26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1277 í B-deild Alþingistíðinda. (1907)

34. mál, atvinna við siglingar

*Pétur Ottesen:

Það voru nokkur atriði, sem komu hér fram við 2. umr. þessa máls, sem höfðu gefið mér tilefni til andsvara, en þar sem hv. frsm. sjútvn., hv. þm. Barð., hefir komið inn á þessi atriði og gert þar svo rækilega hreint fyrir sínum dyrum og þeirra manna. sem eru honum sammála um það mál, sem hér liggur fyrir. þá þykir mér engin ástæða til að lengja umr. með því að bæta þar nokkru við.

Ég álít sem sagt, að hann hafi fært þar fram svo gild og góð rök fyrir þessu máli, og þar með dreift þeirri þoku, sem reynt hefir verið að hjúpa utan um meginkjarna þessa máls hér í d., að þar við megi sitja.

Út af þeirri breyt., sem ég flyt hér um að færa úr 30 og upp í 40 smálestir stærð þeirra báta, sem eiga að vera undanþegnir ákvæðum 1. um að hafa stýrimann, er það að segja, að ég get ekki séð, að það sé neinn munur á því, hvort þessir bátar eru 30 eða 40 smálestir, sem þannig er ástatt um, að þeir koma daglega úr róðri, og þess vegna sé ekki rétt að gera upp á milli manna, sem reka útgerð með slíkum hætti, að vera að leggja þyngri kvaðir á þá, sem hafa 40 smálesta báta, þar sem þeir sigla á sömu mið og koma daglega úr róðri.

Ég vil í þessu sambandi benda á, að í því frv., sem hv. þm. Barð. hefir flutt um þetta efni, gerði hann ráð fyrir, að þessi undanþáguheimild ætti að ná til báta allt að 75 smálesta stærð.

Ég fer svo ekki frekar út í þetta, en vil leggja áherzlu á það með hv. frsm. sjútvn., að það er nauðsynlegt, að þetta mál geti gengið áfram nú á þessu þingi og þar með greitt úr því öngþveiti, sem nú er komið í að því er þetta snertir, þar sem orðið hefir að grípa til þess hvorstveggja, að gefa út bráðabirgðalög að því er snertir línuveiðaskip, til þess að hægt væri að halda þeim úti á síldveiðum, og nú er partur vélbáta rekinn ólöglega, af því að ekki er hægt að samræma það við þau ákvæði, sem nú gilda um þetta efni. Þetta ástand er óþolandi, og mér virðist, að hér sé farin mjög skynsamleg leið til leiðréttingar á þessu með þeim till., sem fyrir liggja í þessu frv., og því má ekki slíta svo þingi, að málið verði ekki afgr. í svipuðu formi og það hefir nú.