02.03.1938
Neðri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1874)

34. mál, atvinna við siglingar

*Avmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég mun ekki mæla gegn því, að frv. fari til n., en ég vil biðja þá hv. n. að athuga frv. vel og rækilega áður en hún leggur það fyrir hv. d. Ég sé, að í grg. frv. er vísað til löggjafar á Norðurlöndum í þessum efnum. Ég vil benda hv. frsm. og 1. flm. á það, að nú er verið að athuga löggjöf Norðurlanda um þetta efni, sérstaklega að því er snertir mannfjölda á skipum, vaktaskipti og annað, sem þar að lýtur. Þessi ákvæði, sem hér er gert ráð fyrir að breyta í gildandi löggjöf, eru mörg nýlega sett, og verður því að telja ákaflega mikið fljótræði að ætla að fara að raska l. strax aftur. Þegar þau ákvæði, sem nú gilda, voru samþ., var enginn ágreiningur milli flokka í þinginu um afgreiðslu málsins. Það sjónarmið, sem þá ríkti í hugum manna, var það, að svo tryggilega yrði gengið frá skipun yfirmanna á flotanum, að eins fullkomið öryggi væri fengið fyrir líf manna um borð í skipunum og unnt væri að fá. Ég tel mjög misráðið, að horfið sé frá þessu svo fljótt sem hér er gert ráð fyrir. Það er enginn skaði skeður, þó að beðið sé með afgreiðslu þessa máls þar til í ljós kemur, hvað ofan á verður hjá nágrannaþjóðum okkar. Svo að ég bendi á eitt atriði í sambandi við tölu stýrimanna á 300 tonna skipum, sem flestir togarar okkar Íslendinga eru, þá er í frv. ekki gert ráð fyrir nema 1 stýrimanni auk skipstjóra. Í l. var ekki gert ráð fyrir nema 1 stýrimanni, þangað til þeim var breytt 1936 í núverandi horf. En formaður Sjómannafél. Rvíkur hefir sagt mér og leyft mér að hafa eftir sér, að seinustu 10 árin hafi togararnir svo að segja allir skráð 2 stýrimenn á skip, þó að ekki hafi verið skylt í l. fyrr en á síðasta ári að skrá nema einn. Ég verð að telja það ákaflega mikið spor aftur á bak, ef 10 ára venju í þessu efni væri raskað, ekki sízt þegar búið er að lögfesta þau ákvæði, sem hér um ræðir, fyrir 2 árum.

Þá vil ég minnast á annað atriði, en það er það, að með því að fækka yfirmönnum af lægra stigi á skipunum, eins og gert er ráð fyrir í frv., bæði stýrimönnnm og vélgæzlumönnum, þá verður miklu torveldara hjá þeim, sem keppa eftir æðra stiginu, að fá lögboðinn siglingatíma sem stýrimenn eða aðstoðarmenn við vél, en að sjálfsögðu verður þetta athugað af þeirri n., sem fær málið til meðferðar.

Ég skal svo ekki lengja umr. um málið á þessu stigi. Ég vil aðeins skjóta því til n., að það er nauðsynlegt að athuga þetta sérstaklega.

Loks vil ég mega vænta þess, að þetta þing tryggi í l. eins mikið öryggi og unnt er fyrir þá, sem vinna á skipunum og hina, sem ferðast sem farþegar á þeim.