23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1267 í B-deild Alþingistíðinda. (1897)

34. mál, atvinna við siglingar

*Einar Olgeirsson:

Í sambandi við þetta frv. og eftir þeim upplýsingum, sem fram hafa komið frá n. um aðilja utan þings, sem fallizt hafa á þetta frv., er vert að geta þess, að það eru nokkur fyrirtæki og samtök þeirra, sem eftir upplýsingum eru þau ein, t. d. Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, sem hafa beinna hagsmuna að gæta í þessu máli, og hvert þeirra mælir aðeins með þeim hluta frv., sem snertir þau fjárhagslega. Þarna er að ræða um nokkra stóratvinnurekendur og ríkisvaldið, sem eru sérstaklega „interesseraðir“ í því að koma á sparnaði fyrir sig. Ég álít nú hvað þetta atriði snertir, frá sjónarmiði þessara fyrirtækja og hvaða tillit Alþ. beri að taka til þess, t.d. Félag ísl. botnvörpuskipaeigenda, þá yrði Alþ. að gera þá kröfu til þess félags og annara slíkra, ef þau sérstaklega fara að heimta sparnað og fækkun starfsmanna, að miðað verði við þá hættu, sem þessum störfum er samfara. En að spara nokkra forstjóra er allt annað. Það þarf að líta eftir, hvort ekki væri þar ofhlaðið á. Það virðist a. m. k. liggja nær að athuga, hvort forstjórarnir í landi væru ekki of margir, áður en farið er að stofna öryggi sjómannanna í hættu með því að draga úr mannahaldi á skipunum. Öðru máli gegnir um yfirmennina í landi. Það myndi ekki spilla neitt öryggi sjómanna um borð, þótt þeim væri fækkað. Sama máli er að gegna um Eimskipafélag Íslands; það mætti athuga sparnað á sínum rekstri í landi, áður en það heimtar fækkun yfirmanna á skipunum, því að þessir menn hafa einkum með þá hluti að gera, sem öryggi sjómanna er mest komið undir. Þau ummæli, sem hér liggja fyrir með frv., eru eigi þannig, að þeir, er sitja á Alþ., geti tekið tillit til þeirra. Hinsvegar liggja hér fyrir mótmæli frá 7 samtökum og samböndum innan íslenzku sjómanna- og vélstjórastéttarinnar; þau eru frá þeim mönnum, sem þetta frv. snertir mest og bera bezt skynbragð á það. Þessir menn eru fagmenn í þessari grein og eiga að vita bezt. hvað þarna er um að ræða; þeir eiga líka að hafa ábyrgðartilfinningu fyrir því, hvernig þetta mál fer.

Í hvert skipti, sem slys verður hér við land, togari strandar eða ferst á annan hátt, vantar ekki, að nóg sé um það rætt. við hve mikið öryggisleysi sjómennirnir eigi að búa hér á Íslandi.

Þegar sett hafa verið l., sem að mörgu leyti miða í þá átt að tryggja öryggi sjómanna, sem er tiltölulega takmarkað, þá koma stuttu síðar fram till. um að breyta þessum 1. algerlega, vitandi það, að með því móti hlýtur að verða rýrt það öryggi, sem sjómenn og sjófarendur eiga við að búa. Fyrir þjóð, sem á eins mikið undir rekstri skipanna og biður annað eins manntjón af slysum á sjó sem Íslendingar bíða, virðist eigi aðeins vera óþarft, heldur beinlínis stórhættulegt að gera breyt. á l., sem miða að því að rýra öryggi þeirra manna, sem vinna á sjónum. Ég álít því hvað snertir þetta frv., sem liggur hér fyrir, eftir að fram eru komin önnur eins mótmæli, að þá nái engri átt, að það sé afgr- á þessu þingi. Það ber að athuga það betur og ræða betur við viðkomandi menn, er þessa atvinnu stunda og eiga eigi aðeins atvinnu sína, heldur einnig lif sitt undir því, að öryggið á sjónum sé sem bezt. Það má því ekki flana að því að gera breyt. á þessum l. þvert á móti vilja þeirra. Alþ- getur ekki tekið á sig þá ábyrgð, sem því fylgir. Þess vegna ber þinginu að fella þetta frv. eða gæta þess, að málið verði nánar athugað og betur undirbúið fyrir næsta þing. Tel ég það illa farið að gera nokkuð til að stofna öryggi sjómanna í hættu. Ég sé ekki, að l., sem nú er lagt til að breyta, séu neitt yfirdrifin hvað snertir öryggi sjómanna.