10.05.1938
Neðri deild: 72. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1240 í B-deild Alþingistíðinda. (1849)

138. mál, mæðiveiki

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég vil aðeins leiðrétta misskilning hv. þm. Snæf. um, að búið sé að veita fé það, sem nú á að veita hér í fjárl. Nú er verið að úthluta fé, sem veitt var í fyrra, og af því er öllum veitt, sem skýrslur eru komnar um til n., að hafi orðið fyrir töpum af völdum veikinnar. Býst ég við, að einn af skjólstæðingum hv. þm. Snæf., bóndinn í Hítarnesi, verði meðal þeirra, sem fá hjálp nú, þegar þessu fé verður úthlutað. Þegar því verður lokið, verður komið langt fram á næsta vetur, og þeir, sem á þeim tíma hafa orðið fyrir töpum af völdum veikinnar, koma auðvitað til greina við næstu úthlutun, en það er ekki hægt að veita mönnum styrk jafnóðum, heldur verður að gera það einu sinni á ári, þegar skýrslur eru komnar til n.