26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1275 í B-deild Alþingistíðinda. (1906)

34. mál, atvinna við siglingar

*Sigurður Kristjánsson:

Ég get byrjað á því að endurtaka það, sem ég sagði við 2. umr. málsins, að þegar ég greiddi því atkv. árið 1936, að lög þessi um atvinnu við siglingar, sem nú er farið fram á að breyta, væru samþ., tók ég það fram í þessari hv. d., að ég væri sannfærður um, að þessi löggjöf væri ekki til frambúðar og ekki rétt undirbúin, þó að kunnáttumenn hafi fjallað um frv. Þetta stafar af því, að ekki höfðu verið kvaddir til þeir menn, sem ég tel, að þurfi að vinna að málinu, og það eru hagsmunaaðiljarnir og umboðsmenn þeirra. Og það stendur óbreytt enn, hversu oft, sem frv. koma fram til breyt. á þessum l., og hversu mörg l., sem kunna að verða samþ., að l. verða aldrei öðruvísi en ótrygg og á reiki á meðan ekki er gætt þess nauðsynlega undirbúnings, sem sé þess, að það sé orðin sætt í málinu um hagsmunaatriðin áður en Alþ. leggur síðustu hönd á.

Það er af þessum ástæðum, sem ég kom með minar brtt. við frv., sem ég ætla, að geri aðeins bráðabirgðabreyt., sem er alveg nauðsynleg. Hinsvegar lýsti ég því yfir, að ef mínar brtt. yrðu samþ., myndi ég sjálfur og e. t. v. með öðrum, bera fram þáltill. um að fela ríkisstj. að láta endurskoða löggjöfina um atvinnu við siglingar fyrir næsta þing og kveðja þar til ekki aðeins kunnáttumenn, heldur og umboðsmenn þeirra aðilja, sem hafa hugsmuna að gæta í þessu máli. Nú tók ég þessar till. aftur við 2. umr. í þeim tilgangi og samkv. gefnu loforði um, að þær yrðu teknar fyrir til athugunar í sjútvn. milli umr. Mót von minni hefir ekkert orðið af þessu. N. hefir ekki gert þetta. Þess vegna var það í raun og veru alveg gagnslaust fyrir mig að fresta þessum till., nema ef svo skyldi vera, að hv. þm. leggi þá rækt við þetta mál og hafi þann skilning á því, að þeir hafi kynnt sér þær till., sem fyrir liggja.

Ég vænti, að það komi í ljós við atkvgr. um málið, hvort hv. þm. séu svo vandir að verkum sínum, að þeir hafi gert þetta, en ég verð að lýsa því yfir, að ég hefi talað við menn bæði í þessari hv. þd. og eins áhugamenn um þetta mál utan þingsins, sem ekki hafa kynnt sér þær till., sem fyrir liggja um það.

Um málið að öðru leyti vil ég segja þetta í sambandi við brtt. mínar. Það liggur fyrir rökstudd krafa frá útgerðarmönnum um nokkrar breyt. á l., en miklu færri en þær, sem felast í frv. — Það, sem útgerðarmenn telja alveg sérstaklega óþarft, en til mikillar íþyngingar í l. eins og þau nú eru, er skylda smábáta til að hafa sérstakan stýrimann og skyldan til að hafa 3. vélstjóra á togurunum, eða aðstoðarmann í vél, sem gerir það að verkum, að menn í vél verða að vera fimm. Þetta er bein mannafjölgun á togurunum, og þetta atriði út af fyrir sig varðar útgerðina útgjöldum, sem nema 5–6 þús. kr. á hvern togara á ári.

Ég hefi nú talið, að það mætti vel bjargast við að gera þessar tvær breyt. á l. fram til næsta þings, og það er líka aðalatriðið í mínum till., að gera þessi tvö atriði að höfuðatriðum frv.

Ég hefi borið þessar till. undir umboðsmenn bæði frá stýrimannafélagi Reykjavíkur og eins frá vélstjórafélaginu, og yfirleitt hefir mér fundizt, að þeir myndu vera mjög ásáttir eða mjög ánægðir með það eftir atvikum, að þessi leið yrði farin, að gera þessar breyt. til bráðabirgða og fá svo endurskoðun á l.

Ég hefi einnig rætt þetta mál við ýmsa útgerðarmenn fiskiskipa, og mér skilst, að þeir geti einnig gert sig ánægða með þessa lausn málsins. Allir þeir menn, sem ég hefi rætt við, hafa verið mér sammála um það, að ekki verði til frambúðar gengið tryggilega frá þessu máli, nema því aðeins, að kvaddir séu til undirbúnings kunnáttumenn og einnig umboðsmenn þeirra, sem þarna hafa hagsmuna að gæta.

Að ég hefi fellt niður úr frv. með mínum brtt. það að fækka stýrimönnunum á togurunum úr tveimur í einn, stafar af því, sem að nokkru leyti er fram tekið af öðrum, að á flestum togurum hafa undanfarið verið tveir stýrimenn, og það að fækka þeim niður í einn, myndi ekki hafa neina breyt. í för með sér. Þeir myndu verða tveir eftir sem áður; enda er það svo, að þetta er engin mannaaukning á skipunum, því að við það að hafa einum stýrimanninum færra, myndi verða einum hásetanum fleira, og kaupmunurinn er sáralítill.

Hvað varðskipin snertir er ástæðan fyrir því, að ég í mínum brtt. legg til, að látið verði sitja við sama og nú er í l., sú, að ég hefi rætt þetta mál ekki aðeins nú, heldur og áður við þann mann, sem ég hygg, að muni bæði vera óvilhallastur í málinu og líka hafi mestu þekkingu. Það er fyrrv. skipherra, núv. forstöðumaður stýrimannaskólans. Hann hefir siglt mjög lengi á varðskipunum og hlýtur því að hafa mikla þekkingu á þessu máli; en hann er ekki lengur skipherra, og er því engin ástæða til að ætla að hann sé sérstaklega hlutdrægur í málinu af þeim sökum. — Hann telur, að það sé ekki hyggilegt né fært að breyta þeim ákvæðum l., sem snúa að varðskipunum, að nokkru verulegu ráði. Það er að sönnu svo, að varðskipið Þór er notað mikið til annara starfa en landhelgisgæzlu. Hann er við björgun, rannsóknir og ýms ferðalög, svo að það mætti kannske láta slíkar breyt. um fækkun yfirmanna, sem frv. gerir ráð fyrir, ná til hans; en þetta er alger undantekning, og ekki rétt að fara að sníða almenna löggjöf eftir slíkum hlutum, sem alls ekki eru hið almenna.

Hv. frsm. sagði, að hann skyldi ekki, hvers vegna ég vildi feila það úr frv., að texti þessara I. yrði felldur inn í hin núgildandi l., þar sem það væri venjulegt og haganlegt. Þetta stafar af þeirri einföldu ástæðu, að ég geri ráð fyrir, að þetta verði ekkert annað en bráðabirgðabreyt. og að l. verði steypt upp þegar á næsta þingi, og þá hefir það enga þýðingu að fella slík bráðabirgðaákvæði inn í 1., sem maður gerir ráð fyrir, að samin verði upp að nýju. Annars væri þetta alveg sjálfsagt, og það er rétt fram tekið hjá hv. frsm., að það er bæði venjulegt og þægilegt, ef löggjöf á að standa til frambúðar óbreytt.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar, en ég vil fullyrða það, að ef hv. þm. vilja ekki taka þetta mál af þeirri alvöru, að þeir ætlist til þess, að það verði þeim mönnum að gagni, sem við l. eiga að búa, þá geta þeir samþ. allskonar firrur; en ef slíkt verður gert, verður eilífur ófriður um þessa löggjöf. Ef menn ætla að fara að gera þeim mönnum til hæfis, sem lengst ganga í kröfum sínum um mannafjölda á skipunum, verður eilíf óánægja frá hendi þeirra, sem gera skipin út. Ef hinsvegar verður tekið það ráð, að breyta l. til sparnaðar á yfirmönnum eftir ýtrustu kröfum þeirra, sem lengst ganga í því efni, verður eilífur ófriður frá hendi þeirra, sem eiga að hafa atvinnu við siglingar. Þá fæst engin skynsamleg lausn á málinu. Ef menn vilja heldur hitt, að taka það ráð, sem líklegast er, ekki aðeins til þess að verða haganlegast fyrir þennan atvinnurekstur fjárhagslega, heldur líka til þess að sætta þá aðilja, sem þarna eiga hagsmuna að gæta, þá eiga þeir að samþ. minar brtt.; það eitt er af viti gert, og leggja síðan málið í hendur ríkisstj. til nýrrar endurskoðunar fyrir næsta þing.