11.05.1938
Efri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1245 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

138. mál, mæðiveiki

*Erlendur Þorsteinsson:

Eins og hv. 1. þm. N.-M. tók fram, er þetta eitt af stærstu málunum, sem fyrir Alþ. liggja, og það útgjaldafrekasta. Hv. 1. þm. N.M. hefir nú skýrt málið, þó að það hafi sennilega lítinn árangur borið, þar sem hv. þdm. sýna ekki málinu meiri áhuga en svo, að hv. 1. þm. N.-M. talaði yfir tómum stólunum.

Ég ætla ekki að fara inn á málið almennt. Það hefir verið rætt á sameiginlegum fundum landbn. beggja d., og eins við framkvæmdarn. þá, sem skipuð hefir verið í málinu. Eins og frv. her með sér, vildi meiri hl. n. ekki leggja til, að tekinn yrði inn kaflinn um niðurskurð, því að nm. var ljóst, að það er ekki hægt að gera sér grein fyrir, á hvaða stigi málið er, og hvort þessar varnir komi að notum. En frá mínu sjónarmiði er það að segja, að ég er fylgjandi því, að fé verði lagt fram til þess. Ég vil ekki eiga á hættu, að ekkert verði gert, ef varnirnar kynnu að koma að notum. Hinsvegar er undirbúningur málsins svo og framkvæmd varna. að ástæða er til að átelja það, þar sem í upphafi voru settar dýrar girðingar, sem ekki hafa komið að neinum notum. Og nú hefir risið upp mikil deila á meðal þeirra manna, sem um málið hafa fjallað, rannsóknarstofu háskólans annarsvegar og nokkurra dýralækna hinsvegar, um það, hverskonar veiki sé hér um að ræða. Hv. þm. Ak. hefir í Nd. gert mjög skýra grein fyrir áliti sínu. En um þetta þýðir ekki að deila hér, heldur hitt, hvað hægt er að gera nú til að hindra, að meira tjón verði af völdum veikinnar en þegar er orðið.

Eins og ég tók fram áðan, var meiri hl. landbn. sammála um að láta ekki fara fram niðurskurð, þar sem það er órannsakað mál, hvernig veikin hagar sér og hvort ósýktar kindur geta smitazt á svæðum, sem búið er að skera niður í. En það verða menn að vita með vissu, áður en til niðurskurðar kemur. Hinsvegar eru 2 hv. þm. úr landbn. þingsins ekki sammála, að því er snertir niðurskurð. Hv. þm. Borgf. vill niðurskurð á allstóru svæði í Borgarfirði, en hv. 1. þm. N.--M. vili láta skera á öðru svæði.

Það er tekið fram í 5. gr. frv., hverjar aðalvarnarlínurnar skuli vera. Í frv. var ákveðið upphaflega, að aðalvarnarlinan skyldi vera frá Kollafirði til Ísafjarðar. Meiri hl. landbn. beggja d. tók aðallínuna milli Steingrímsfjarðar og Þorskafjarðar, en ætlaðist til, að linan frá Kollafirði til Ísafjarðar yrði styrkt. við vildum hafa báðar línurnar aðallínur, og rök okkar eru þau, að á svæðið milli girðinganna hafa komizt kindur af því svæði, sem sýkt var, svo að ekki var öruggt, að það væri ósýkt. Eins var það upplýst, að það mundi vera vafasamt, hvort linan á milli Kollafjarðar og Ísafjarðar yrði lögð með þeim styrk, sem ákveðinn er í frv. Nú er það og upplýst af hv. 1. þm. N.-M, að fyrir vestan þetta svæði, sem yrði þannig varið, er geysimikið af fé, sem yrði hægt að verja með aðallínu frá Kollafirði til Ísafjarðar. Ég vil því með hv. 10. landsk. þm. bera fram skrifl. brtt. um þetta. Það er óverjandi af Alþ., úr því að það á annað borð tekur málið þessum tökum, að gera það ekki svo, að að gagni verði, og það er betra að leggja nú þegar fram nægilegt fé en að eiga það á hættu, að stórir landshlutar sýkist.

Það eru fáir þm. hér, sem vilja heyra rök okkar hv. 1. þm. N.-M., svo að ég skal ekki hafa mál mitt lengra. Ég býst við, að þeir, sem fjarstaddir eru, séu búnir að kyna sér málið og þykist ekki þurfa frekari skýringa við.