendur séu ráðnir, og ef þetta er ekki tryggt með samtökum hlutaðeigandi stéttar, þá eru nemendurnir í hverju einstöku tilfelli ofurseldir því, hver kjörin eru.

Það var einkum þetta, sem ég vildi taka fram. viðvíkjandi hv. 1. þm. Árn. og okkar ágreiningi hefi ég ekkert frekar að segja. Við höfum þar hvor sína skoðun á málinu. Ég held, að pólitísk kosning tryggi á engan hátt hlutleysi, heldur sú aðferð, sem ég vil hafa, að taka þessa menn úr samtökum iðnaðarmanna sjálfra.

Ég vil enda á, að einhver sagði, að þessi iðnaðarnámslög hefðu nú verið í gildi í tvö ár og að þau hafi valdið svo miklum erfiðleikum, að í sumum iðngreinum hefðu ekki verið teknir nemendur í 4 ár. Þetta getur ekki verið rétt, því að l. eru ekki nema tveggja ára. Ennfremur vil ég vekja athygli á því, að l. eru ekki að fullu komin í framkvæmd ennþá, því að ekki hefir verið gefin út sú reglugerð, sem l. gera ráð fyrir, og yfirleitt hefir ekki verið hægt að hafa á þessu eðlilegan gang, vegna þess að reglugerðin er ekki til, og um það er ekki hægt að kenna l.