10.05.1938
Neðri deild: 72. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1238 í B-deild Alþingistíðinda. (1844)

138. mál, mæðiveiki

*Thor Thors:

Þetta er síðasta umr. þessa máls, og má því segja, að e. t. v. sé ástæða til að fara út í almennar umr. um það, en nú er tími þingsins orðinn svo naumur, að ég ætla ekki að leyfa mér það, þótt ég hafi fullan hug á að fara nokkrum almennum orðum um þennan mikla vágest, sem steðjar að landbúnaðinum, og þá þungu raunasögu, sem liggur á bak við þetta mál.

Það er ekki óeðlilegt, þótt Alþ. láti sig þetta mál miklu skipta, vegna þess fyrst og fremst, hver voði er framundan fyrir þá bændur, sem hér eiga hlut að máli, og í öðru lagi má e. t. v. rekja þessa raunasögu til afskipta Alþ. í fyrstu.

Það, sem aðallega er farið fram á samkv. þessu frv., er, að nýr varnargarður sé settur gegn útbreiðslu veikinnar. Ég verð því miður að taka eindregið undir með þeim hv. þm., sem hafa látið í ljós, að þeir telji vonlaust, að þessar varnargirðingar komi að verulegu gagni, og það ber að játa, að hér er um tilraun að ræða af hálfu Alþ., sem mjög virðist gerð út í bláinn, með því að ekkert er raunar vitað um þessa veiki, hver hún er eða hvernig hún berst, en það er sjálfsagt, úr því sem komið er, að láta einskis ófreistað til að reyna að stemma stigu fyrir frekari útbreiðslu veikinnar. Þessi vágestur hefir haldið áfram að leggja undir sig ný og ný héruð, og frá því að þetta mál var rætt á Alþ. síðast, hefir veikin meðal annars breitt sig inn í kjördæmi það, sem ég er fulltrúi fyrir. Sértakar varnargirðingar höfðu verið settar á sýslumörkum Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu og Mýrasýslu, en þrátt fyrir það er veikin komin inn í austustu hreppa sýslunnar, og má búast við. að hún sé orðin landlæg í tveimur hreppum Hnappadalssýslunnar. Þess vegna er ráðgert að setja enn á ný varnargirðingu fyrir ósýkta svæðið í Snæfellsnessýslunni, sem talið er hér að vera frá Skaganesi yfir nesið í Álftafjörð. Ráðgert er, að féð til þessarar varnarlínu sé að miklu leyti frá hlutaðeigandi sauðfjáreigendum, og er gert ráð fyrir, að ríkið styrki þá sem nemur 50 au. á hverja kind. Mun það vera um 15 þús. fjár, sem þessi girðing næði til, og því ekki um meira fjárframlag að ræða frá ríkinu en 7500 kr.; það er gert ráð fyrir, að girðingin kosti um 20 þús. kr., og fjáreigendur yrðu þá að leggja fram 12500 kr. Ég ætla að staðhæfa. að það sé þeim algerlega um. megn að leggja þetta fé fram. Mér finnst málið horfa þannig við, að ekki sé spurning um, að koma verði girðingunum upp, en þær geta ekki komizt upp, ef það á að hvíla á bændunum sjálfum, og fyrir ríkisvaldið horfir þetta þannig við: Borgar sig betur að láta veikina breiðast til 15 þús. fjár í viðbót, og verða svo að taka við þessum sveitum niðurníddum og fátækum, eða að kosta girðingarnar? Ég tel hyggilegra frá fjárhagslegu sjónarmiði, að ríkið borgi þær. Ég hefi því borið fram till. um. að ríkið byggi þessa línu; brtt. er á þskj. 522.

Þá vil ég leyfa mér að spyrja hv. frsm. n., hvort ekki sé ætlazt til, að þær sveitir, sem nú eru að falla fyrir veikinni, geti notið styrks samkv. frv.? Í 23. gr. segir, að framkvæmdan. eigi að ákveða í lok aprílmánaðar, hve mikils styrks sauðfjáreigendur megi vænta ár hvert. Eftir því ætti framkvæmdan. að vera langt komin með að undirbúa úthlutun þessa fjár. Tel ég það mikið ranglæti, ef þær sveitir, sem einmitt um þessar mundir verða fyrir tapi af völdum veikinnar, gætu ekki þegar á þessu ári notið fjárframlags úr ríkissjóði. Það er vitanlegt, að þær sveitir, sem eru nú fyrst að verða fyrir þeim töpum, þurfa ekki síður styrks en þær, sem þegar hafa mætt þeim.