22.04.1938
Neðri deild: 51. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1258 í B-deild Alþingistíðinda. (1885)

34. mál, atvinna við siglingar

*Finnur Jónsson:

Ég hefi þá afstöðu til þessa máls, að ég tel, að l. um atvinnu við siglingar á íslenzkum skipum séu ennþá ekki búin að sýna sig svo í framkvæmdinni, að réttlætanlegt sé að gera á þeim svo stórfelldar breyt. eins og farið er fram á í brtt. hæstv. núv. atvmrh. og þeirra annara flm. Þessi löggjöf var búin til upphaflega af trúnaðarmönnum ríkisstj., sérstaklega af mþn., sem skipuð var í því máli. Hygg ég, að í henni hafi átt sæti flestir þeir menn, sem fullkomlega mátti trúa til þess að semja þessa löggjöf þannig, að hún gerði tvennt í senn: að veita nokkuð mikið öryggi fyrir þá, sem við hana eiga að búa og í öðru lagi að hún færi ekki á neinn hátt út í öfgar með það að ákveða yfirmenn á hverju skipi. Í nefnd þessari áttu sæti m. a. núv. skólastjóri stýrimannaskólans og formaður sjómannafélags Reykjavíkur. Og ég hygg, að þeim sé báðum trúandi til þess að hafa gert þær till. einar, sem voru viturlegar og heppilegar í þessu efni. Það er talsvert viðurhlutamikið að vera stöðugt að breyta lagasetningu, sem grípur jafnmikið inn í einn af atvinnuvegum okkar, siglingarnar. Það er mjög erfitt fyrir menn, sem fara að stunda nám eftir þessari lagasetningu, að sífellt sé verið að hringla til um það, á hvern hátt menn öðlist réttindi. Einnig er hitt, að það er ákaflega hætt við, að það öryggi, sem slík löggjöf á að veita þeim, sem taka þátt í siglingum, verði heldur lítið, ef stöðugt er verið að hringla til með löggjöfina.

Nú vil ég ekki þar með segja, að þessi löggjöf þurfi ekki endurskoðunar við. Og ég hefði til samkomulags viljað fallast á, að þessu frv. yrði vísað til ríkisstj. í því trausti, að hún léti endurskoða lögin fyrir næsta Alþingi.

Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja mjög mikið um þetta, en verð þó að leggja talsverða áherzlu á það, að það sé hættulegt að hringla til með svona löggjöf, sem var undirbúin eins vel á sínum tíma. Og ég mun við 3. umr. leggja fram rökstudda dagskrártill. í þá átt að visa þessu máli til ríkisstj., í því trausti, að hún láti endurskoða l. fyrir næsta Alþingi. Ég get sætt mig við, að frv. fari til 3. umr. með því móti, að brtt. hv. 6. þm. Reykv. verði þá athugaðar til 3. umr. — þó að ég geri ekki ráð fyrir, að það breyti neinu um mína höfuðafstöðu til þessa máls. Því að ég álít, að sú endurskoðun, sem þarf að fara fram á l., eigi að gerast af hálfu ríkisstj., þar sem hún hefir undirbúið lagasetninguna með sérstakri milliþn.