10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1220 í B-deild Alþingistíðinda. (1829)

138. mál, mæðiveiki

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég ætla að svara nokkru af því, sem kom fram hjá hv. þm. Borgf. og hv. þm. Ak. Um það, sem hv. þm. Borgf. sagði viðvíkjandi fjárpestinni, get ég að vísu viðurkennt það, sem hann sagði, að milli mín og hans væri enginn meiningarmunur. Við erum í aðalatriðunum sammála um það, að að óbreyttu ástandi, muni niðurskurður ekki geta orðið fyrr en síðar, enda hefir meiri hl. landbn. ekki fallizt á niðurskurð að svo stöddu, heldur að heimilað yrði, að niðurskurður gæti hafizt næsta haust með þeim skilyrðum, sem þar eru sett. Ég skal skýra frá því, af hverju meiri hl. n. getur ekki fallizt á niðurskurð strax. Fyrst er að geta þeirrar almennu ástæðu, að n. telur ekki öruggt ennþá, og varla einu sinni næsta haust, um það leyti sem niðurskurður yrði hafinn, hvort búið yrði að hefta veikina á þeim útlínum, sem nú er talið, að hún sé á, en ef það skyldi mistakast, finnst okkur óráð að hefja niðurskurð, meðan óvíst er, hvort veikin getur ekki geisað yfir allt landið. Við erum ekki sammála um það, að þó að gripið yrði til niðurskurðar, væri rétt að byrja hann á því svæði, sem hv. þm. Borgf. nefndi. Fyrst er þess að geta, að þetta svæði er þannig, að veikt fé getur verið á báðum hliðum. En þegar niðurskurður er hafinn, verður að haga honum þannig, að öruggt sé að hafa veikina ekki nema á eina hlið. Margir álíta, að ef á annað borð á að beita niðurskurði, sé réttast að byrja hann á svæðinu í Grímsnesi og Laugardalnum. Ástæðan til þess er sú, að það má teljast jarðarsvæði, og girðingar eru þar komnar upp, og þar er tiltölulega meira fé veikt en á því svæði, sem hv. þm. Borgf. stakk upp á, því að þar er mikið af fé, sem má telja fallið. Þess vegna getur n. ekki fallizt á, að þetta svæði yrði valið. En nú má segja sem svo, að þó að menn væru ekki með því að hefja niðurskurð á næsta ári, væri hættulítið að hafa heimild um þetta í l., til þess að benda á þær leiðir, sem upp yrðu teknar og farið eftir, ef til niðurskurðar yrði gripið. Meiri hl. n. lítur hinsvegar þannig á, og raunar hv. þm. Borgf. líka, og ég held allur þorri þm., að ekki komi til greina að hefja niðurskurð fyrr en á komandi hausti, og þar sem varúðarreglur hafa verið settar og ennfremur eru á ferðinni till. um ýmislegt, sem þyrfti að gera, og þær út af fyrir sig myndi nægja til þess, að ekki yrði ráðizt í niðurskurð, sé fráleitt að samþ. slíka heimild. Þó að brtt. hv. þm. Borgf. yrði samþ., verður samt að teljast útilokað, að niðurskurður fengist, vegna þess að veikin yrði ekki stöðvuð á línunum svo snemma, að unnt yrði að hefja niðurskurð á komandi hausti. Þess vegna verður að telja, að slíkt komi ekki til greina, og réttast að fresta öllum l. um það, hvernig hann skuli framkvæmdur, vegna þess að málið hefir ekki verið athugað sem skyldi, og það veitir ekki af tímanum til næsta þings, til þess að undirbúa málið innan þings og utan. Enda þótt till. hafi komið fram um niðurskurð, er málið ekki svo hugsað af öllum þorra þm., að ekki veiti af að nota tímann til næsta þings til að undirbúa allar slíkar framkvæmdir betur en nú er. Af þessum ástæðum hefir n. ekki séð sér fært að leggja til, að l. um þetta yrðu sett. Auk þess má geta um, að verði horfið að niðurskurði, hlýtur það að hafa í för með sér geysimikil útgjöld úr ríkissjóði, sem myndu nema hundr. þús. kr., og sennilega millj., fram yfir það sem nú er. Þess vegna verður Alþ. að velta því fyrir sér, hvernig unnt yrði að afla þessara tekna, og það verður ekki ákveðið á þessu þingi, en án þess að finna einhverja leið til að standast kostnaðinn, verður ekki ráðizt í slíkt. Það myndi raska allmjög þeim útgjaldaliðum og jafnvel tekjuliðum, sem þetta snerta, og vegna þess vinnst ekki tími til að ganga frá því á þessu þingi, ef afgreiðsla fjárl. á að ráða þingsetu. Þess vegna verður ekki lagt í niðurskurð,fyrr en það verður álitið nokkurnveginn tryggt, að unnt sé að bæta bændum tjónið, og ekki fyrr en slíkt verður talið alveg nauðsynlegt.

Næsta Alþ. verður að fjalla um málið meira en þetta Alþ. Ég skal ekki fullyrða um þá hluti við hv. þm. Borgf. hvort heildarkostnaður við niðurskurðinn myndi verða mínni fyrir ríkið heldur en að halda uppi þeim bótum, sem óhjákvæmilega koma í fótspor pestarinnar fyrir þau héruð, sem hún er komin í, og enn meiri, ef hún breiðist út, en um eitt er vist, að verði þær umbætur framkvæmdar, sem nauðsynlegar eru, verða það miklu hærri bætur á hverju ári, og til þess þarf annaðhvort að fá nýjar tekjur eða lántökur. Það er alveg rétt, að meiri hl. n. lítur þannig á, að rétt sé að halda áfram tilraunum, hliðstæðum þeim, sem hafa verið gerðar á Heggstaðanesi, um það, hvort jörð, hús og hey smiti fé, sem að sé fengið, þótt féð seinna lægi saman, en til þess ætti að vera heimild í síðasta kafla frv.

Ég skal ekki fara meira út í þetta um niðurskurðinn, en verð að svara hv. þm. Ak. nokkrum orðum, sem talaði með ákaflega miklum fítónsanda um þetta mál, eins og fyrri daginn. Hann réðst harðvítuglega á þær till., að upp væru teknar nýjar varnargirðingar, þar sem reynslan sýndi, að þær varnargirðingar, sem fyrirskipaðar væru í núgildandi l., væru orðnar ónýtar, því að veikin reyndist vera komin út yfir þær, og með þessari reynslu væri fengin sönnun fyrir því, að næstu varnarlínur myndu fara sömu leið, áður en þær væru komnar upp. Ég skal segja honum, að frá sjónarmiði þeirra manna, sem álíta veikina smitandi, og það er allur þorri bænda og allur þorri þeirra, sem eitthvað hafa kynnt sér, hvernig þessi veiki hagar sér, er talið sjálfsagt, að reynt verði að teppa samgöngur milli veikra svæða og ósýktra. Menn telja jafn sjálfsagt að framkvæma varnirnar gegn veikinni eins og þegar um hernað er að ræða, þá telji menn sér skylt að setja upp vígi, og jafnvel þótt það komi fyrir, að eitt vígið falli, þá er ekki venja, að kveða upp þann dóm, að úr því að eitt vigi sé fallið, sé sjálfsagt að yfirgefa annað og þriðja vigið. Sagan hefir sýnt það, mörgum sinnum, að þótt eitt vígi bili, geta þeir, sem í því vörðust, þó að lokum rekið óvinina af höndum sér. Þótt svo illa tækist til, að fyrstu varnargirðingarnar hafi ekki dugað, er skylda, frá sjónarmiði þeirra manna, er vilja hefta útbreiðslu smitandi veiki, að búa til aðra varnarlínu og þá þriðju. Frá sjónarmiði hv. þm. Ak. er alls eigi víst, að veikin hafi alltaf borizt út frá einum stað, heldur myndi hún vera til um allt landið. Frá sjónarmiði hans get ég skilið, að hann vilji engar varnarlínur hafa. Það er rökrétt afleiðing af slíkri skoðun, að engar varnir eigi að viðhafa, og hefðu alls ekki átt að vera neinar frá upphafi. Ég hefi orðið var við það, að aðrir þm. hafa talað um að sýna mér fram á, að hv. þm. Ak. hefði rétt fyrir sér í þessu, að varnirnar væru hér ekki aðeins tilgangslausar, heldur hreint og beint til hins verra, bæði vegna staðhátta og annars. Ég vænti þess, að þeir þm., sem lita þannig á málið, komi fram með það í ræðum eða láti það sjást með atkv. sínum, ef þeir hafa enga trú á, að spornað verði við útbreiðslu veikinnar með girðingum. Það er sízt ástæða til fyrir þá þm., sem eru úr þeim herbúðum eða fulltrúar fyrir þau héruð, þar sem varnargirðingar hafa verið settar upp, að segja, að þeir hafi enga trú á því, að varnir geti komið að liði. Vilja þeir taka á sig þá ábyrgð, sem fylgir því, að fella allar varnir niður, og láta veikina ganga sinn gang? Ég vil spyrja hv. þm. Ak. og aðra þm., sem kynnu að vera sömu skoðunar sem hann, hvort þeir vilji láta skeika að sköpuðu um það, hvort veikin kann að breiðast út yfir nærliggjandi héruð?

Landbn. álítur ekki nokkra leið færa til að útrýma veikinni aðra en niðurskurð. En honum fannst n. taka of fullan munninn, vegna þess að hann, sjálfur dýralæknirinn, hefir lýst því yfir, að hægt væri að stöðva veikina á annan hátt. Honum finnst firn mikil, að landbn. skyldi ekki taka meira tillit til orða hans. Hv. þm. Ak. telur unnt að útrýma veikinni á annan hátt, en ég hefi aldrei heyrt nein rök, sem séu svo sannfærandi. að menn vilji almennt telja þær leiðir bjargráð eða gætu tekið þær til greina. Honum hefir því miður ekki ennþá tekizt að sannfæra nema mjög fáa menn um, að svo sé. Ég verð að hryggja hann með því, að þrátt fyrir sérfræðiþekkingu hans á þessu sviði, hefir hann ekki getað sannfært mig né landbn. Þora þeir menn, sem þekkja veikina, að halda því fram, að hann hafi á réttu að standa? Mér þykir mjög leitt, ef þessi hv. þm. situr einn uppi með allan sinn vísdóm, eins og hann vill láta í veðri vaka, að hann skuli ekki hafa haft tækifæri til að sannfæra sauðsvartan og fáfróðan almenning um þetta mikilvæga mál og þá menn, sem hafa til að bera einhverja vísindalega þekkingu og reynslu á þessu sviði.

Þá hélt hv. þm. Ak. því fram, að sauðfjárfækkunin væri ekki af völdum mæðiveikinnar. En af hvers völdum er hún þá? vildi ég spyrja. Þessi hv. þm. heldur því ef til vill fram, að bændur hlaupi í að skera fé sitt niður af tómri hræðslu við þessa veiki? En þetta er mjög mikil misskilningur hjá honum. Ef allar fullyrðingar hans byggjast á álíka mikilli þekkingu sem þetta, gef ég ekki mikið fyrir þær. Ég get sagt honum um eitt dæmi, sem mér er einkum kunnugt um og sýnir vel, hvernig veikin hefir hagað sér. Bóndi einn setti á 230 ær í fyrra. Þegar kemur fram á miðjan vetur, byrjar veikin að drepa féð, en hann sker enga kind, fyrr en hún er komin í dauðann, svo að það er ekki honum að kenna, þótt féð hrynji niður, enda varð sumt sjálfdautt. Í vor sem leið, þegar hann rekur á fjall, hefir sumt af því fé verið orðið veikt og drepizt í sumar, því að síðastl. haust vantaði hann af fjalli 60 fjár, sem hann finnur hræið af hingað og þangað. Svo þegar hann er búinn að ná saman sínu fé, athugar hann það og sér þá á mörgu af því, sumt er jafnvel komið í dauðann. Hann slátrar eingöngu því, sem á sér. Svo rekur hann féð saman hálfsmánaðarlega, og þá koma alltaf nýjar og nýjar kindur meira og minna veikar og sumar langt komnar. Þessu heldur hann áfram í allt haust fram yfir jól, og þá eru eftir af þessum stofni 70–80 ær. Þá hættir hann að skera, og nú mun hann ekki eiga eftir nema um 60 ær. Hverju er það að kenna, að þetta fé hefir farið, ef það er ekki af völdum veikinnar? Heldur hv. þm., að menn séu að gera það að gamni sínu að drepa féð, eða að það deyi úr ímyndunarveiki vegna þeirra umr., sem hér hafa farið fram á Alþ. og í blöðum landsins?

Þá var hv. þm. að álasa n. fyrir það, að hún hefði gengizt fyrir því, að fram færi atkvgr. meðal bænda á mæðiveikisvæðunum um afstöðu þeirra til þessa máls. Og sagði hann, að n. hefði beðið um dóm bænda í rökþrotum sínum og vandræðum. Hann getur haft um þetta, hvaða orð sem honum þóknast, en ég skal skýra það fyrir honum, af hvaða ástæðum það var, sem n. lagði þetta til, það er vegna þess fyrst og fremst, eins og ég sagði áðan, að meiri hl. n. lítur þannig á, að innan skamms, ef tekst að hefta útbreiðslu veikinnar, þá beri að vinna að niðurskurði og fjárskiptum. Hinsvegar var n. það ljóst, að ekki þýddi fyrir löggjafarvaldið að samþ. með valdboði lög um fjárskipti og niðurskurð, ef meginþorri bænda væri á móti því. Þess vegna var nauðsynlegt að vita um vilja bændanna sjálfra, fá af stað umr. og athugun á þessu máli, til þess að þeir væru búnir að gera sér glögga grein fyrir því, ef til þess kæmi að Alþ. samþ. slíkan niðurskurð, því að þetta væri alveg óframkvæmanlegt, nema með samstilltum vilja bænda og löggjafarvalds. Það er því algerlega út í bláinn sagt, að n. hafi viljað skjóta sér undir dóm bændanna í rökþrotum sínum og vandræðum.

Þá talaði hv. þm. mikið um það, að mistök hefðu orðið hjá þeirri vísindastofnun landsins, sem með þetta mál hefir farið. Mér dettur ekki í hug að neita þessu. Ég veit, að frá upphafi hafa orðið mikil mistök um meðferð þessa máls hjá þeim vísindamönnum og vísindastofnunum, sem sérstaklega var falið að hafa rannsóknina með höndum. Og því er ekki að neita, að fyrir þessi mistök er komið sem komið er, að útbreiðsla veikinnar er orðin svo mikil. Ef þeir hefðu fyrr áttað sig á því, hvað hér var um að vera, hefði verið hægt að stemma stigu fyrir útbreiðslu veikinnar, meðan hún var skemmra komin. En hitt verð ég að segja hv. þm., að ég hefi ekki orðið var við, að hann eða samherjar hans bentu á neina þá leið út úr ógöngunum, sem fær væri, og meðan svo er, situr ekki á þeim að deila á aðra fyrir mistök. Það er ákaflega hægt að berja sér á brjóst með faríseisku drambi og segja: Mikið andskoti eru þeir vitlausir! — Það er þetta, sem hv. þm. réttilega nefndi Pílatusarþvott, og það var slíkur þvottur, sem fram fór á höndum hans hér áðan. En ég teldi segja við hann hið fornkveðna: „Þegar þú þværð, þá þvoðu hreint“ — og ég vildi óska, að honum tækist að þvo hreint í þessu máli.

Og ég vil ásaka þennan hv. þm., sem hefir haft trú á því, að hann sæti uppi með alla vizku í þessum málum, að hann skuli ekki fyrir löngu hafa farið fram á það við fjárveitingavald landsins, að honum væri fengið í hendur fé til þess að gera úrslitatilraunir í þessum efnum. Og ég vildi gjarnan leggja til þess, að hv. þm. væru fengin í hendur fjármunir, sem nægðu til þess að sýna og sanna það, sem hann heldur fram, að hann þekki eðli og gang veikinnar og kunni tök á að útrýma henni.