02.03.1938
Neðri deild: 12. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1256 í B-deild Alþingistíðinda. (1877)

34. mál, atvinna við siglingar

*Pétur Ottesen:

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, vil ég taka það fram, að það er rétt, að Akurnesingar fengu leyfi til þess að halda mótorbátanámskeið, en það var ekki alveg fullkomið að því leyti, að sá böggull fylgdi skammrifi, að þeir, sem undir prófið gengu, fengu aldrei réttindi til þess að láta þá, sem kennt höfðu, prófa sig, en slíkt hefir alltaf verið venja, þar sem slík námskeið hafa verið haldin. Þessir menn urðu að ganga undir próf hér í Reykjavík hjá allt öðrum mönnum en þeim, sem höfðu kennt þeim. Þeir fengu þar hvergi nærri að koma, og ég geri ráð fyrir, að það hafi átt sinn þátt í því, að þessir menn stóðust ekki nærri allir það próf, sem þeir urðu að ganga undir, þó að ég hinsvegar vilji ekki á nokkurn hátt halda því fram, að þeir, sem prófuðu þessa menn hér, hafi ekki gert það af fyllstu sanngirni og eins og þeim ber að gera, en það þekkja allir, sem kennslu hafa á hendi, og einnig þeir, sem kennslu njóta, að það er allt annað að eiga að standast próf hjá þeim, sem kennsluna hafa framkvæmt, og með þeim aðferðum, sem þeir hafa hagað kennslunni eftir, eða hjá öðrum mönnum: sem kunna að taka þetta allt öðrum tökum. Ég ætla þess vegna, að það hafi ekki orðið þau not af þessu námskeiði á Akranesi, sem ætlazt var til og orðið gat, af því að námskeiðið fékk ekki sömu réttindi eins og öll önnur námskeið hafa fengið hér að undanförnu. Að þetta eigi að vera nokkuð afgerandi í þessu máli að því er snertir Akranes, nær ekki nokkurri átt. Þetta er skattur, sem lagður er að óþörfu á menn og stendur eftir sem áður, þó að þeir þarna suður með sjó hafi losað sig við þennan skatt með því að brjóta I. Þetta er hæstv. atvmrh. kunnugt um. Ég skil ekki, að frá sjónarmiði nokkurs manns sé það eftirsóknarvert. að l. séu brotin, og þess vegna tel ég sjálfsagt að breyta þessu þannig, að fyrir slík lögbrot sé girt og að þessari kvöð verði létt af útgerðinni. því að hún þarf þess sennilega með.

Út af því, sem hæstv. ráðh. sagði, að á síðasta þingi hefðu verið möguleikar á því að koma inn í l. ákvæðum um þetta efni, vil ég skýra frá því, að ég fylgdist fullkomlega með því. hvað gerðist í þessu efni þá. Á Alþ. 1937 var flutt frv. af hv. þm. Barð., svipað þessu. Ég talaði oft um það við þennan hv. þm., hvort við ættum ekki að flytja það sameiginlega eða hvort réttara væri, að hann flytti það. Hann taldi, að eins og þá stæðu sakir væri ekki hægt að fá samkomulag um þetta á Alþingi. Og mér virtist hann vilja hliðra sér hjá að láta þetta mál verða að ágreiningsefni milli stjórnarfl., eins og sakir stóðu þá. Þess vegna varð ekkert úr því þá, að þetta frv. væri flutt á Alþ. Hinsvegar leit svo út sem honum fyndist blása byrlegar nú um það, að flutningur þessa máls mundi ekki valda árekstri, eins og líka nú kom á daginn, að þetta frv. er flutt af samflokksmanni hans. Ég veit, að hv. þm. Barð., þó að hann sé ekki viðstaddur hér nú, er reiðubúinn að staðfesta það, sem ég hefi sagt um það, sem milli okkar fór um þessa hluti. — Mun ég svo ekki fara um þetta mál fleiri orðum að þessu sinni.