22.04.1938
Neðri deild: 51. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1260 í B-deild Alþingistíðinda. (1887)

34. mál, atvinna við siglingar

*Pétur Ottesen:

Ég verð mjög að láta í ljós undrun mína yfir því, hvað hv. sjútvn. hefir verið tómlát og aðgerðalaus um að koma þessu máli áfram, þar sem það er búið að liggja hjá n. að ég ætla 50 daga, og þar sem í n. eru menn, sem bæði á þessu þingi og síðasta þingi voru flm. að slíku frv. sem þessu og er því vel kunnugt, hvernig ástatt er nú um bátaútveginn, t. d. þá báta, sem koma að landi daglega. Þeim er kunnugt, að þær kröfur, sem til þeirra eru gerðar, að þeir hafi tvo lærða vélstjóra og hafi stýrimenn, fela ekki í sér neitt sérstakt öryggi frá því, sem er, að dómi þeirra manna, sem fiskveiðar stunda á þessum bátum. En hinsvegar hefir þetta vitanlega í för með sér kostnað fyrir útgerðina, algerlega óþarfan kostnað, sem lendir bæði á útvegsmönnum og hásetum. Svo er það í þriðja lagi, að það verður að gera út frá ýmsum verstöðvum hér á landi báta í algerðu trássi við þessa löggjöf, af því að ekki er hægt að uppfylla ákvæði löggjafarinnar með þessum áskilda lærdómi.

Ég verð því að láta mjög í ljós undrun mína yfir því, að ekki hefir verið lagt meira kapp á að koma þessu máli áfram, heldur hafa nefndarmenn látið þá mótspyrnu, sem hér er kunn af samtökum þeirra félaga, sem þykjast nú vera að verja rétt þeirra fagmanna, sem hér er um að ræða, sveigja sig svo mjög til tómlætis og áhugaleysis. Og það er auðheyrt, að ekki færri en þrír af þeim, sem tekið hafa til máls nú, eru með allra handa vélráð gegn framkvæmd þessa máls. Menn bera fram brtt., sem gera að litlu eða engu gildi frv. Aðrir eru með það að vísa málinu frá á þeim grundvelli, að að vísu þurfi að athuga þessa löggjöf — segja þeir — en 52 daga athugun á löggjöfinni hefir náttúrlega ekki verið nándarnærri nóg, heldur þurfi ársfrest eða meira. Vitanlega felst ekkert í þessu annað en aðferðir til að koma málinu fyrir kattarnef. Því að með því að athuga málið meina þeir ekki neitt annað en það, ef þetta gæti leitt til að herða enn á snærunum og þyngja enn á útgerðinni, sem er að örmagnast undir þeim byrðum, sem á henni hvíla. Það er þá það eina, sem gæti legið á bak við hjá þessum mönnum, og ekkert annað.

Ég verð nú að vænta þess, að sjútvn., sem svo mjög hefir verið tómlát um þetta mál, fari nú að fylgja því fast fram. Því að að öðrum kosti verður vafalaust að halda áfram að reka part af útgerðinni algerlega í trássi við þessa löggjöf. Og ég veit nú ekki, hvort löggjafar landsins álíta það ákaflega hollt að ganga þannig frá löggjöf, að óhjákvæmilegt sé að brjóta hana í framkvæmd, — hvort þeir álíta það góðan uppeldisskóla í löghlýðni í landinu. Ég efast mjög um það.

En ég vildi mjög mega beina máli mínu til hæstv. atvmrh., sem er einn af flm. þessa frv. ef hann vildi svo lítið að koma út úr ráðherraherberginu meðan verið er að ræða þetta fóstur hans, eða hæstv. forseti gerði ráðstafanir til þess. Þar sé ég framan í hann! Hér er nefnilega verið að ræða um frv., sem hæstv. ráðh. er sjálfur flm. að o ég veit, að hlýtur að koma til hans kasta. Ég hygg, að ekki fáist þær endurbætur á löggjöfinni um þetta efni, sem hann hefir ætlazt til með flutningi þessa frv. Mér er kunnugt um það, að bæði ég og ýmsir fleiri hafa mjög leitað þess við hæstv. fyrrv. atvmrh. undanfarið, að fá hann til þess, að gefa út bráðabirgðalög um það, sem heimilað er með undanþágu frá ákvæðum þessara l., að því er snertir vélamenn og stýrimenn í fiski bátum, sem koma að landi daglega. Ráðh. neitaði að gefa út þessi bráðabirgðalög, og m. a. í skjóli þess, að nú kæmi Alþingi bráðlega saman, og gæfist þá tækifæri að sníða löggjöfina þannig, að tækilegt væri að framkvæma hana. En það er alveg vitað, að ef ekki fæst breyt. á þessari löggjöf, þá kemst ráðh. ekki hjá allmiklu ónæði af því, að til hans verði leitað um að setja bráðabirgðalög, svo að hægt verði að halda útgerðinni gangandi án þess að þverbrjóta lög landsins. Þó að ég beri ekki alveg sérstaka umhyggju fyrir þessum hæstv. ráðh., þá teldi ég miklu betur farið, að löggjöfin væri nú sniðin þannig, að ekki þyrfti til þess að taka að braska við undanþágur, til þess að útgerðin hvíli á lagalegum grundvelli. Ég vildi því skora á hann, að hann sem ráðh. beitti áhrifum sínum til þess, að breyting fengist á þessum l., sem hann hefir lagt til í sínu frv. Fyrir utan aðstöðuna. sem hann getur haft í stjórn landsins, eiga að vera nokkur áhrif að öðru leyti í hans hendi. Og að því leyti, sem hann kannske orkar ekki að ráða svo yfir stuðningsmönnum ríkisstj. úr sósíalistaflokknum, þá getur verið, að honum komi hjálp frá mér og öðrum. Stjórnin hefir fyrr orðið fegin að leita til okkar, þegar samstarfsmennirnir neituðu öllum stuðningi og samvinnu um framgang nauðsynlegra mála á Alþingi. Getur verið, að fari svo einnig í þessu máli, að það verði sjálfstæðismenn, sem rétta hjálparhönd til að koma góðu máli fram, ef þeir, sem Framsfl. bindur trúss við í ríkisstj. og Alþingi, neita um sjálfsagðan stuðning. Ég fel því mjög miklar líkur fyrir því, að þessu máli verði hægt að koma fram, ef hæstv. ráðh. sýnir þá rögg af sér, sem ráðh. á að gera. Og þó að ég hafi deilt hér á sjútvn. fyrir tómlæti í þessu máli, sem hún fullkomlega verðskuldar, þá vænti ég þess, að sá hluti hennar, sem stendur að þessu máli, sýni rögg og hrindi fast á þetta mál, og þannig geti tekizt samstarf milli hæstv. ráðh. og meiri hl. þingsins um að bæta þessa löggjöf svo sem hér er farið fram á, — svo að ekki þurfi ofan á allt annað að reka útgerðina þannig, að í hvert einasta skipti, sem farið er á flot, sé verið að brjóta landsins lög, eins og nú er gert í bátaútgerðinni.

Ég mun svo hafa eina eða tvær brtt. að flytja við þetta frv. En þar sem samkomulag hefir orðið við aðra, sem flytja brtt., að gera það ekki fyrr en við 3. umr., mun ég einnig bíða með mínar.

Ég vona, að hv. Alþingi sjái, að þetta mál er þannig vaxið, a. m. k. að því er bátaútgerðina snertir, að það er hreint og beint óhjákvæmilegt að breyta l. í svipað form og hér er lagt til um þá útgerð. Að lokum vænti ég fastlega, að bætt verði upp fyrir þann drátt, sem ófyrirsynju og ástæðulaust hefir orðið um afgreiðslu þessa máls.