10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1224 í B-deild Alþingistíðinda. (1830)

138. mál, mæðiveiki

*Gísli Sveinsson:

Herra forseti! Það má með sanni segja, að þegar ég og e. t. v. fleiri úr hópi þm. taka til máls í þessu máli, þá sé það sem sérstaklega miklir leikmenn í sumum þeim atriðum sem hér hafa fram komið. En þó er þess ekki að dyljast, að mikill hluti þessa máls er ekki aðeins snertandi þá þjóðarfulltrúa, sem hér eiga sæti, heldur líka allan almenning um land allt, og ekki aðeins — eins og nokkuð hefir viljað við brenna, að látið hafi verið í ljós — þær nefndir, sem fjallað hafa um þetta mál, og þær rannsóknarstofnanir, sem haft hafa ýmsar athuganir með höndum þar að lútandi, né heldur þau héruð, sem kölluð eru pestarsvæði. Ég vil sem sagt slá því föstu, að það er langt frá því, að svo sé, og ef n. hefir haldið það, eins og nokkuð af því, sem fram hefir komið, ber vott um, að þetta væri einkamál þessara stafnana og pestarsvæðanna, þá er það hinn mesti misskilningur. En af þessari skoðun, sem virðist vera nokkuð rík hjá þessum aðiljum, hefir það leitt, bæði á síðasta Alþ. og eins nú, að málinu er ekki skilað í hendur þingsins fyrr en á síðustu stundu, þessu mesta vandamáli, sem komið hefir upp hér á landi í manna minnum, þ. e. a. s. eins og búið er að gera það að vandamáli. Því að það er líka sannast sagna, að þetta mál hefir í höndum þeirra aðilja, sem um það hafa fjallað, verið gert að slíku höfuðvandamáli, að nú greinir varla á milli, hvað er helber vitleysa, og í hverju geti verið eitthvert vit. Þetta kemur sem sagt á síðustu stundu, svo að engin tök eru á því að athuga það og ræða hér eftir. Menn verða að gleypa þetta meira og minna hrátt og sjá svo, hvernig mönnum verður það að góðu, og helzt er ég á því, að það verði, eftir því sem lengra líður, æ tormeltanlegra.

Ég víti þessa aðferð, sérstaklega þar sem svo er, að í þessu máli hefir setið nefnd árlangt, sem átti að undirbúa það, en þegar til kom, hafði ekki miklar breytingar fram að færa, frá því sem lögin hljóðuðu um. Nefnd þessi — vafalaust með miklum kostnaði — hefir að því er virðist setið á málinu, ferðast á málinu og flækzt á því, og síðan ekki komið með neitt jákvætt. Ég skal nú ekki um það dæma, hverju þetta er að kenna. Vafalaust hafa þessir menn verið í mestu vandræðum, eins og aðrir, með þetta mál. En e. t. v. hefði það verið nær fyrir hv. frsm. að segja það fyrir einu ári, að hann legði til, að málið yrði rannsakað frá annari hálfu, en fæstir af þeim, sem trúðu á sjálfan sig í þessu máli og trúðu á pestina, vildu heyra það né sjá. Nú veit ég að vísu, að það stendur til að veita hv. þm. Ak. styrk til þess að fara eitthvað og kynna sér þetta málefni. En hefði það ekki verið ráðlegra fyrir einu ári? Hv. frsm. spyr. hvers vegna hv. þm. Ak. hafi ekki sótt um fjárstyrk í þessu skyni. En var það ekki ríkisstj. og þeirra manna, sem ætluðu sér að fá vit í þetta mál, að gera gangskör að því, að það yrði rannsakað og kannað alhliða. Nei, það þótti sjálfsagt á fyrra ári að ana út í þessar framkvæmdir, og svo er enn. Það hefir sem sagt í meðferð málsins frá upphafi kennt þess, sem sízt skyldi í vandamálum, sem sé óðagotsins, og það kann aldrei farsælli lukku að stýra.

Þetta frv., eins og það kemur fyrir sjónir, er áframhald af þeim framkvæmdum og aðgerðum, sem notaðar hafa verið, og skal ég vitanlega ekki í einstökum atriðum um það dæma. En þegar þess er gætt, að stjórnarvöld landsins, sem að sjálfsögðu verða að bera hér nokkra ábyrgð, þær þingnefndir og aðrir aðiljar, sem skipaðir eru af slíkum stjórnarvöldum til þess að fara með þetta mál, sjá sér ekki annað fært en að halda áfram á sömu braut, þá vil ég leyfa mér — sem fulltrúi fyrir hérað, sem er svo heppið að hafa ekki lent í þessum vandræðum —að láta þess getið, að það er ekkert eðlilegra heldur en að slíkar ráðstafanir, sem hér er um að ræða, verði eingöngu kostaðar af almennu fé. Það er sem sé engin ástæða til þess að varpa svo og svo miklum kostnaði yfir á hin héruðin, sem hafa það eitt til sakar unnið, að pestin hefir ekki þangað komið, sérstaklega þegar þess er gætt, að ekkert liggur fyrir um það, hvort aðeins þau héruð eiga að bera þetta, sem eru utan þessarar svokallaðrar höfuðlínu, og þegar svo þar til viðbótar kemur, að nú þjóta þm. upp til handa og fóta, og hver vill fá sína höfuðlínu, til þess að girða sín kjördæmi af. En nú er það svo, að það liggur ekki neitt beint fyrir um það, hvar þessi pest er. Við sjáum að vísu á kortinu nokkur skil, en það er ómögulegt að átta sig á því, hvaða hreppar innan línunnar eru lausir við veikina. Við vitum, að það eru heilir hreppar vestan Þjórsár og eins vestan Héraðsvatna, þar sem veikin er ekki komin. Og hví eiga þá þeir hreppar að vera betur settir heldur en t. d. aðrir hreppar, sem liggja alveg við Þjórsá og Héraðsvötn að austan? Samt var haldið áfram að leggja gjald á hverja kind í hinum svokölluðu heilbrigðu héruðum, enda þótt innan þessarar höfuðlínu séu heil stór héruð, sem alveg eru heilbrigð, ef bara trúin væri ekki svona mikil. En hins er ekki að dyljast, að óáranin er mikil, sérstaklega í mannfólkinu, en engar skýrslur liggja fyrir um það, hvaða sótt er í því.

Ég hefi nú með þessum aths. reynt að rökstyðja það, að sjálfsagt sé, að þær framkvæmdir, sem hér er um að ræða, verði kostaðar af hinu opinbera, en að ekki nái nokkurri átt, að þeim kostnaði væri deilt niður á heilbrigðu héruðin með þeim hætti, sem hér er ætlazt til. Og í annan stað vil ég rökstyðja þetta með því, að með þessu, sem ég hefi nú talað um, er vitanlega ekki nema hálfsögð saga gagnvart hinum heilbrigðu svæðum, þar sem með þessum aðferðum er verið að rýja þau að framkvæmdamöguleikum. Til pestarsvæðanna fara sem sé allir styrkir til verklegra framkvæmda, hvort sem það er til jarðræktar, vegabóta, búfjárræktar eða annars, og þangað fara peningarnir, sem veittir eru til þess, að bændur á þessu svæði komist hjá því að greiða vexti af sínum lánum o. s. frv. En nú er mér spurn: Fá engir aðrir bændur þessi fríðindi, sem upp eru talin í 19. gr., heldur en þeir, sem orðið hafa fyrir tjóni af völdum mæðiveikinnar? Það væri gott að fá upplýsingar um það, því að lögin greina ekki svo skýrt þar um.

Ég mun svo ekki fara nánar út í þetta á þessu stigi málsins, því að það er ekki sú umr., að slíkt beri að gera. — En ég vildi aðeins að endingu segja það við hv. frsm., að hann skuli ekki imynda sér, að hann geti snúið máli sínu til hv. þm. Ak. á þann hátt að segja, að hann sé glópur, sem standi einn uppi í þessu máli. Það má nærri geta, að það renna tvær grímur á marga hv. þm. út af þessu máli, því að þótt hv. frsm. sé trúaður, þá er ekki að vita, að allir hafi öðlazt slíka sannfæringu sem hann.