10.05.1938
Neðri deild: 71. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1236 í B-deild Alþingistíðinda. (1838)

138. mál, mæðiveiki

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég ætla að segja frá áliti n. Ég skal geta þess, að n. getur ekki fallizt á brtt. N. telur, að það eigi að nota heimild 7. gr. til að koma upp girðingum undir ýmsum kringumstæðum, og það á einkum við um girðinguna úr Þorskafirði í Ísafjörð. Þar er fyllilega greiddur allur kostnaður við efniskaup, svo að aðeins er eftir flutningur og uppsetning.

Það er að vísu svo með aðrar girðingar, sem n. gerir ráð fyrir eftir 7. gr., að það er ekki unnt að fá fullan 35 au. styrk, því að takmarkið er 50 au. á kind. Þannig næði hvorki Snæfellsnes eða Reykjanes 35 au. á metra, því að féð er þar færra en svo, að komizt upp í 50 au. markið. En fjárfjöldinn er svo mikill í Ísafjarðarsýslu, að þar fengist kostnaðurinn uppborinn.

Út af því, sem hv. þm. Barð. minntist á, vil. ég geta þess, að n. áleit réttara að hafa Þorskafjarðarlínuna sem aðalgirðingu, með því að vænta mætti, að veikin væri ekki komin út fyrir þá línu. Ef þeir, sem búa vestan línunnar, telja sig samt ekki örugga, er nóg heimild fyrir framkvæmdastj. að veita styrk til varagirðingar. Hitt kemur ekki til mála, að setja upp báðar girðingarnar sem aðalgirðingar.

Alveg það sama má segja um girðingarnar á Snæfellsnesi og Reykjanesi, og þó er tiltölulega enn ríflegri styrkur til Kollafjarðarlínunnar en þeirra.

Um brtt. hv. þm. Barð. á þskj. 526, um að flytja girðinguna út í Berufjörð, vil ég segja það, að ég hefi aflað mér upplýsinga því viðvíkjandi hjá framkvæmdarstjóra varnanna, og hann leggur á móti brtt. með þeim rökum, að það sé meiri hætta á, að veikin kunni að leynast í Berufirði en ef girðingin sé lögð í Þorskafjörð. Hann segir, að síðastl. haust hafi þess verið gæft vandlega að lóga fé vestan Þorskafjarðar, en aftur á móti ekki austan Þorskafjarðar, á því svæði, sem hv. þm. Barð. hefir í huga. N. leggur því á móti brtt. hans. Reynslan hefir sýnt, að girðingar hafa farið of nærri sýktum svæðum til að reyna að bjarga sem flestu fé. Fram hjá þessari hættu vili n. reyna að stýra.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð. Mér finnst á till. hv. þm., að þeir hafi ekki allir sannfærzt um, að girðingar séu út í bláinn, eins og hv. þm. Ak. vill halda fram.