26.04.1938
Neðri deild: 54. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1293 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

34. mál, atvinna við siglingar

*Pétur Ottesen:

Út af því, sem hv. þm. Seyðf. sagði, að honum hefði ekki verið kunnugt um, að bátar á Akranesi hefðu verið gerðir út ólöglega, vil ég taka fram, að ég sendi honum símskeyti þess efnis, að nauðsyn bæri til að gera ráðstafanir til breyt. á l., því að öðrum kosti yrði að gera þar út ekki færri en 6 báta ólöglega. Ég sagði hæstv. ráðh. strax eftir að ég kom suður, hvernig ástatt var, svo hann vissi ákaflega vel, meðan hann sat í ráðherrastóli, hvernig ástatt var um útgerðina. Mér er ekki kunnugt um, að hann hafi gefið neinar fyrirskipanir um að stöðva útgerð þessara báta. Sannleikurinn er sá, að meðan þessi hv. þm. var enn í stj., þá gerði hann ekkert í þessu efni. Þessari löggjöf hefir alls ekki verið framfylgt. Það hefir ekki verið lögskráð á bátana. Það sýnir bezt, hvernig hug sjómenn bera til þessarar löggjafar, að þeir hafa ekki hreyft neinum andmælum gegn því, að svo væri gengið í berhögg við þessa löggjöf.

Þessi hv. þm. var nú líka að japla á þessari sætu tuggu úr Alþýðublaðinu. Hann var að tala um hrútakofa og annað slíkt. Ég skal fúslega játa, að það er lakara að skólabörnum í mínum hreppi búið heldur en þessum hv. þm., og ætti honum að vera manna bezt kunnugt um það, þar sem hann hefir verið kennslumálaráðh. að undanförnu og ekkert gert til að bæta úr skólavandræðum í þessu skólahverfi. Atvikin hafa nú hagað því svo, að þessi hv. þm. hefir nú fengið 10 þús. kr. embætti í tryggingarstofnuninni, sem hann átti nú mikinn þátt í að koma á fót. Og mér virðist þessi hv. þm. vera næsta ánægður með sitt hlutskipti. Ég veit ekki, hve mikils starfs er af honum krafizt í þessu embætti. Það var maður í þessu embætti áður, og mér er sagt, að þessi maður sitji áfram. Fyrrv. flokksbróðir hv. þm. hefir látið orð um það falla, að þessi fyrrv. forstjóri muni vinna starfið, en hv. þm. Seyðf. hirða launin. En þessir hv. þm. eru gamalkunnugir, og þess vegna má leggja nokkuð upp úr því, hvað þeir segja hvor um annan.

En þrátt fyrir þessa stöðu virtist samt sem áður langt frá því, að hv. þm. væri ánægður, því að hann reyndi töluvert til að komast inn í bankaráð Landsbankans. Mér er kunnugt um það sem meðlimi í bankanefndinni, að tvisvar varð að fresta fundi áður en það var afráðið hjá Framsfl., að sú ákvörðun var tekin að láta þennan hv. þm. ekki fara í bankaráð, heldur annan flokksbróður þessa hv. þm. Þetta er ekki hægt að bera saman við síldarþró þá, sem ég álít, að hv. þm. Ísaf. eigi vel skilið að fara í, og ekki heldur þá aðstöðu. sem skólabörn viða á landinu eiga við að búa. Þessi hv. þm. hefir verið mikilsráðandi maður í stjórnarflokkunum, og þó er það svo, að það hefir ekki verið hægt að áorka meiru um skólabyggingar en það, að styrkurinn, sem ætlaður er til þessara hluta úr ríkissjóði, hefir nú verið greiddur 3 ár fram fyrir sig. Það má því segja, að honum farist ekki að tala, þessum hv. þm., um aðra í skólabyggingarmálunum. Það má við hann segja: „Maður líttu þér nær, liggur í götunni steinn.“