23.04.1938
Neðri deild: 52. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1269 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

34. mál, atvinna við siglingar

*Haraldur Guðmundsson:

Ég ætla, að það hafi verið hv. þm. Borgf., sem gat um það bæði við I. og 2. umr. málsins, að þau ákvæði, sem eru í gildandi lögum um vélstjóra á mótorbátum, væru svo ströng, að ómögulegt væri að fá menn með tilskildri þekkingu til þess að vinna þessi störf. Ég lofaði við 1. umr. málsins að upplýsa það við þessa umr. Ég tel, að af þessum upplýsingum sé það sýnt, að það sé gersamlega staðlaus staðhæfing, sem þessi hv. þm. fer með. Ef það er aðgætt, hverjir hafa lokið vélstjóraprófl síðan árið 1915, þá er það sýnt, að það eru 1263 menn, og seinustu 10 árin liðlega 750 menn hjá Fiskifélagi Íslands. Á seinnstu 3 árum um 220 menn. Nú verður mönnum að sjálfsögðu á að spyrja, hvað mikið þarf af þessum réttindamönnum fyrir skipaflotann. Það eru til 151 bátur yfir 50 hestafla vélar. Skulu á hverjum veru tveir vélfróðir menn, ef hann fer í útilegu. Samtals þarf þá 302 menn. Á 268 báta undir 50 hestöfl þarf 268 vélstjóra. Samtals þarf 570 vélstjóra á allan vélbátaflotann íslenzka, sem er undir 150 hestafla vél samkv. gildandi lögum. En bara seinustu 10 árin hafa tekið próf yfir 750 menn; og til viðbótar voru áður með réttindum yfir 500 menn auk þeirra. sem hafa fengið réttindi með sérstöku prófi með undanþágu. sem síðar var gerð. Því er ekki minnsti vafi, að það er fjarri öllum sanni, að réttindamenn skorti á mótorbáta. Það er aftur á móti víst, að nægjanlegt er til af þessum mönnum í landinu í heild. Ég játa, að það hefir komið fyrir í einstaka stað, eins og á Akranesi síðastl. ár, að í bili voru ekki nægilega margir menn heima fyrir með réttindum. Auk námskeiða. sem Fiskifélag Íslands heldur, var haldið sérstakt námskeið, styrkt af ríkissjóði, fyrir vélstjóra á Akranesi á síðastl. hausti. Fullar upplýsingar liggja fyrir um það, að um 200 menn hafi öðlazt réttindi við mótorvélgæzlu án þess að hafa gengið á námskeið Fiskifélagsins, þannig að réttindamenn eru alls á skipum kringum 1500. Á seinustu tíu árum hefir töluvert meira en helmingur af þeim bætzt við. Tvö síðustu árin 76 annað og 70 hitt. — Ég ætla, að þetta geti sýnt hv. þm., að það er ákaflega fjarri því. að það sé hörgull á mönnum með réttindi. Um stærri vélar. 400 hestafla, þá eru 22 menn, sem full réttindi hafa, en í þau störf þarf, ef ég man rétt, 4–5 menn. Eftir að yfir þessa stærð er komið á vélum, kemur vélstjórastaða með almennum vélstjóraréttindum. Ég hygg því, að finna þurfi einhverja aðra ástæðu en að hörguli sé á þessum mönnum til þess að rökstyðja þetta frv. Nú kunna menn að segja, að þetta sé svo gífurlegur kostnaður fyrir útgerðina, að hafa menn með vélstjóraþekkingu í stað venjulegra háseta. En ég ætla, að yfirleitt sé munur á kaupi annars vélstjóra á þessum mótorbátum og kaupi háseta eitthvað nálægt 20–25 krónum á mánuði. Og ætti þá sá munur að valda því, að þessi lagabreyting yrði gerð og bátar hafðir í útilegu með aðeins einum manni með tilskildri þekkingu? Komi svo eitthvað fyrir, er verðmæti skipsins og líf allra sjómanna í hættu. Ég álít því, að það sé hinn mesti háski, ef hv. þm. létu ginna sig til þess að afgr. frv.

Hv. þm. Ísaf. benti réttilega á það, að það er ótækt að gera þær breyt. á lögunum, sem hér er gert ráð fyrir, án þess jafnframt að breyta lögunum að öðru leyti. sem hv. flm. virðist ekki hafa athugað. Með því er fyrir girt, að í nokkur ár gætu nemendur fengið þá undirbúningsmenntun, sem nú er gert að skilyrði til að taka störf á hinum ýmsu skipum, því að undirbúningsmenntun er þá ekki til fyrir þá menn. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé aðeins af vangá hjá flm., þegar frv. var samið. Auk þess verð ég að segja, að það er ákaflega einkennilegt sjónarmið, sem flm. hafa, að þeir skuli leggja til að fækka svo mjög stýrimönnum eins og gert er ráð fyrir í frv. T. d. allt niður í fiskiskip 300–500 smálestir, að hafa á þeim aðeins einn stýrimann í stað tveggja. Eftir því sem mér er tjáð, var það föst venja, þótt ekki væri lagaskylda, hjá útgerðarmönnunum íslenzku, að alltaf væru hafðir tveir stýrimenn á togara, ég ætla frá 1920 eða fyrr.

Ég skil ekki í þeirri ofrausn hjá hv. flm., þar sem þeir segja, að ástæðan fyrir þessu frv. sé erfið afkoma útvegsins. En útgerðarmenn ættu bezt að vita, hvar skórinn kreppir. Þeir sendu tilmæli til Alþingis um margþættan stuðning við útgerðina. Í þessum tilmælum, sem fram voru borin af útgerðarmönnum, var farið fram á að létta af útgerðarmönnum þeirri kvöð, með lagabreytingu, að hafa aðstoðarmann við vélina, sem var ákveðið með lagabreytingu, þegar lögin um siglingar voru sett. En það kom ekki eitt orð í þá átt, að breyta ákvæðinu um stýrimenn á þessum skipum. Hygg ég, að það sé svo skýlaus viðurkenning frá hálfu útgerðarmanna, að það sé ekki hægt með fullri umhyggju fyrir öryggi manna á skipum að fækka stýrimönnum frá því, sem nú er. Verður það þá ennþá óskiljanlegra, hvers vegna flm. eru að koma með þvílíkar óskir. Það hafa engar óskir komið um þetta neinstaðar að, ekki einu sinni frá útgerðarmönnum, og það vita hv. flm. vel.

Þá er atriðið um breyt. á tölu yfirmanna við vélar á stærri mótorskipum. Þegar það sýndi sig síðastl. sumar, þegar svo að segja allar fleytur, sem flotið gátu, voru settar á síldveiðar, þá kom það í ljós, að hörgull var á mönnum, sem höfðu tilskilin réttindi í vélstjórn, á öll skip, sem síldveiðar stunda. Ég átti tal um þetta við ýmsa menn og stéttarfélög þeirra, vélstjórafélagið o. fl. Og þegar þeir höfðu athugað málið, kynnt sér tölu skipa og hvað væri til af mönnum, féllust þeir á, að úr þessu þyrfti að bæta. Afleiðingin varð, eins og hv. þdm. er kunnugt, að sett voru bráðabirgðalög um að heimila undanþágu frá ákvæðum laganna þann tíma, sem flest skip eru á floti, þ. e. á meðan á síldveiðum stendur. Því þær eru þann tíma árs, þegar veður eru bezt og minnst hættan fyrir sjófarendur. Síðan á Alþingi um haustið voru samin lög, og gilda, ef þarf á næsta sumri. Ég sé ekki betur en svo langt sé gengið, sem ástæða er til. Það eina, sem réttlátt væri að gera, er, að ríkisstjórninni sé heimilt að veita undanþágu frá þessu um einhvern ákveðinn tíma.

Ég held, að það væri hið mesta ólán, ef þetta frv. yrði samþ. Ég er sannfærður um, að jafnvel flm. sjálfir hafa ekki gert sér grein fyrir, hvaða afleiðing það gæti haft. Ef ætti að breyta þessari löggjöf, sem ég tei ekki ástæð u til, yrði það að gerast á þann veg, að löggjöfin yrði athuguð af þeim mönnum, sem kunnugir eru, en ekki af einhverjum þm., sem enga þekkingu hafa á málinu.