26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1915)

34. mál, atvinna við siglingar

*Jakob Möller:

Ég greiddi atkv. með þessu frv. til 3. umr. og vænti þess, að n. athugaði málið frá öllum hliðum áður en það kæmi til umr. hér í d. Ég hefi ekki orðið þess var, að n. hafi gert þetta, og meðal annars, sem fyrir mér vakti, er það, að n. tæki til athugunar umsögn skipstjóra, stýrimanna og vélstjóra um þetta frv. Ég hefi gert grein fyrir því, að sumar þær breyt., sem þetta frv. fer fram á, eru mjög þýðingarlitlar eða þýðingarlausar til sparnaðar fyrir útgerðina. Virðist því, að hér mætti taka til greina að breyta frv. til frekara öryggis fyrir sjómennina en nú er. Þetta frv. er borið fram af Framsfl., og látið er í veðri vaka, að það sé gert til að koma til móts við kröfur og tilmæli útgerðarmanna um að létta kostnaði af útgerðinni vegna þeirra erfiðleika, sem hún á nú við að búa. Ég get ekki fallizt á, að þetta sé rétt aðferð til að koma til móts við kröfur útgerðarmanna, að stofna til sparnaðar á þann hátt, að dregið sé úr öryggi sjómanna á skipunum. Fyrst ber löggjafarvaldinu að létta af þeim gjöldum, sem útgerðin greiðir til ríkissjóðs og þvinga hana stórkostlega, áður en lagt er út í þær breyt., sem felast í þessu frv. Þær eru aðeins forsvaranlegar sem hreinasta neyðarúrræði, að létta þannig kostnaði af útgerðinni, en meðan ekki er tekið meira undir þær kröfur til ríkissjóðs um ívilnanir á gjöldum útgerðarinnar, get ég ekki gengið inn á að greiða atkv. með breyt. á siglingalögunum, þó að vísu megi rökstyðja það, að ýmsar af þessum breyt. geti staðizt, án þess að unnt sé að segja, að nokkur hætta sé á því, að öryggi skipanna sé stefnt í voða. En mér virðist, að frv. sé að sumu leyti þannig úr garði gert, að það dragi að óþörfu úr öryggi sjómannanna.

Ég taldi rétt, að frv. væri athugað nánar en gert hefir verið, og réttast, að siglingalögin yrðu tekin til endurskoðunar fyrir næsta Alþ., en eins og nú standa sakir treysti ég mér ekki til að samþ. þetta frv.