22.04.1938
Neðri deild: 51. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1888)

34. mál, atvinna við siglingar

*Sigurður Kristjánsson:

Það er eðlilegt, að þeim, sem hafa sérstaklega mikinn áhuga fyrir þessu máli, leiðist allur dráttur á því. En ég verð að segja það sjútvn. til málsbóta, að ef menn eru ekki að öllu leyti sammála í n., þá tekur það nokkurn tíma fyrir mönnum að koma sér saman. Ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að það er enginn maður í sjútvn. þessarar d., sem ekki viðurkennir, að löggjöfin um atvinnu við siglingar þurfi endurskoðunar við. Hitt er eðlilegt, að menn séu ekki í einu og öllu sammála um, hvernig þessar breyt. eiga að vera. Af þessum ástæðum er það, að þetta mál hefir þvælzt nokkuð fyrir n. Ég skal játa, að það er eðlilegt, að ákaflyndir menn, eins og hv. þm. Borgf., séu óþolinmóðir að bíða eftir úrslitunum, og skil fullkomlega hans afstöðu, þó ég verði að segja að ekki sé víst að hans ákafi sé heppilegur til góðra úrslita á svona máli. Ég býst við, að þetta mál fái bezt úrslit með þeim vinnubrögðum, sem sjútvn. hefir haft á því. Við erum allir þeirrar skoðunar, að þótt l. um atvinnu við siglingar hafi verið undirbúin af góðum mönnum, þá hafi samt vantað aðilja hagsmunamálanna, og ég held, að þessi l. verði aldrei sett til frambúðar nema að þeim vinni ekki aðeins menn með sérþekkingu á hverju sviði, heldur einnig þeir menn, sem þar koma til greina með hagsmuni, en það eru útgerðarmenn og þeir, sem hafa atvinnu við siglingar. Þess vegna er ég sammála um að sjútvnm. séu sammála um að biðja um endurskoðun á þessari löggjöf og leggi áherzlu á, að um hana fjalli ekki aðeins þeir, sem sérþekkingu hafa á siglingum, heldur líka hagsmunaaðiljarnir sjálfir. Ég held, að mér sé f. h. n., þó að ég hafi ekki umboð til þess, óhætt að friða hv. þm. Borgf., sem af eðlilegum ástæðum er nokkuð ákafur í þessu máli, með því, að við munum reyna að sjá um, að þetta mál fái skynsamlega afgreiðslu á þessu þingi.

Það er ekki rétt hjá hv. þm., að með þessari athugun, sem gerð hefir verið á frv., sé ekkert meint, elns og hann komst að orði. Með henni er það fullkomlega meint, að ráða þessu máli til skynsamlegra lykta, en enginn í n. óskar eftir að þvæla þetta mál til engra lykta. Við erum áreiðanlega allir sammála um, að það eigi að fá einhverja afgreiðslu, en við erum líka sammála um það, að því er ég vænti, að sú afgreiðsla verði til framhúðar, en það verður ekki nema með því, að sættir verði í málinu milli hagsmunaaðiljanna, en jafnframt gætt alls þess, sem fræðilegt er.

Ég hefði ekki tekið til máls, ef hv. þm. Borgf. hefði ekki verið að reka á eftir n., sem mér finnst eðlilegt, og mitt erindi var ekki að minnast á neinn ágreining, heldur að sannfæra hann um það, að sjútvnm. hafa hér engan strákskap bak við eyrað, heldur vilja ráða málinu til lykta á þann hátt, sem bezt hentar.