29.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1290 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

34. mál, atvinna við siglingar

*Pétur Ottesen:

Það er nú svo ákaflega gott dæmi um það, hvernig hv. þm. Ísaf. litur á sig, þar sem hann fer að þakka sjálfum sér fyrir það, að hámarksverð á síldarafurðum hækkaði svo mjög sérstaklega á síðastl. ári. Ég held þó að beysnari bógur hefði verið en hann, hefði verðið hækkað. En honum hefir unnizt drjúgum að draga sem mest úr þeim hagnaði fyrir íslenzka sjómenn, sem leiddi af því, að verðið hækkaði svona mikið. Hitt hefir hann tamið sér, að nota aðstöðu sina til að greiða 1/4 millj. kr. fyrir það, sem ekki er til neins nýtilegt, sem nýja þróin á Siglufirði. það er töluvert atriði út af fyrir sig.

Hv. þm. Ísaf. talaði um, að allur sparnaðurinn fyrir 17 báta á Akranesi væri um 250 kr. yfir vertíðina. Hann veit, að það hefir verið rýr afli það sem af er þessari vertið. Nú sýna reikningarnir þetta, þar sem stýrimenn hafa fjórðungshlut og vélstjórar fá aukaborgun, og þetta allt segir hann, að sé aðeins 250 kr. Þetta sýnir, hvernig hugsunarháttur þessa hv. þm. er, þegar hann gerir útreikninga. Grundvöllurinn að málum þeim, sem hann vinnur að fyrir aðra, sýnir glöggt, hvílík óskapleg botnleysa það er, sem hann syndir í. Auk þess vil ég benda á það, að á Akranesi eru sex bátar gerðir út ólöglega. Þessi vinur þáverandi atvmrh. (HG) hefir ekkert gert, sem sé þess virði, að á það sé minnzt, ekkert gert til aðstoðar útgerðinni. Hann notaði bráðabirgðalög og annað til þess, að sú útgerð, sem hann veitti forstöðu, gæti verið lögleg. Þannig er þá ástandið, eftir þeim upplýsingum, sem okkur hafa borizt. Hann gerir sér það að góðu, en ekki þýðir að bera slíkt á borð fyrir alla.

Út af afskiptum mínum af skólamálum og greininni, sem birtist um þau í Alþbl. síðastl. vor, vil ég segja það, að hún átti að vera til þess að spilla kosningu minni, en varð til þess, að ég var kosinn með miklu hærri atkvæðatölu en annars hefði orðið. Þetta sýndi fullt traust kjósenda á mér, en það var vantraust fyrir hv. þm. Ísaf. og flokksbræður hans. Það gæti verið honum hjálp, þegar hann er seztur að í síldarþrónni, að rifja þessa grein úr Alþbl. upp í huga sínum.