02.03.1938
Neðri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1252 í B-deild Alþingistíðinda. (1875)

34. mál, atvinna við siglingar

*Pétur Ottesen:

Það getur náttúrlega vel verið, að hæstv. atvmrh. líti svo á, að það sé enginn skaði skeður, þó að það dragist enn að gera þær breyt. á l. um atvinnu við siglingar, sem í þessu frv. felast, og jafnvel þótt nokkuð lengra væri gengið en í frv. felst nú, því að mér virðist þetta geta orkað tvímælis. Þetta sést bezt á þeirri óánægju, sem risið hefir upp út af þessu meðal útgerðarmanna og sjómanna. Að því er snertir mótorbáta, sem fiska innan fjarða og koma daglega úr róðri, er það nú svo, að þær breyt. um aukið stýrimanna- og vélamannahald á bátum, sem stunda fiskveiðar með slíkum hætti, eru að dómi sjómanna sjálfra alveg gersamlega óþarfar og þess vegna ekkert nema íþynging á útgerðinni. Það má líka skoða þetta út frá því sjónarmiði, að það er vitað, að í sumum verstöðvum hefir þessi löggjöf, eftir því sem mér er sagt, verið gersamlega hundsuð; það hefir verið gengið framhjá henni og ekki verið borið við að lögskrá þessa menn á bátana eða að hafa neina slíka menn á bátunum. Mér er sagt, að t. d. suður með sjó hafi. það verið svo á síðustu vertíð, að menn hafi aðeins verið slysatryggðir á bátana, en alls ekki lögskráðir á þá, til þess að komast framhjá þessu, sem útgerðarmenn og sjómenn töldu alveg óþarft, að þurfa að hafa stýrimann á minni báta og 2 vélstjóra á samskonar báta. Ég hefi heyrt, að það hafi verið talsverð brögð að þessu, og hæstv. ráðh. er vel kunnugt um, að það voru a. m. k. einir 6 bátar á Akranesi, sem ekki gátu fullnægt þessu skilyrði að því er snertir vélamennina, af því að það var enga slíka menn hægt að fá á bátana. Hæstv. ráðh. er þetta kunnugt, af því að mér var falið að sækja um undanþágu frá l. að því er þetta snertir, og þegar það fékkst ekki, sendi ég hæstv. ráðh. símskeyti, þar sem ég fór fram á það við hann fyrir hönd þeirra, sem hlut áttu að máli, að aflað yrði heimildar með bráðabirgðal. til þess að veita þessa undanþágu, þar sem hún væri ekki til í gildandi l., svo að það þyrfti ekki að reka þessa báta í trássi við lög og rétt, eða að öðrum kosti, ef framfylgja ætti l., þá yrði að láta bátana liggja óhreyfða yfir vertíðina eða þangað til breyt. fengist á Alþ. Þetta er hæstv. ráðh. fullkunnugt um, og ég veit ekki til, að neinar ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að kyrrsetja þessa báta eða sækja þá menn til sekta og skaðabóta, sem eru að reyna að draga björg í bú án þess að geta uppfyllt ákvæði l. að því er þetta snertir. Ég held því, að það sé fyllsta þörf á að breyta l. í þessu efni, þar sem það er álit þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli, sjómannanna, þar eð nú er svo ástatt sem raun ber vitni um, að það er ekki hægt að uppfylla skilyrði þessara l., því að menn með slíku prófi fyrirfinnast ekki, þó að leitað sé eftir þeim. Ég skal t. d. benda á það, að það voru ekki litlar búsifjar, sem menn urðu fyrir á Akranesi á síðustu vertíð, því að þar fóru útgerðarmenn ekki að eins og útgerðarmenn suður með sjó, heldur urðu þeir, til þess að uppfylla skilyrði l. að flytja til bæjarins 16 eða 17 menn úr öðrum verstöðum, þó að útgerðarmenn á Akranesi gætu alls ekki útvegað öllum þeim mönnum, sem þar búa, fullkomna forsorgun. Þar urðu menn atvinnulausir fyrir það, að l. setja þá í þetta skrúfstykki, að það sé skylt að hafa menn með þessum réttindum á bátunum. Ég hélt, að hæstv. atvmrh. ætti að vera þetta ástand svo ljóst, að hann ætti frekar að leggja því lið heldur en hitt, að á þessu yrði bót ráðin, og skrifstofustjórinn í atvmrh., sem óánægjan út af þessu hefir ef til vill bitnað meira á en hæstv. atvmrh., af því að skrifstofustjórinn hefir meira orðið fyrir barðinu á þeim mönnum, sem leitað hafa til stjórnarráðsins í þessum efnum, lét í ljós í viðtali við míg, að ómögulegt væri að komast hjá því að gera breyt. á þessum l. og að hann sæi ekki, að hægt væri að búa við þetta ástand eða að spyrna á móti jafnákveðnum og einróma áskorunum og þeim, sem frum hafa komið um, að þessu yrði breytt.

Þá ég út af þessu frv. beina nokkrum orðum til hv. 1. flm., þm. V.-Húnv. Ég vil spyrja hann að því, hvers vegna hann hefir breytt til frá því. sem var í frv. því, sem flutt var á síðasta þingi af hv. þm. Barð., að því er snertir ákvæðið í 49. gr. 1., þar sem gert var ráð fyrir, að undanþágan frá því að hafa stýrimann á bát, sem leggur aflann daglega á land, væri miðuð við 75 tonn, en nú virðist mér það vera fært niður í 30 tonn. Ef hv. þm. ætlar, sem ég dreg ekki í efa, að mæta óskum manna í þessu efni og fá sæmilegan samræmisgrundvöll undir ákvæði þessara l., þá virðist mér, að með þessari breyt. fáist ekki þetta samræmi, því að það er vitað, að t. d. hér við Faxaflóa eru allmargir bátar, sem eru þetta frá 30 upp í 50 tonn og stærri, og hvaða ástæða er þá til þess að vera að setja önnur ákvæði um þá báta, sem eru yfir 30 tonn, en haga sér nákvæmlega eins í sjósókn að því er þetta snertir? Mér virðist þess vegna, að hvað þessu viðvikur ætti þetta ákvæði a. m. k. að ná allt upp í 60 tonn, til þess að mætt yrði þeim óskum og áskorunum, sem fyrir liggja um breyt. á þessu, og til þess að fullkomið samræmi fáist í þessu efni. miðað við stærð þeirra báta, sem stunda þorskveiðar og koma daglega með aflann að landi. Ég verð því að telja þessa breyt. mikið til þess lakara og vænti þess, að hv. sjútvn. lagfæri þetta. Í 4. gr. frv. er gert ráð fyrir undirvélstjóra eða aðstoðarmanni. það kann að vera skilsmunur þar á milli, þar sem einhver stigmunur getur verið á þeim prófum, sem þessir menn eiga að inna af hendi. Eg er ekki alveg viss um, að hv. flm. hafi verið þetta ljóst, en það má að sjálfsögðu athuga það nánar. Í þessari gr. er einnig tekið fram, að fiskibátar, sem koma daglega að landi, séu undanþegnir þessu ákvæði, en þeir eiga þó alltaf að hafa aðstoðarmann, sem jafnframt gegnir öðrum störfum á skipunum, þrátt fyrir það, þótt þeir komi daglega að landi úr róðri. Þetta má athuga nánar undir meðferð málsins.

Þá vil ég í sambandi við þetta og það getur þá jafnt átt við stýrimenn og vélstjóra — spyrja hv. flm., hvað hann meinar með orðunum „að koma daglega að landi“, hvort hann á við báta af þessari stærð, sem stunda síldveiðar fyrir Norðurlandi eða hér við flóann. Vitanlega fer það allmjög eftir því, hvernig aflabrögðin eru, hvort bátarnir koma daglega að landi eða ekki. Ég vil spyrja hv. flm., hvort þessi ákvæði viðvíkjandi stýrimönnum og vélstjórum ná ekki einnig til báta af þeirri stærð, sem hér um ræðir, á þeim tíma, sem þeir stunda síldveiðar, þó að það geti borið út af því og geri það að sjálfsögðu stundum, að bátarnir komi daglega að landi, eins og veiðiaðferðunum og aflabrögðunum er háttað. Jafnframt því sem ég skýt þessu til hv. flm., vil ég skjóta því til hv. sjútvn., sem að sjálfsögðu fær þetta mál til athugunar, að þetta komi skýrt fram, því að á síldveiðunum hefir það verið svo með þeirri venju, sem nú er allmjög upp tekin, að tveir bátar séu saman um eina nót, að nálega öll skipshöfnin á þessum skipum hefir verið tómir yfirmenn, 4 yfirmenn á hverjum bát og 8 yfirmenn á 2 báta samanlagt, eða 8 yfirmenn yfir aflabrögðum einnar veiðinótar.

Það er ekki fleira, sem ástæða er til að víkja að í þessu efni að sinni, en ég vil aðeins endurtaka þá ósk mína, að hv. sjútvn. lagfæri þær misfellur, sem bent hefir verið á í frv. þessu.