10.05.1938
Neðri deild: 72. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1239 í B-deild Alþingistíðinda. (1847)

138. mál, mæðiveiki

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Út af þeirri fyrirspurn, sem hv. þm. Snæf. bar fram til mín um það, hvort þeir styrkir, sem ætti að veita samkv. þessu frv., næðu ekki til þeirra, sem missa fé sitt nú um þessar mundir, skal ég svara því, að vitanlega á þessi styrkur að ná til allra, sem fyrir fjármissi verða af völdum veikinnar, meðan l. eru í gildi. Ég hygg, að það verði þannig í framkvæmdinni, að tekið verði fyrir um eða upp úr hverjum áramótum að safna skýrslum um, hvaða menn í viðkomandi sveitum hafa misst fé úr veikinni, og síðan verði úthlutað styrk eftir þeim reglum, sem n. setur sér, allt frá áramótum og fram á vor, en þeir menn, sem byrja að missa fé um það leyti, sem n. er að úthluta styrknum fyrir það tímabil, koma ekki til greina fyrr en næsta ár. Ég veit, að til eru menn, sem eru að byrja að missa úr veikinni nú, en ég geri ekki ráð fyrir, að þeir komi til greina fyrr en á næsta ári, enda betra að sjá þá. hvern usla veikin hefir gert.

Ég verð að segja út af till. hv. þm. Snæf., sem hann var að tala fyrir, að mér finnst ekki fullkomið samræmi í því og upphafi ræðu hans, þegar hann var að tala um, hve litla trú hann hefði á því, að girðingarnar kæmu að notum, en vildi svo kosta þær úr ríkissjóði. Það má vel vera, að girðingarnar komi ekki að fullum notum, og svo virðist vera eftir reynslu síðasta árs, en þá greiddi ríkissjóður girðingarnar og þær voru miskunnarlaust heimtaðar þangað, sem þær komu að litlum eða engum notum. Ég er viss um, að ef sú regla hefði þegar verið tekin upp í byrjun, að láta sveitirnar greiða einhvern hluta girðinganna, þá hefði verið meiri trygging fyrir því en áður, að girðingarnar hefðu ekki verið settar annarsstaðar en þar, sem vissa hefði verið fyrir, að þær kæmu að fullum notum, og þetta er ein aðalástæðan fyrir því, að ég mæli með því, að girðingarnar verði að nokkru leyti kostaðar af þeim mönnum, sem sérstaklega eiga að nota þær.