10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1208 í B-deild Alþingistíðinda. (1826)

138. mál, mæðiveiki

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti! Það er nú hvorttveggja. að frv. þessu fylgir nokkuð ýtarleg grg., sem ég geri ráð fyrir, að þm., sem áhuga hafa fyrir að kynna sér þetta mál — og það vænti ég að séu allir þm. —, hafi lesið, og svo hitt, að nokkuð þarf að hraða þessu máli, til þess að það geti orðið að lögum á þessu þingi. Mun ég þess vegna ekki tala mjög langt mál við þessa umr.

Þetta frv. er. eins og í grg. er getið, mjög áþekkt gildandi lögum um sama efni. Er þeim steypt saman í einn lagabálk, endurskoðuðum og breyttum í samræmi við þá reynslu, sem síðan er fengin við framkvæmd þeirra og útbreiðslu veikinnar. Ég skal ennfremur geta þess hér, sem einnig er minnzt á í grg., að þótt frv. sé borið fram af landbn. Nd., þá standa landbn. beggja deilda að undirbúningi frv., og mun landbn. Ed. taka við því í höfuðatriðum eins og það liggur hér fyrir og verður, þegar það kemur til hennar, ef Nd. breytir því ekki. Ég skal geta þeirra aðalbreyt., sem n. leggja til, að gerðar verði á gildandi l. Þá er þess fyrst að geta, að samkv. gildandi l. er 3 manna n. skipuð af landbrh. eftir till. landbn., sem fer með þessi mál, og framkvæmdastjóri undir yfirstjórn landbrh. Ástæðan til að hafa 5 manna n., eins og nú er lagt til, í stað 3 manna, er m. a. sú, að í jafnviðkvæmu máli hefir það komið skýrt fram, að nauðsynlegt er, að fleiri aðiljar fái hér íhlutunarrétt. Bæði eru bændur, sem búa utan mæðiveikissvæðisins og er sérstaklega annt um, að varnir séu í lagi, þá eru og einnig þeir, sem búa á hinum sýktu svæðum og hafa sérstakra hagsmuna að gæta um bætur fyrir tjón af völdum veikinnar. Eins og nú standa sakir, eru það aðallega fulltrúar frá þeim héruðum, sem einkum hyggja á varnir, sem skipa þessa n. og munu sennilega gera áfram. En það þykir einnig hentugt, að til komi 2 menn innan þeirra svæða, er sýkt eru. Með varnirnar er sjálfsagt, að gerðar verði þær breyt. með frv., sem nauðsynlegar eru vegna þess, að þær varnarlínur, sem ákveðnar eru í gildandi lögum, eru þegar orðnar gagnslitlar eða gagnslausar, af þeim ástæðum, að veikin reyndist komin meira og minna út fyrir aðalvarnarlínuna. Þess vegna verður að setja nýja og trausta varnarlínu. Aðalvarnarlínurnar skulu þessar: Meðfram Þjórsá frá sjó og upp í Hofsjökul, meðfram Héraðsvötnum og Jökulsá eystri frá sjó og upp í Hofsjökul. M. ö. o. sé reynt að gera öruggar varnarlínur til þess að verjast frekari útbreiðslu austur á bóginn. Þá er nauðsynlegt að treysta nokkuð varnirnar á Vestfjörðum, þar eð veikin er komin vestur fyrir Gilsfjarðar- og Bitrufjarðargirðinguna. Það hefir verið nokkur ágreiningur í n. um það, hvernig haga skuli aðalvarnarlínunni á Vestfjörðum. Í frv. því, sem lagt var fyrir landbn., endurskoðað af mæðiveikisn. og framkvæmdarstjóra varnanna, þá var gert ráð fyrir því, að aðalvarnarlínur á Vestfjörðum skyldu settar tvær. Önnur úr Kollafirði í Barðastrandarsýslu yfir í Ísafjörð og hin úr Kaldalóni í Þaralátursfjörð. En þá er allmikið svæði, sem mun lítið sýkt eða jafnvel ósýkt — það er ekki hægt að fullyrða um það — frá þessum línum og alla leið að línunni frá Gilsfirði til Bitrufjarðar. N. fannst ekki rétt að hafa allt þetta svæði varnarlaust. Í frv. mæðiveikin. var að vísu gert ráð fyrir að styrkja aukagirðingu úr Þorskafirði í Steingrímsfjörð. Meiri hl. n. lítur hinsvegar svo á, eftir upplýsingum þeim, sem n. hefir fengið, að mjög miklar líkur megi telja til þess að svæðið, sem er fyrir vestan þá línu, þegar frá er tekið svæðið frá Reykjarfirði til Ófeigsfjarðar, sem þegar er afgirt, sé fjársýkislaust, og þykir þess vegna rétt að hafa aðalvarnarlínu þar. Hinsvegar vill hún veita lyfi til þess, að styrktar séu línur vestar á kjálkanum, til þess að tryggja með öllu, ef veikin kynni að finnast á svæðinu utan aðalvarnarlínunnar, þá kæmist hún þó ekki inn á þau heilbrigðu svæði, sem ákveðið er að verja. Þá leggur og n. til að styrkja varnarlínur, sem ekki teljast með aðalvarnarlínum, til að verja stærri og minni svæði, sem að mestu eru ósýkt enn, og verði girðingarnar styrktar með allt að. 35 aurum á metra, og er það mestur hluti af því efni, sem í þær girðingar fer. Það, sem viðkomandi héruð myndu þurfa að leggja fram, er aðallega að koma efninu á staðinn og setja upp girðinguna. Ég hygg, að fullyrða megi, samkv. fenginni reynslu, að kostnaðurinn yrði miklu minni — og ekki mjög tilfinnanlegur fyrir bændur, sem hlut eiga að máli — heldur en ef kosta ætti girðingarnar algerlega úr ríkissjóði með þeim launagreiðslum, sem þá vitanlega giltu. Taldi n. því þennan styrk fullkomlega forsvaranlegan og viðráðanlegt á allan hátt fyrir hlutaðeigandi sveitir að bæta við því, sem á vantar. En hinsvegar mun það margborga sig fyrir ríkissjóð að leggja fram þennan styrk heldur en taka þessi héruð upp á sína arma, ef veikin skyldi fara inn á þessi svæði, með öllum þeim afleiðingum, sem það mundi hafa í för með sér. Auk þess er heimild í lögunum til ýmsra annara lina, ef reynslan sýnir, að það sé nauðsyn að dómi þeirra manna, sem með þessi mál fara. Og yfirleitt verður að segja, að aðalatriðið í þessu fn-. sé að leggja áherzluna á að verja þann hluta landsins, sem enn er ósýktur, fyrir þessum vágesti. Ég skal geta þess til leiðbeiningar þm., sem ekki hafa haft tíma til að kynna sér þetta mál, að aftan við frv. er yfirlit um útbreiðslu veikinnar eins og hún var álitin um áramótin 1937 og eins og hún var álitin um þessi áramót. Með því að athuga þessi yfirlit, geta hv. þm. gert sér nokkra grein fyrir, hver er stefna n. um varnirnar, og hvernig útbreiðsla veikinnar er, eftir því sem bezt verður vitað.

Inn í aðalkafla frv., sem er um varnir, hefir n. bætt nýju atriði. Það er heimild fyrir sveitarstjórnir og stjórnir upprekstrarfélaga til að breyta fjallgöngum og réttum og smölun, frá því sem ákveðið er í fjallskilareglugerðinni. Það varð að grípa til þess talsvert síðastl. ár, og verður vitanlega að gera í ár líka. Það er hægara að hafa ákvæði, sem gilda í eitt skipti fyrir öll.

Þá vil ég snúa mér ofurlítið að þeim kafla frv., sem fjallar um stuðning til bænda vegna tjóns af völdum mæðiveikinnar. Í aðalatriðum er hann mjög svipaður og í gildandi lögum um þetta efni. Þó hefir n. bætt garðræktarframkvæmdum í styrkhæfar jarðabætur samkv. gildandi lögum. En samkv. þeim er ákvæðið um vaxtastyrkinn þannig, að eingöngu er miðað við fasteignalán bænda. N. var þegar ljóst í fyrra, að þetta myndi geta valdið nokkru misræmi gagnvart bændum, vegna þess að vitanlega er mikill munur á. hvernig skuldum bænda er fyrirkomið. Ýmsir hafa komið skuldum sínum fyrir sem veðlánum. En aðrir, sem eru með engu minni skuldir hafa svo að segja öll lán sem lausaskuldir. Samkv. l. er ekki heimilt að styrkja þá menn með vaxtatillagi eins og hina, og það hefir komið enn skýrar fram við framkvæmd málsins, að fjöldi bænda er miklu verr staddir, en hafa ekki getað komið sér upp veðiánum m. a. vegna þess, að þeir eiga engar fasteignir. Sérstaklega eru það leiguliðar, sem hafa orðið að gera ýmsar framkvæmdir á jörðunum og fá lán með sjálfskuldarábyrgð eða víxlum. Ýmsir af þessum bændum hafa orðið útundan með vaxtastyrk einmitt vegna þessa ákvæðis. Og þeir bændur, sem hafa tekið lán í kreppulánasjóði og á þann hátt „konverterað“ lánum sínum, eru betur komnir en hinir, sem ekki hafa tekið slík lán, vegna þess að kreppulánin eru talin veðlán, þó að þau séu ekki tryggð með veði í fasteign. Af þessum ástæðum kemur fram í framkvæmd l. geysimikið misrétti milli þeirra, sem hafa veðlán, og hinna, sem ekki hafa þau, og n. álítur ekki annað fært en að láta vaxtastyrkinn ná til allra lána, sem viðkomandi bændur skulda og vottorð liggja fyrir um frá skattnefndum, að talin hafi verið fram og sönnuð í árslok 1937, því að það er öllum vitanlegt, að lausalán eru sízt léttari eða hægari í meðferð heldur en veðlán.

Þá hefir n. bætt garðræktarframkvæmdum í styrkhæfar jarðabætur samkvæmt l., með því að það hefir sýnt sig, að það er ennþá nauðsynlegt að auka garðræktarframkvæmdir í landinu, frá því sem er, og ennfremur af því að ýms héruð, sem mæðiveikin hefir geisað i, eru einhver beztu jarðaræktarhéruð landsins og nauðsynlegt að koma framleiðslu bænda meira inn á það svið en verið hefir hingað til. Ég skal geta þess, að í 4. lið 19. gr. er það tekið fram, að styrkja megi bændur til þess að koma upp rjómabúum. Nú er ekki veitt neitt ákveðið fé til þess á fjárlögum, en það er svo til ætlazt, að þau héruð, sem þennan styrk fengju, ættu að fá hann af því fé, sem veitt var á fjárlögum til mjólkurbúa, og þó að þar standi, að þessu fé skuli varið til mjólkurbúa, þá verður n. að leggja þann skilning í það eftir samtali við ríkisstjórnina, að þessar framkvæmdir falli einnig undir þann lið.

Ég sé ekki ástæðu til að fara langt út í aðrar gr. í II. kafla. Að vísu geri ég ráð fyrir, að ofurlitið hafi verið breytt til um fyrirkomulag og úthlutun þess styrktarfjár, sem verja á til stuðnings bændum, og er það þá gert í samræmi við þá reynslu, sem fengizt hefir í þessu efni. Ég tel óþarft að fara frekar út í það hér, nema sérstakt tilefni gefist til.

Ég skal geta þess, að í frv. því, sem mæðiveikinefnd samdi og sendi til landbn. beggja d., var sérstakur kafli um niðurskurð og heimild til þess að hefjast handa í því máli á næsta hausti. N. ræddi þetta atriði töluvert og athuguðu það, eftir því sem þær mögulega gátu, og eins og stendur í grg., er meiri hl. n. þeirrar skoðunar, að eftir þeim upplýsingum og gögnum, sem enn eru fengin, sé ekki unnt, svo framarlega sem ekki koma gerbyltandi nýjungar á næstunni í þessu máli, að losna við mæðiveikina úr landinu öðruvísi en ef það tækist, að hefta hana á útlínum og vinna síðan að því að skera niður fé af sjúkum svæðum og flytja þangað nýjan fjárstofn. Hinsvegar leit meiri hl. þannig á, að ekki væri ennþá kominn tími til þess að hefja þessar framkvæmdir, vegna þess að það vanti ýmsar forsendur fyrir því, að forsvaranlegt væri að ráðast í jafndýrar og stórfelldar framkvæmdir. M. a. má geta þess, að þó að von sé um, að unnt verði að hefta veikina á þeim útlínum, sem nú eru, þá er engin vissa fyrir því, og vissa fæst a. m. k. ekki fyrr en kemur lengra fram á sumarið eða jafnvel ekki fyrr en komið er fram á haust, og á meðan ekki er fengin vissa fyrir því, að veikin sé ekki komin út fyrir aðalvarnarlínurnar, og þar af leiðandi líkur fyrir því, að hún streymi þá hindrunarlaust um meginhluta landsins, þá líta n. svo á, að ekki sé vit í að leggja í niðurskurð á þessu svæði, með því að þá væri misheppnaður aðaltilgangurinn, að útrýma veikinni úr landinu án niðurskurðar. Og svo er annað, sem líka má minnast á, sem sé það, að nokkur reynsla er fengin fyrir því, að sauðfjárstofninn er mismunandi móttækilegur fyrir veikina, og líkur eru til þess, að það fé, sem eftir er á sýktu svæðunum, sé ómóttækilegra fyrir veikina en það, sem drepizt hefir. Ef gripið væri til niðurskurðar, þá er þessum stofni útrýmt líka, og við ættum á hættu, að veikin legði allan fjárstofn landsins undir sig. Meiri hl. n. álítur, að nauðsynlegt sé að afla frekari reynslu í þessu efni, áður en ráðist yrði í slíkar framkvæmdir.

Ennfremur má geta þess, að enn er ekki fullvíst, hvort veikin berst eingöngu frá kind til kindar eða hvort hagar og hús geta einnig smitað, og hvort veikin getur borizt með öðrum dýrum, t. d. músum. Eg skal geta þess í því sambandi, að nú hefir tekizt á rannsóknarstofu að smita mýs af mæðiveiki, og er það atriði, sem þarf að rannsaka. Sé það rétt, þá er að miklu leyti kollvarpað trúnni á öryggi girðinganna, því að það þarf þétta girðingu til þess að halda músum. — Þá skal ég einnig geta þess, að mér hefir verið sagt, að það hafi borið mjög á lungnaveiki í fé, sem á síðasta ári voru gerðar tilraunir á í Heggstaðanesi, en þar var framkvæmdur algerður niðurskurður og flutt ósýkt fé í staðinn. Ennþá hefir ekki verið fullrannsakað, hvort hér er um að ræða hina venjulegu landlægu lungnaveiki eða mæðiveiki.

Um þetta atriði hafa n. ekki getað orðið sammála. Einn nm., hv-. 1. þm. N.-M, sem að vísu á ekki sæti í þessari d., en hefir starfað að málinu, var á því, að rétt væri að samþ. heimildina um fjárskipti og niðurskurð í aðalatriðum óbreytta, eins og hún kom til n., og hefjast sem fyrst handa um framkvæmdir, en n. gátu ekki fallizt á þetta atriði af þeim ástæðum, sem ég nú hefi greint. — Hv. þm. Borgf. hafði og nokkra sérstöðu í þessu máli. Hann vill láta hefjast handa á næsta hausti um niðurskurð, en ekki á jafnalmennum grundvelli og hv. 1. þm. N.-M., heldur vill hann ákveða lítið afmarkað svæði og gera þar tilraunir með niðurskurð og fjárskipti. Ég skal ekki fara langt út í það mál, fyrr en hv. þm. hefir talað fyrir brtt. sínum um þetta. Nokkrar aðrar brtt. hafa komið fram við frv., en ég sé ekki ástæðu til að fara út í þær, fyrr en þær liggja fyrir og flm. hafa gert grein fyrir þeim.

Ég held, að ég hafi ekki mál mitt lengra að þessu sinni, og ég vænti þess, að hv. þdm. geti fallizt á að afgreiða málið í öllum. aðalatriðum eins og það liggur fyrir og landbn. Alþ. hafa sameinazt um það, og það yrði gert sem fyrst, svo að málið geti gengið fram á skömmum tíma, en þurfi ekki að tefja tíma þingsins.