23.02.1938
Sameinað þing: 4. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

1. mál, fjárlög 1939

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Háttv. alþm. og aðrir hlustendur!

Fjárlagafrv., sem hæstv. ríkisstj. hefir nú lagt fyrir Alþ., er mjög líkt þeim fjárl., sem nú gilda. Það er því í raun og veru ekki sérlega mikið um þetta frv. að segja fram yfir það, sem segja má um núgildandi fjárl., og þess vegna get ég að miklu leyti vísað til þeirrar gagnrýni, sem við kommúnistar fluttum fram í eldhúsumr. á síðasta þingi. Það, sem er einna athyglisverðast við þetta fjárlagafrv., er einmitt þetta, hversu nauða líkt það er núgildandi fjárl. Það virðist því ekki vera um neina stefnubreyt. að ræða hjá hæstv. ríkistj.

Nú hefir það verið svo undanfarið, en þó alveg sérstaklega á síðasta þingi, að það hefir verið mjög erfitt að ráða það af fjárlagafrv. stjórnarinnar, sem lagt er fram í þingbyrjun, hvernig fjárl. endanlega muni líta út. Það væri því mest um vert, ef takast mætti, að skyggnast bak við hin pólitísku fortjöld til þess að geta sagt nokkuð fyrir um það, sem koma skal. Nú er að fara fram ákaflega ör og umsvifamikil pólitísk þróun, — stórpólitískir atburðir liggja í loftinu, svo að gera má ráð fyrir, að stjórnmálaviðhorfið geti orðið allt annað í þinglok en það er nú. Menn tala nú mikið um ýmsa „fræðilega möguleika“, og ég mun leitast við að athuga suma þessa „fræðilegu möguleika“ nokkru nánar síðar. Það er að fara fram mjög víðtæk vakning og pólitísk umbrot meðal þjóðarinnar. Það er aldrei lögð eins mikil áherzla á að sveipa hlutina dularhjúp og fara á bak við fólkið eins og á slíkum tímum. Ég tel það þess vegna skyldu mína að nota þetta tækifæri til þess að skýra frá því, sem ég veit bezt um þetta, ef vera mætti, að fólk átti sig þá betur á ýmsum óvæntum atburðum, sem mörgum munu áreiðanlega koma undarlega fyrir sjónir.

Ég get verið stuttorður um fjárlagafrv., eins og það liggur fyrir nú. Með þessu frv. voru látin fylgja, eins og að vanda, frumvörp um framlengingu á öllum bráðabirgðatollunum og sköttunum, sem samþykktir voru á síðasta þingi, — auk allra þeirra tollal. og l. um frestun á framkvæmdum ýmissa laga, sem nú er orðinn fastur vani að leggja fram í byrjun hvers þings. Eins og menn muna, voru samþ. á síðasta þingi nýjar tollahækkanir, sem námu hátt á þriðju millj. kr., eða talsvert á annað hundrað kr. á hvert heimili í landinn. Þessar tollahækkanir koma að mestu á nauðsynjavörur fólks og hafa því í för með sér það frámunalega öfugstreymi, að dýrtíðin vex, a. m. k. um stund, þrátt fyrir byrjandi kreppu og lækkandi vöruverð á heimsmarkaðinum. Allt þetta hefir nú verið framlengt fyrir árið 1939, sem tvímælalaust verður kreppuár og miðar því að því að halda nauðsynjum manna í uppskrúfuðu verði, jafnframt því sem afurðir landsmanna, sem þeir verða að selja á erlendum markaði, hrapa í verði. Samt sem áður eru tollar og skattar samkv. 2. gr. fjárlagafrv. ekki nema 11/2 millj. kr. hærri en á fjárlagafrv., sem lagt var fram í byrjun síðasta þings. Nokkuð af tollahækkuninni fer til að vega á móti lækkun útflutningsgjalds, og 700 þús. kr. fara í jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga.

Þeir, sem höfðu búizt við því, að þessar tollahækkanir yrðu til þess að auka stórlega opinberar framkvæmdir og atvinnu í landinu yfirleitt, verða fyrir sárum vonbrigðum, ef þeir lesa þetta frv. Framlag til vegagerða og annara framkvæmda ríkissjóðs hefir sáralítið hækkað frá því, sem lagt var til í fjárlagafrv. því, sem lagt var fram í þingbyrjun í haust, og er lægra en á núgildandi fjárl. Framlag til verklegra framkvæmda samkvæmt 16. gr. er líka lægra en á núgildandi fjárl. og hefir ekki hækkað svo neinu næmi frá fyrsta fjárlagafrv. hæstv. ríkisstj. á síðasta þingi fram yfir þau óhjákvæmilegu útgjöld, sem veitt eru til styrktar bændum á mæðiveikisvæðinu. Framlag til atvinnubóta er ekki hækkað um einn einasta eyri. Af útflutningsgjaldinu eiga 400000 kr. að fara til fiskimálasjóðs. En það horfir satt að segja ekki vænlega með það, að þetta fé geti orðið sjávarútveginum að miklu gagni. Fiskimálan. er nú þannig skipuð, að það orkar meir og meir tvímælis, hvort hún getur talizt sjálfstæð stofnun gagnvart Landsbankanum. Það bólar ekkert á því enn þá, að fiskimálan. ætli að nota á þessu ári það fé, sem ríkissjóður hefir fengið henni til umráða, til atvinnuaukningar. Til viðbótar við þetta segir svo hæstv. fjmrh., að nauðsynlegt verði að draga úr vexti iðnaðarins vegna gjaldeyrisvandræða.

Hefir hæstv. ríkisstj. nú leyst verkefni sitt sómasamlega af hendi með samningu þessa fjárlagafrv.? Skyldu slík fjárl. virkilega vera lögð fram í nafni hinna 25000 alþingiskjósenda af alþýðustétt, sem kusu stjórnarflokkana í vor? Hvernig er ástandið í landinu og hvaða verkefni eru það þá helzt, sem þarf að leysa? Hæstv. fjmrh. las upp nokkrar tölur til að sýna batnandi fjárhag landsins á síðustu árum. En hvernig er þá fjárhagur þjóðarinnar, fjárhagur hins vinnandi fólks í landinu?

Frá áramótum 1934–'35 til áramóta 1936–'37 hafa vinnulaun, greidd af meðlimum Vinnuveitendafélagsins, lækkað um 25%, eða um 2,4 millj. kr., lækkað úr um 10 millj. kr. á ári niður í ca. 71/2 millj. á ári samkvæmt skýrslu Vinnuveitendafélagsins. Í sjávarútveginum er ástandið ískyggilegra en það hefir verið um langt skeið. Atvinnuleysið minnkar ekki. Þvert á móti horfir nú óvænlegar um atvinnu en þegar verst hefir gengið vegna erfiðleika sjávarútvegsins. Fátækraframfærið færist í vöxt með hverju ári. Þúsundir fullfrískra Reykvíkinga verða að leita á náðir bæjarins vegna atvinnuleysis og fátæktar. Og ekki er ástandið betra annarsstaðar á landinu. Og framundan er ný kreppa, sem hefir í för með sér ófyrirsjáanlegt verðhrun á íslenzkum afurðum erlendis. Fyrsta merki hennar sjáum við að nokkru leyti þar, sem er verðfall það, sem nú hefir orðið á síldarlýsi, ull og gærum. Undir slíkum kringumstæðum getur það ekki verið verkefni þeirrar stjórnar, sem vill vera fulltrúi hinnar vinnandi þjóðar, að láta allt reka á reiðanum undir kjörorðinu, „Flýtur á meðan ekki sekkur.“ Hvers konar ráðsmennska er það að leggja á nýja skatta, sem nema á annað hundrað kr. á hvert heimili í landinu, samtímis því, sem fólkið verður að flýja á náðir þess opinbera til þess að geta lifað? Hvaða ráðsmennska er það að gera engar gagngerðar ráðstafanir til að auka atvinnuna í landinu, þegar atvinnuleysið er svo gífurlegt, að það þarf að eyða millj. kr. árlega í fátækraframfæri, og þegar vitað er, að ný kreppa með auknu atvinnuleysi og vandræðum er framundan?

Það, sem þarf að gera til þess að mæta kreppunni, er:

1. Að ráðast í stórfelldar atvinnuframkvæmdir, sem ekki eru háðar erlendum markaði, svo sem húsabyggingar, vegagerðir og aðrar samgöngur, hitaveitur, virkjun fossa og hagnýting íslenzkra hráefna til íslenzks iðnaðar, sem skilyrði eru fyrir hér á landi, skipasmíðar í landinu sjálfu o. fl.

2. Ráðstafanir til að hjálpa sjávarútveginum til að mæta þeim örðugleikum, sem hann á við að stríða nú og bíða hans á næstunni.

3. Fjármagnið, sem þarf til þessara hluta, verður að taka af því fé, sem nú er í höndum einstakra fjárplógsmanna og notað er í brask, óhófseyðslu einstakra fjölskyldna og í óheilbrigðan taprekstur, sem ríkissjóður verður að bera byrðarnar af að lokum.

Allar þær till., sem við kommúnistar bárum fram á síðasta þingi, ganga í þessa átt.

Ég ætla þá að minnast á nokkrar þessar till. okkar, sem við munum enn leggja fram á þessu þingi. Við lögðum til, að atvinnubótafé ríkisins yrði hækkað um 35000 kr., sem þýðir, að atvinnubótaféð hefði, að meðtöldu framlagi bæjar- og sveitarfélaga, hækkað um tæpa millj. kr. Til bygginga nýrra vita yrðu veittar 160000 kr. Að ríkið ábyrgðist 700000 kr. til kaupa á nýjum diselmótorskipum, 75–100 smál. að stærð.

Að 520000 kr. yrðu veittar til verkamannabústaða og húsabygginga í sveitum fram yfir það, sem nú er. Aukið framlag til vegagerða, sem næmi á þriðja hundrað þús. kr. og skiptist á milli Suðurlandsbrautar, Sogsvegar og vegar yfir Siglufjarðarskarð. Þá lögðum við til, að veitt yrði fé til rannsókna á virkjun fossa til iðnaðar og húsahitunar og til hagnýtra jarðvegsrannsókna. Þetta allt hefði þýtt atvinnuaukningu fyrir um það bil hálfa þriðju millj. kr.

Engin af þessum till. náði fram að ganga. Að vísu var framlag til Suðurlandsbrautar hækkað eins og við lögðum til. En það hefir enga atvinnuaukningu í för með sér, því að það er tekið af atvinnubótafé og kemur að mestu í stað þess, sem áður var lagt til nýbýlaræktarinnar í Flóanum, sem ekkert er nú lagt til á fjárl.

Jafnframt lögðum við fram till. um fjáröflun til þessara framkvæmda. Við höfum áður skýrt ýtarlega frá þessum till., en ég ætla samt að rifja þær upp einu sinni enn þá, því að þær eru enn í gildi, og enn munum við leggja þær fram, ef þess væri nokkur kostur, að Alþ. vildi sinna till. okkar um aukna atvinnu og aðrar hagsbætur, sem gerðu slíka fjáröflun nauðsynlega. Við lögðum fram frv. um stighækkandi fasteignaskatt, verðhækkunarskatt, einkabifreiðaskatt, stóribúðaskatt og vaxtaskatt. Þessir skattar áttu að gefa í ríkissjóð allt að einni millj. kr. Ennfremur hentum við á, að með lækkun á launum hálaunaðra embættismanna, afnámi ýmissa bitlinga og sparnaði á rekstri ríkisstofnana mætti spara um 3/4 millj. kr. Við bárum fram frv. um breyt. á framfærslul., sem felur í sér jöfnun á fátækraframfæri bæjar- og sveitarfélaga eftir efnum og ástæðum, og loks frv. um heimild fyrir bæjarfélögin til að taka að sér rekstur kvikmyndahúsa og upp- og útskipun á vörum. Þetta hvorttveggja hefði vel getað sparað ríkissjóði þær 700000 kr., sem nú fara í jöfnunarsjóð bæjar- og sveitarfélaga.

Það hefir verið gerð nokkur tilraun, bæði af hálfu stjórnarflokkanna og íhaldsins til að gagnrýna þessar till. okkar, og ég veit, að þessi gagnrýni verður endurtekin hér. Ég ætla þess vegna að svara henni fyrirfram.

Þegar við berum fram till. um aukna atvinnu og endurbætur fyrir hið vinnandi fólk, þá er svarið: Okkur vantar fé. Og þegar við svo höfum bent á aðferðirnar til að afla fjárins, þá er svarið: Þetta dugar ekki. Þeir segja, að till. okkar um stighækkandi fasteignaskatt, verðhækkunarskatt og einkabifreiðaskatt myndu gefa litlar tekjur fyrir ríkissjóð. Þetta er viðurkennt af okkur, enda áætlum við þessa tekjustofna mjög varlega. Hitt er aftur á móti viðurkennt, að löggjöf eins og þessi myndi hafa mjög holla þjóðfélagslega þýðingu. Hversvegna er þá verið að streitast á móti henni? Vaxtaskattinum hafa a. m. k. sumir af hæstv. ráðh. tjáð sig sammála, og það er stærsti tekjustofninn. Hvers vegna er hann þá ekki samþ.? Frv. um stóríbúðaskatt hafa stjórnarflokkarnir sjálfir borið fram 1932 og 1933 og áætluðu þá tekjur af honum sízt varlegar en við gerum nú. Nú segja þeir, að skattarnir séu orðnir svo háir, að ekki sé hægt að bæta neinu á hátekjumennina, það muni ekkert gefa í aðra hönd. Samt halda þeir, að á sama tíma sé hægt að tvöfalda skattana, sem leggjast á nauðsynjar fátækra manna. Samt vita þeir, að bilið milli stéttanna hefir stækkað síðan 1932. Þeir þurfa ekki annað en fletta upp í opinberum skýrslum til að sjá, að tekjur stóreignamannanna hafa aukizt. Eins vita þeir, að skattar á hátekjumönnum eru hlutfallslega við tollana lægri en þeir voru þá. Þetta er nákvæmlega sama sagan og hv. 1. þm. Reykv. var að segja við fjárlagaumr. í haust, þegar hann var að skopast að því, að skattarnir á hátekjumönnunum gætu orðið yfir 100%.

Hv. forseti Alþýðusambandsins, Jón Baldvinsson, sem stærstu verkalýðsfélög landsins hafa nú lýst vantrausti á, söng sama sönginn, þegar hann flutti á síðasta þingi tollahækkunarfrv. fræga, sem íþyngir hverju heimili á landinu með yfir 100 kr. viðbótarskatti. Ég svaraði þessu seinna í umr. Ég sýndi fram á, að í fyrsta lagi er sagan um 100% þjóðsaga, sem tilheyrir þeim flokki þjóðsagna, sem kallaðar eru lygisögur, og í öðru lagi er hreint ekki gengið nærri hátekjumönnunum, þótt skatturinn yrði eins og kallað er 100% eins og í pottinn er búið með núverandi skattalöggjöf. Maður, sem hefir 100 þús. kr. í árstekjur, hefir yfir 50 þús. kr. eftir að meðaltali á ári til eigin þarfa, sem enginn tekjuskattur eða útsvar nær til, enda þótt þessir skattar séu það, sem kallað er 100% af skattskyldum tekjum.

Þá er eftir að minnast á till. okkar um jöfnun fátækraframfæris, sem er í samræmi við frv., sem Jón Baldvinsson hefir flutt áður, og frv. okkar um tekjustofna handa bæjar- og hreppsfélögum. Hvers vegna fást þessar till. okkar ekki samþ.? Við munum enn freista að bera þessar till. fram. Og hversvegna skella þeir skollaeyrunum við till. okkar um sparnað í opinberum rekstri, sem þó eru í samræmi við till., sem framsóknarmenn hafa áður borið fram, en allt af horfið frá, þegar átti á að herða eða þeir höfðu aðstöðu til að hrinda þeim í framkvæmd?

Í einu orði sagt, þessi gagnrýni stjórnarflokkanna á till. okkar er vegin og léttvæg fundin. Hún er engin skýring á afstöðu þeirra til þessara mála. Þegar menn hlusta á þessar ræður þeirra, þá getur það farið fram hjá athugulum hlustanda, að þeir meina eitthvað allt annað, — maður heyrir eitthvað allt annað niðri í þeim. Hvernig verður þetta skýrt? Og það er vitanlega fleira en fjármálin, sem þarf skýringa við í samvinnu Alþfl. og Framsfl. Á þessu þingi munu þeir í sameiningu leggja fram frv. um vinnulöggjöf, sem skerðir stórlega réttindi verkalýðsfélaganna og er um leið alvarleg árás á lýðræðið í landinu. Samkvæmt þessu frv. er ekki hægt að hefja verkfall nema með 7 daga fyrirvara, öll verkföll, sem hægt er að kalla pólitísk, eru bönnuð. T.d. hefði benzínverkfallið, sem færði bílstjórunum á einu ári 400 þús. kr. hagnað á kostnað olíuhringanna, verið ólöglegt, ef slík löggjöf hefði verið komin á. Ef 6–700 menn í verkamannafélaginu Dagsbrún greiða atkvæði um till. sáttasemjara, þá nægir ekki einfaldur meirihluti til að fella till. sáttasemjara, og ef 350–400 greiða atkv., þá er till. sáttasemjara samþ., þótt allir greiði atkv. á móti henni. Allt að 10000 kr. sektir liggja við brotum, svo að það er hægt að tæma félagssjóðina. Og í félagsdómi, sem á að dæma um ágreiningsatriði atvinnurekenda og verkalýðsfélaga, á yfirstéttin 4 fulltrúa og verkalýðurinn aðeins einn. Svo eru á þessu ýmsir plástrar, sem kallaðir eru „réttindi“ verkalýðsfélaganna og eiga að vera einskonar agn. T.d. er atvinnurekendum óheimilt að hafa áhrif á stjórnmálaskoðanir verkamanna sinna með hótunum eða mútum, og verkalýðsfélögum á að vera heimilt að hafa trúnaðarmenn á vinnustöðvum, og má ekki reka þá úr vinnu vegna starfs þeirra í þágu samtakanna. Það mega nú vera meira en litlir hvítvoðungar, sem ekki skilja, að þetta er harla lítils virði, því að atvinnurekendur finna alltaf einhverjar aðrar átyllur en stjórnmálaskoðanir til að reka menn úr vinnu.

Það er alveg vitað, að á þessu þingi munu koma fram háværar kröfur um einhverskonar ráðstafanir til almennrar kauplækkunar í landinu, annaðhvort með gengislækkun eða öðrum ráðum. Þess vegna þykir fulltrúum atvinnurekenda og bankanna — en slíkir menn eru í öllum þingflokkum nema Kommfl. — nú um að gera að fá fyrst samþ. vinnulöggjöf til þess að lama viðnámsþrótt verkalýðssamtakanna.

Er allt þetta samvinna verkamanna og bænda? Getur það verið, að verkamenn og bændur hafi þannig samvinnu á móti sjálfum sér? Hver er skýringin á öllu þessu?

Sannleikurinn er sá, að þeir ágætu menn, sem skipa hæstv. ríkisstj., styðjast alls ekki við neina raunverulega samvinnu verkamanna og bænda. Það er samvinna formanns Framsfl., Jónasar Jónssonar, og forseta Alþfl., Jóns Baldvinssonar, og ofurlítillar fylgissnauðrar klíku í kringum hann, sem nú ræður mestu um stjórn landsins. En bæði Jónas Jónsson og Jón Baldvinsson eru fulltrúar bankanna. Meiri hl. stj. Alþýðusambandsins og þingmanna þess getur nú ekki lengur talað í nafni Alþfl. Þessi fámenna klíka hefir sett sig í andstöðu við flokkinn. Stærstu verkalýðsfélög landsins, svo sem verkamannafélagið Dagsbrún, verkamannafélagið á Siglufirði, Norðfirði, Hafnarfirði, Húsavík og víðar hafa lýst vantrausti sínu á meiri hl. stj. Alþfl. Stærsta pólitíska félagið í Alþfl., Jafnaðarmannafélag Reykjavíkur, hefir einnig lýst vantrausti sínu á þessa klíku. Fulltrúaráð verkalýðsfélaganna í Reykjavík hefir tekið sömu afstöðu. Þessir menn, sem algerlega ranglega gefa sig út fyrir að vera Alþfl. hér á Alþingi, hótuðu að kljúfa Alþfl. í haust á þingi hans, ef þingið gerði ekki vilja sinn gildandi og Alþfl. og Kommfl. yrðu sameinaðir. Þessu var afstýrt af mönnum með meiri ábyrgðartilfinningu og meiri drenglund á þann hátt, að meiri hl. sló undan fyrir minni hl. til þess að varðveita einingu flokksins. Mönnunum, sem ætluðu að kljúfa, var treyst til að fara áfram með stjórn flokksins. Og þetta traust nota þeir nú til þess að gera tilraunir til að kljúfa flokkinn og ræna eignum hans. Í því skyni var Héðinn Valdimarsson rekinn. Og það er mjög líklegt, að hvert félagið af öðru verði með lögleysum rekið úr Alþýðusambandinu, til þess að þessir klofningsmenn geti rænt eignum flokksins, þótt þeir séu ekki annað en fylgislítil klíka, sem hefir yfirgnæfandi meiri hl. flokksins á móti sér.

Það er verkefni allra góðra drengja í alþýðustétt að vernda einingu alþýðunnar fyrir þessum ófyrirleitnu klofningsmönnum, og ég er sannfærður um, að það mun takast. Það mun takast að sameina verkalýðinn í einn sterkan, sósíalistískan flokk, sem mun verða miklu meiri styrkur fyrir lýðræðið en þessi einangraða klofningsklíka, sem er sífellt með lýðræðið á vörunum, en afneitar þess krafti. Ég er alveg sannfærður um, að allir þeir framsóknarmenn, sem vilja vera einlægir fulltrúar sinnar stéttar, muni fljótlega sjá, að það er lítil stoð í því að vera að druslast með þessa einangruðu klíku, sem engan flokk hefir að baki sér.

En út af því, sem fulltrúi Bændafl., hv. 4. landsk., og fulltrúi Sjálfstfl., hv. 1. þm. Reykv., sögðu, vil ég segja þetta:

Ef íhaldsmenn halda, að við kommúnistar og fulltrúar verkalýðssamtakanna munum láta það líðast, að þeir geti notað þetta ástand í verkalýðshreyfingunni og á þingi til þess að koma fram sínu langþráða takmarki, að fella þessa ríkisstj. og setja aðra í staðinn, sem þeir sjálfir væru þátttakendur í ásamt hv. formanni Framsfl. og ef til vill líka ásamt hæstv. forseta Sþ., þá skjátlast þeim alveg. Það er ekki þetta, sem kjósendurnir vilja. Þeir hafa gefið vinstri flokkunum umboð til að vinna saman. En þeir ætluðust til þess, að þeir héldu áram að vera fulltrúar verkamanna og bænda, en ekki að þeir gerðust liðhlaupar við stétt sína og samtök hennar. Kjósendurnir vilja vinstri stjórn, raunverulega samvinnu verkamanna og bænda.

Því er oft haldið fram, að við kommúnistar og vinstri armur Alþfl. viljum enga stjórnarsamvinnu milli Frmsfl. og alþýðusamtakanna. Þetta er hið herfilegasta öfugmæli, fjarstæða og blekking, sem ég vil kröftuglega mótmæla frammi fyrir allri þjóðinni. Við leggjum einmitt megináherzlu á samvinnu verkamanna og bænda. Við viljum, að slík samvinna milli verkamanna og bænda sé raunveruleg samvinna milli verkamanna- og bændastéttarinnar. Við viljum, að samtök verkamanna og bændanna, verkalýsfélögin og samvinnufélögin, og önnur lýðræðissinnuð samtök alþýðunnar geri með sér bandalag til þess að hrinda áhugamálum sínum í framkvæmd. Við viljum, að ríkisstj. verkamanna og bænda styðjist við slíkt bandalag, og við viljum, að pólitík hennar sé óháð auðmannastéttinni og bönkunum.

Og þegar til kosninga kemur næst, hvenær sem það verður, það getur orðið fyrr en varir, þá þurfa kjósendur að hafa hugfast þetta tvennt: Að varast blekkingar íhaldsins og láta höfuðandstæðingunum ekki takast að hagnýta sér til framdráttar þá riðlun á flokkum verkamanna og bænda, sem einstakir óhappamenn hafa valdið. Og í öðru lagi: að losa sig við þá menn, sem hafa brugðizt því trausti, sem þeim hefir verið veitt, sem starfa skipulagsbundið að klofningi samtakanna, sem stefna að samvinnu við íhaldið, sem í stuttu máli eru í tjóðurbandi borgarastéttarinnar.

Ef íslenzk alþýða ber gæfu til að skilja þetta nógu snemma, þá mun okkur takast að skapa öflugt samstarf verkamanna og bænda og vinstri stjórn, sem hefir traustan grundvöll undir fótum.