22.04.1938
Neðri deild: 51. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1265 í B-deild Alþingistíðinda. (1894)

34. mál, atvinna við siglingar

Ísleifur Högnason:

Ég hefi engar sérstakar sakir að bera af mér. Ég vil aðeins segja, að hv. þm. Barð. hefir ekki orðið við þeim tilmælum mínum, að rökstyðja þær brtt., sem hann hefir borið fram við frv., sem ég vænti þó, að hann gæti gert við 2. umr. Ég sé ekki, að þetta sé svo mikið nauðsynjamál, að þurfi að hraða því þannig gegnum þingið, ekki einu sinni fyrir þá, sem knýja hann til þess að bera þetta fram, en það eru útvegsmenn, en til óþurftar fyrir sjómannastétt landsins. Þess vegna vildi ég gjarnan, að 2. umr. héldi nú áfram og hv. þm. Borgf. fengi að tala betur um málið heldur en að hespa það svona af við 2. umr. Ég vil undirstrika, að það er rangt hjá hv. þm. Borgf., að ekki sé hægt að fá útlærða stýrimenn og vélstjóra til þess að taka að sér þetta aðstoðarmannahlutverk. Það er yfrið nóg af slíkum mönnum. og þeim er nauðsyn að halda áfram sínu starfi og fá hagnýta fræðslu við starfið sjálft.

Í stuttu máli álít ég, að það sé bæði sjómönnum og útgerðarmönnum til óþurftar að samþ. þetta frv., og mun ég því greiða atkv. gegn því til 3. umr.