10.05.1938
Neðri deild: 70. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1232 í B-deild Alþingistíðinda. (1834)

138. mál, mæðiveiki

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson:

Það eru aðallega tveir hv. þm., sem ég þarf að svara.

Hv. þm. V.- Sk. flutti alllangt mál um till. n., og gengu ummæli um trú og trúleysi eins og rauður þráður í gegnum alla hans ræðu. Ég held, að kirkjuráðsmaðurinn sé kominn svo ofarlega í hv. þm., að hann geti ekki talað um niðurskurð og fjársýki án þess að vefja það innan í umr. um trú og trúleysi. „Sýn mér trú þína í verki“. Það hefir enga þýðingu að vera með máttlaus illyrði í garð n. og segja allt hennar starf vitleysu eina, ef hv. þm. getur ekki komið fram með neina till. um, hvað eigi að gera. Hv. þm. var að vonzkast yfir vörnunum og bótunum, sem veittar væru. Ég vildi, að það hefði komið skýrt fram hjá hv. þm., hvað það er, sem hann vill hreyta, af því, sem n. leggur til.

Hv. þm. talaði mikið um, að þessu máli væri ekki skilað í hendur þingsins fyrr en síðustu daga þess og sagði, að n. hefði sýnt hið mesta óðagot í störfum sínum. Mér finnst þetta ekki fara vel saman, þegar n. liggur yfir málinu og athugar það allan þingtímann. Ég skal segja hv. þm., að einmitt vegna þess, að aðrar n. höfðu þetta mál einnig til athugunar, kom það síðar í hendur landbn. en ella. N. hefir kappkostað að vanda sem bezt undirbúning málsins og hefir safnað öllum þeim gögnum, sem hægt hefir verið að fá um það, og þetta er einmitt orsökin til þess, að hún hefir ekki getað komið fyrr fram með það en þetta. Það er því langt frá því, að hér sé um óðagot að ræða; þetta er eðlileg töf í meðferð málsins. ávítunum hv. þm., hvað þetta snertir, ætla ég því algerlega að vísa til baka. Og ég álít, að hann hefði miklu frekar getað vítt n. fyrir það, ef hún hefði ekki leitað sér allra þeirra gagna og upplýsinga, sem var að fá, áður en hún bar málið hér fram.

Þá minntist hv. þm. á þau orð, sem fóru á milli mín og hv. þm. Ak., þar sem hann sagði, að ég hefði ásakað sig um, að þeir, sem hefðu sterka trú á sinni vizku í þessu máli, skyldu ekki hafa hafizt handa og heimtað stuðning af ríkisvaldinu til þess að koma áformum sínum í verk. Vitanlega er það fremur hans og þeirra manna, sem á það trúa, að berjast fyrir því, að þessum kyndlum verði brugðið á loft, sem hv. þm. talaði svo fagurlega um. Ég segi eins og áður, að mér finnst rétt að fá úr því skorið með raunhæfum tilraunum, hver hafi rétt fyrir sér, hv. þm. Ak. eða aðrir, sem ekki eru honum sammála, enda þótt ég hafi ekki sannfærzt af hans málaflutningi, að hann hafi á réttu að standa.

Í ræðu hv. þm. V.-Sk. kom fram hin lægsta kjördæmaeigingirni, þegar hann var að telja eftir þann styrk, sem veittur hefir verið til þeirra héraða, sem liggja flakandi í sárum eftir mæðiveikina, og þau litlu gjöld, sem lögð eru á sauðfjáreigendur í þeim sveitum, sem verið er að verja. Það stendur einhversstaðar fögur setning um, að menn eigi að bera hver annars byrðar. Og hverjir eiga frekar að hlaupa hér undir baggann en þeir bændur, sem hafa verið svo lánsamir að sleppa við þetta tjón? Hverjir eiga frekar að leggja á sig einhverja skatta en þeir, sem vörnunum er haldið uppi fyrir? Ef menn hafa trú á því, að vit sé í vörnunum, virðist mér afareinfalt mál, að þeir, sem eiga að leggja eitthvað á sig varnanna vegna, séu bændurnir, sem búa fyrir utan pestarsvæðið.

Þá var hv. þm. að æðrast út af því, hvað litlar upplýsingar kæmu frá n. Mér skildist hann ætlast til, að við teldum upp hvern einasta bæ á landinu, þar sem veikin hefir komið. Veit ég ekki, hvað á því væri að græða. Ég gat hér um aðalpestarsvæðin, og hélt ég, að það væri nóg til þess, að menn gætu gert sér grein fyrir útbreiðslu veikinnar.

Hv. þm. var að vonzkast út af því, hvernig bótafjárins væri aflað, og sagði, að n. væri á síðustu stundu með sínar till. Ég held, að hv. þm. sé ekki á síðustu stundu með þessar aths., heldur á eftir síðustu stundu, því að þetta átti að ræða um leið og fjárlögin.

Hv. þm. talaði um, að allt fé, sem veitt væri til framkvæmda úr ríkissjóði, færi til þessara pestarsvæða, en önnur héruð landsins stæðu uppi févana og framkvæmdalaus á öllum sviðum. Ég hefi verið að líta yfir fjvn. plöggin, og mig minnir, að eitthvert vegafé sé veitt til V.-Sk. Ég hygg, að ef hv. þm. færi í gegnum till. fjvn., myndi hann sjá, að það er ekki öllu minna fé varið til vegagerða og annara framkvæmda í hinum ósýktu sýslum landsins en undanfarið, svo að þetta er alveg út í bláinn hjá hv. þm. Ég veit og ekki betur en að um úthlutun jarðabótastyrks gildi sömu reglur og áður, svo að það mál kemur ekki þessu við.

Hv. 2. þm. Skagf. gat þess í ræðu sinni, að hann væri ekki fyllilega samþykkur því, sem stæði í nál. meiri hl. n.; hann teldi ekki sýnt, að niðurskurður og fjárskipti væru eina hugsanlega leiðin til þess að losna við pestina, eins og sakir standa. Eg veit þó ekki, hvaða ráð menn hugsa sér önnur. Hitt er annað, að margir eru sammála um, að enn sé ekki fenginn grundvöllur til að framkvæma þau fjárskipti á tryggilegan hátt, en þann grundvöll er verið að skapa, m. a. með þeirri tilraun, sem nú er verið að framkvæma í Heggstaðanesi.

Hv. þm. Ak. flutti hér langt mál og lært, eins og hans er vandi í þessum málum. Hann fullyrti, að með lækningum gæti hann algerlega ráðið niðurlögum veikinnar. — Mér finnst það alveg óafsakanlegt, ef hv. þm. er sannfærður um, að hann sitji inni með alla þekking og skilning, sem til sé á málinu, að hann skuli ekki enn hafa hrundið af stað neinum raunhæfum framkvæmdum. Það er ekki nóg að standa upp hér á Alþingi með hrókaræður, þar sem eitt orðið er á latínu, annað á íslenzku og þriðja á grísku, og láta ekkert verða úr því nema orðin tóm. Hann getur ekki vonazt til þess, að þeir menn, sem hafa enga reynslu um og takmarkaða trú á þessum einkavísdómi hans, geti beitt sér fyrir því í hans stað. að veitt verði mikið fé til slíkra tilrauna. Hann vildi af sinni hálfu halda því fram, að öll ráð, sem reynd hafa verið, séu gagnslaus; girðingarnar væru þýðingarlausar, því að mæðiveikin sé afbrigði af algengri lungnaveiki. Þessu verður ekki trúað án sannana, og skal ég ekki deila við hann um það. En bændur, sem þekkt hafa flestar fjárpestir, sem hér hafa komið fram, segjast aldrei hafa séð neitt fyrirbrigði, sem líkist þessu, hvorki að einkennum né því, hve margt drepst. (SEH: Það hafa glöggir menn fullyrt við mig, að þeir hafi séð þetta áður). Ég veit, að þeir munu ekki vera margir. Menn hafa þá reynslu, að hvar sem ósjúkt fé kemur saman við sjúkt, smitast það og veikin brýzt út. — Þó að ýmsir þm. hafi þá skoðun, að hv. þm. Ak. hafi hér eitthvað til brunns að bera, getur hann ekki búizt við því, að það verði gert fyrir hans orð að fella niður allar varnir gegn útbreiðslu veikinnar. Enda veit ég ekki, hvort hann telur sig færan að bera ábyrgð á því. Það er engin leið að skella ábyrgðinni á óþurrkana og kenna þeim um í útbreiðslu veikinnar. Óþurrkar hafa verið hér á landi fyrr, og engin slík fjárpest komið.

Það mundi gleðja marga, ef hv. þm. talaði minna og gerði meira. Hann talaði um, hvort hann mundi fá að gera tilraunir á fé, þegar hann kæmi aftur frá Þýzkalandi með fangið fullt af læknisdómum. Ég get tekið undir ummæli hæstv. núv. atvmrh. frá síðasta þingi. Ég hygg, að bændur á fjárpestarsvæðunum álíti fjárstofn sinn svo vafasama eign, að þeir mundu vafalaust leyfa honum að gera á honum tilraunir sínar.