10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1212 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

138. mál, mæðiveiki

*Pétur Ottesen:

Ég þarf ekki að segja mikið um frv. það, sem hér liggur fyrir, og nægir mér að vísa til þess, sem hv. frsm. landbn. hefir sagt um þau atriði, sem þetta frv. inniheldur.

N. voru sammála um að leggja til, að treystar yrðu varnir svo sem bezt mætti verða, til þess að reyna að hefta útbreiðslu veikinnar, og að haldið yrði áfram stuðningi til bænda á mæðiveikisvæðinu, sem nú búa við mjög skarðan hlut út af þessum áföllum, sem þeir hafa orðið fyrir af völdum veikinnar. Að því leyti sem vikið er frá ákvæðum í gildandi l. um þetta efni, þá er það með hliðsjón af upplýsingum, sem fengizt hafa síðan um gang þessara mála, og hækkunin á styrk er vitanlega miðuð við það, að veikin hefir mjög færzt í aukana, síðan l. voru sett um þetta á síðasta þingi.

Ég vil skjóta því til hæstv. forseta, hvort hann geti ekki fallizt á, að ég fari nú við 1. umr. nokkrum orðum um þær brtt., sem ég hefi borið fram, þó að með því sé dálítið brugðið út af algengri venju. Ég fer fram á þetta af því, að brtt. eru ekki við ákvæði frv., heldur aðeins viðauki við það, og eiga að vera sérstakur kafli í frv. (Forseti: Ég hygg, að það gæti orðið til þess að stytta heldur umr. og flýta fyrir afgreiðslu málsins, að viðhafa þennan hátt, sem hv. þm. óskar eftir, og fellst því á það.) Ætla ég þá að leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessar till.

Eins og hv. frsm. landbn. gat um, varð nokkur ágreiningur í n., að því er snertir þessi fjárskipti, og er þá sérstaklega að minnast þess. sem hann gat um, að einn nm., hv. 1. þm. N. M., vildi ganga inn á till., sem fyrir lágu frá framkvæmdarnefnd um, að á næsta hausti yrði hafizt handa um niðurskurð og fjárskipti á öllu hinu sýkta svæði frá Blöndu, þ. e. í Húnavatnssýslum báðum, Mýrasýslu, Borgarfjarðarsýslu og í hluta af Dalasýslu. Að því er þetta atriði snertir, stóð hv. 1. þm. N.-M. einn í n., því að þó að ég vildi ganga ef til vill nokkru lengra heldur en hinir hv. meðnm. mínir, þá vildi ég ekki undir neinum kringumstæðum fallast á, að út í svo stórfelld fjárskipti yrði farið á næsta hausti, og það m. a. af því, að af þeim fundahöldum, sem fram fóru snemma á þessu ári, var það alveg ljóst, að meiri hl. fjáreigenda á mæðiveikisvæðinu var því gersamlega andstæður, að út í svo stórfelld fjárskipti yrði farið nú þegar á næsta hausti, þó að meiri hl. þessara manna léti í ljós þá skoðun, að þeir sæju ekki aðra leið til lausnar þessu máli, að óbreyttu viðhorfi, heldur en að leggja út í fjárskipti. Það kom aðeins fram á einu svæði, í nokkrum hreppum sunnan Skorradalsvatns að Hvalfirði, eftir þeirri atkvgr. að dæma, sem þar fór fram, að nokkurnveginn eindreginn vilji virtist vera hjá bændum fyrir því að láta fara fram fjárskipti á þessu tiltekna svæði. Að því leyti var atkvgr. alveg sérstæð.

Ég hefi þess vegna í mínum brtt. — en þar er tekinn upp kafli sá um fjárskipti, sem mæðiveikinefnd samdi og sendi landbn. Alþ. — tekið það upp, að frekar skuli þó ekki að gert að fjárskiptum á þessu ári heldur en að láta þau fara fram á þessu tiltekna svæði, þar sem almennur vilji er fyrir hendi í þessu efni. Þar er þannig ástatt, að nú virðist veikin vera orðin allútbreidd á svæðinu, þó að hinsvegar séu ekki enn mikil brögð að því, að féð hafi drepizt úr veikinni. En það má búazt við, eftir öllum gangi veikinnar á öðrum svæðum að dæma, að hún brjótist út núna á þessu ári og geri þar mikinn usla. Ég vil benda á, að í rann og veru er ekki mikið, sem ber á milli mín og frsm. og þeirra manna í n., sem hafa svipaða afstöðu og hann, því að þeir vilja gefa ríkisstj. heimild til þess að framkvæma nokkur fjárskipti einmitt á þessu ári og miða þar við þau fjárskipti, sem fram fóru í Heggstaðanesi á síðasta ári. En ég vil láta gera tilraun til fjárskipta nú á næsta hausti.

Ég vil láta lögleiða þessar reglur, sem fjárskiptin eiga að byggjast á, en láta það ekki allt svífa í lausu lofti, eins og gert var á síðasta ári, og eins og mun verða gert, ef till. þær verða samþ., sem hv. frsm. og þeir, sem eins líta á þetta mál í n., hafa komið með, því að þeir ætla að leggja það í vald ríkisstj. og framkvæmdanefndarinnar, með hvaða hætti þessi fjárskipti eigi að fara fram, og hvernig eigi að búa að bændum í sambandi við þessi fjárskipti. Og ef það verður niðurstaðan. að þetta mál verði leyst með þeim hætti, að fjárskipti verði gerð á öllum svæðum, þá er réttast, að grundvöllurinn að þessum fjárskiptum verði nú þegar lagður, heldur en að það verði farið að taka upp nýja aðferð og reglu í þessu efni, eftir að búið er að framkvæma svo og svo mikið á allt öðrum grundvelli. Því um grundvöllinn fyrir fjárskiptunum, sem ég hefi tekið upp er enginn ágreiningur í nefndinni. Í þessum kafla frv., sem ég vil setja inn, er mjög vel um það búið, að það sé ekki að neinu flanað í þessu efni. Ríkisstj. er, samkv. mínum till., veitt heimild til þessara framkvæmda, en sú heimild er bundin mjög mörgum og mikilsverðum varúðarráðstöfunum. Í fyrsta lagi má engin fjárskipti framkvæma, nema læknar rannsóknarstofu háskólans telji vonlitið, að meðul gegn veikinni finnist bráðlega. Í öðru lagi, að þeir ásamt framkvæmdanefndinni telji öruggt, að veikin stöðvist við aðalvarnarlínurnar. Og í þriðja lagi, að framkvæmdanefnd líti svo á, að fjárskipti séu líklegasta leiðin til þess að vinna bug á veikinni. — Þá er gert ráð fyrir, að ráðh. gefi út reglugerð um fjárskipti, sem þó því aðeins mega fara fram, að samþykki fjáreigenda á svæðinu hafi fengizt fyrir því, þannig að eigi færri en fjáreigenda gjaldi því jákvæði, að fram skuli fara slík fjárskipti. Þetta hafði fallið niður úr handriti mínu, þegar ég afhenti þetta til prentunar, en ég hefi flutt brtt. um að taka þetta upp aftur.

Þær till., sem ég geri um framkvæmdirnar í ár, eru miðaðar við þetta tiltekna svæði, sem ég gat um áðan, en ef einhverra hluta vegna er ekki hægt að framkvæma þetta á þessu svæði, þá hefir ríkisstj. heimild til þess að láta fara fram fjárskipti á öðru svæði, þar sem ekki er fleira fé heldur en þarna er um að ræða og ekki lakari aðstaða til þess að einangra féð heldur en þarna er.

Svo eru í þessum kafla varúðarreglur um, að þegar á að fara að hreinsa svæðin, þá sé mjög vel um það búið, að svæðin verði gerð fjárlaus; það eru settar ákveðnar, strangar reglur en smalamennsku og annað, sem nauðsynlegt er til öryggis því, að ekkert sjúkt fé sé á þeim svæðum, sem fjárskiptin eiga að fara fram á. Ennfremur er í þessum brtt. mínum ákvæði um, að þegar til fjárskiptanna komi, þá verði bændur á ósýktu svæðunum skyldaðir til að láta af hendi líflömb til þess að flytja inn á þessi svæði, og mundi svo verða um þetta búið, að menn þurfi ekki að borga hærra verð en eðlilegt er fyrir þessi líflömb, með því að miða við gangverð á sauðfjárafurðum á því hausti, sem fjárskipti eru framkvæmd og kaup á þessum lömbum fara fram. Auk þess eru ýmsar aðrar reglur um, hvernig þessum kaupum skuli hagað.

Þá er ákvæði um þann styrk, sem bændur eiga að fá til þessara fjárskipta, og ég vænti, að allir geti verið sammála um, að nauðsynlegt sé, að bændur njóti nokkurs fjárstyrks í þessu augnamiði, og er gert ráð fyrir, að til kaupa á líflömbum verði greiddar 8 kr. á hvert lamb, miðað við helming ærtölunnar, en 5 kr. á lamb, það, sem fram yfir er. Auk smærri ráðstafana, er ennfremur ákvæði um, að á næsta ári, eftir að fjárskiptin fara fram, fá; menn stuðning. sem nemur 6.50 kr. á hverja á, og á þannig að gera mönnum kleift að komast yfir það tekjulausa tímabil í fjárræktinni, sem verður hjá þeim, næst eftir að þeir hafa keypt líflömb.

Ég skal ekki fara frekar út í að lýsa ákvæðum þeim, sem í þessum kafla felast, því að þetta liggur hér allt fyrir.

Ég skal geta þess, að kostnaðurinn, sem mundi leiða af fjárskiptum á þessu svæði, sem ég hefi miðað brtt. mínar við, á næsta hausti, mundi verða nokkur. Ég geri ráð fyrir, að það yrðu um 8000 ær á þessu svæði, og að á fyrsta hausti yrðu keypt lömb sem svaraði hálfri ærtölunni, 4000 lömb, og með 8 kr. verði á hverju lambi verður það 32000 kr. Ég geri ekki ráð fyrir, að um veruleg kaup yrði að ræða á næsta hausti; ég hefi gert ráð fyrir eins og 1000 lömbum til viðbótar, og þar sem styrkurinn á þau er 5 kr. á hvert, yrðu það 5000 kr. Svo yrði styrkurinn, sem kæmi á alla ærtöluna, 6.50 kr. á hverja á, eða alls 52000 kr. Svo munu þær viðbótargirðingar, sem þarf að gera, kosta 32000 kr. Allur kostnaðurinn við fjárskipti á þessu svæði yrði þá 120000 kr. Þetta er að vísu há upphæð, því er ekki að neita, en ég vil benda á það, að í sambandi við þessi fyrirhuguðu fjárskipti þarna hefi ég gert mér dálitla grein fyrir því, hvað miklu muni þurfa að verja til stuðnings bændum á þessu svæði næstu 3 ár, ef engin fjárskipti fara fram. Er þá fjármissirinn eða fjárfækkunin á þessum svæðum miðuð við þá reynslu, sem við höfum af fjármissi á svæðum, eftir að þau virðast vera alsýkt, eins og þessi svæði áreiðanlega eru nú. Annarsvegar er miðað við þetta og hinsvegar við þá tilhögun, sem höfð var hjá mæðiveikinefndinni á skiptum bótafjár til fjársýkisvæðanna, sem nú hefir verið lögð til grundvallar hjá n. Þá myndi á fyrsta ári vaxtatillagið á þessu svæði nema 10 þús. kr., vegaféð 12 þús. kr., eða alls 34 þús. kr. Með tilliti til áframhaldandi fjárfellis af völdum veikinnar, og miðað við reynsluna í ofanverðum Borgarfirði, þá myndi þetta á öðru ári verða komið upp í 46 þús. kr., og á þriðja ári býst ég við, að það yrði nokkru hærri upphæð. En ef miðað væri við 46 þús. það ár, þá myndi þetta næstu 3 árin nema 126 þús. kr., eða nokkru hærri upphæð heldur en kostnaðurinn við fjárskiptin í eitt skipti hefir í för með sér. Og þessi samanburður gefur dálitla bendingu um það, að kostnaðurinn við fjárskiptin, ef grundvöllur er fyrir því og möguleikar á því, að með slíkum hætti megi stöðva veikina, sé ekkert ægilegur í samanburði við kostnað þann, sem er óhjákvæmilegur til að styðja bændur á mæðiveikisvæðunum, eftir þeirri reynslu, sem við höfum fengið, og öllu því útliti, sem blasir augljóslega við okkur. Ég verð að segja, að þrátt fyrir þennan stuðning, sem á að veita bændum á þessum svæðum, þá hefi ég mjög litla trú á því, þar sem ekki eru kringumstæður fyrir hendi fyrir bændur til þess að breyta sínum búskap og afla svipaðra tekna með þessum styrk, að halda bændum við búin eða á jörðunum á þessum svæðum, eftir að héruðin eru orðin sauðlaus. Ég hefi mjög litla trú á því, að með þessum styrk eða svipuðum styrk í framtíðinni sé nokkur von til þess að geta haldið bændum á jörðunum.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram hér í sambandi við þá till., sem ég flyt um þetta efni, og skal ég svo ekki fjölyrða frekar um það. Ég vil aðeins endurtaka, að milli mín og hv. frsm. landbn. og annara í landbn., að undanteknum hv. 1. þm. N.-M., sem leggur til, að þegar á þessu ári verði stofnað til stórfelldra fjárskipta, er lítill skoðanamunur og ekki nema sá, að ég álít réttara. að þegar á þessu þingi séu settar ákveðnar reglur um hin væntanlegu fjárskipti. Ég legg það undir dóm hv. d., hvað henni sýnist um þetta, og ég álít óþarft að eyða miklum tíma í umr. um þetta mál, því að það liggur svo augljóst fyrir, að þess ætti ekki að þurfa við. Skal ég svo ekki við þessa umr. eða við 2. umr. fara fleiri orðum um þetta, nema sérstakt tilefni gefist til þess.