10.05.1938
Efri deild: 72. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1312 í B-deild Alþingistíðinda. (1940)

34. mál, atvinna við siglingar

*Erlendur Þorsteinsson:

Herra forseti! Það virðist svo um þetta frv., að það þýði mjög lítið að rökræða málið. því meðmælendur frv. láta ekki svo lítið að reyna neitt til að mótmæla þeim rökum, sem fram hafa komið gegn þessu frv. Það er ekki heldur hægt, og því hafa þeir heldur tekið þann kostinn að þegja og reyna að koma frv. í gegn eins og það er, til þess að forðast að opinbera sjálfu sig sem nokkurskonar árásarmenn á hina íslenzku sjómannastétt.

Það var hv. 3. landsk., sem bæði við 1. og 2. umr. málsins fór mjög ýtarlega og greinilega í gegnum frv. lið fyrir lið, og benti á, hversu mikil fjarstæða þetta mál væri og hversu illa undirbúið og lítið athugað það væri, enda er líka von. að svo sé, því að þessu frv. standa menn. sem kannske er ekki hægt að segja. að séu alveg þekkingarlausir um þessi mál, en þeir hafa a. m. k. lítið að þessum málum unnið og þekkja lítið það, sem þarf til þess að geta gengið vel frá slíkum málum sem þessu. Það er því í raun og veru enn furðulegra — þó að það sé kannske ekki hægt að vera svo undrandi, þó einhverjir menn, sem fengizt hafa við landbúnaðarstörf eða embættisstörf, og ekkert þekkja inn í þessi mál, beri fram einhverjar till. af vanþekkingu —, að menn eins og hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. S.–M. sem svo að segja allan aldur sinn hafa fengizt við útgerð og ættu því að þekkja til þessara mála, vilja styðja að framgangi þessa máls. Það verður þó að viðurkenna það, sem vel er gert, að þeir hafa borið fram till., sem að vísu eru til bóta á frv., en samt sem áður er frv. þannig úr garði gert, að eins og það er, þá er það beinlinis árás á öryggi íslenzkra sjómanna. Og það er einmitt það stóra atriði í þessu máli. Ég get ekki ímyndað mér það, þó það virðist hafa komið fram við þessar umr., að þessir hv. þm. vilji halda því fram, að það beri að spara nokkrar krónur á báti og tefla kannske lífi sjómanna í hættu með því.

Það er í raun og veru athugavert, að á sama tíma, sem þessir menn eru sí og æ að hrósa íslenzkri sjómannastétt, og jafnvel er verið að tala um að veita konum þeirra kost á að synda í sundhöllinni við lækkuðum inngangseyri, að þeir skuli á sama tíma styðja frv., sem vel getur orðið þess valdandi, að þessar sömu konur, sem eiga að synda í sundhöllinni, fái kannske ekki menn sína heim aftur.

Það er dálítið einkennilegt, þegar maður eins og hv. 10. landsk., sem hélt hér fjálga og hjartnæma ræðu fyrir nokkrum dögum um, að það bæri að reisa veglegan minnísvarða yfir fallna sjómenn, á borð við þá, sem aðrar þjóðir reisa yfir fallna hermenn, greiðir atkv. móti því að veita afbrigði til þess að nokkrar till., sem eru til bóta á þessu frv., mættu koma fram. Ég sé ekki, að það búi nein heilindi á bak við slíkt.

Það má segja það. sem oft hefir verið sagt áður, að íslenzka þjóðin hefir sloppið við að hafa útgjöld til hernaðar, og hún hefir líka sloppið við að senda syni sína út í hernað. Því hefir oft verið líkt við það og um það talað, að það afhroð, sem íslenzka þjóðin hefir goldið við fráfall þeirra manna, sem á sjónum farast á hverju ári, sé oft jafnmikið hlutfallslega eða jafnvel meira heldur en þau afhroð, sem aðrar þjóðir hafa goldið í styrjöldum. Nú má líkja hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. S.-M. við herforingja, sem stjórna liði sínu, en taka þó ekki þátt í bardögum, því hvorugur þessara hv. þm. munu hafa tekið virkan þátt í bardögum þeim, sem háðir eru á sjónum við vond veður og annað. Þeir róa ekki á sjó sjálfir, en eru í landi og stjórna herferðinni þaðan. Getur nú nokkrum dottið í hug, að hygginn herforingi muni vilja skerða lið sitt með því að búa illa um öryggi herdeildarinnar, en það er einmitt það, sem verið er að gera með þessu frv.

Ég gat um það áðan, að vitanlega er frv. nú miklu skárra en það var áður, þó langt sé frá, að það sé á nokkurn hátt viðunandi.

Ég ætla svo að koma lítillega inn á þær brtt., sem nú liggja fyrir. — Það var nú ekki við það komandi við 2. umr. málsins, að hv. þdm. vildu að nokkru leyti taka tillit til þeirra tiltölulega smávægilegu brtt., sem hv. 3. landsk. og ég bárum fram. 1. gr. frv. er nú þannig, að undanþegin því ákvæði að hafa stýrimann auk skipstjóra eru öll fiskiskip og bátar undir 40 rúmlestum, en áður var þetta miðað við 30 rúmlestir. Í frv. eins og það var upphaflega er þetta miðað við 30 rúmlestir, og á undanþágan eftir því að gilda fyrir skip, sem leggja afla sinn daglega á land. En nú er þetta ákvæði orðið þannig, að þau eru undanþegin ákvæðinu um stýrimenn, ef þeim er ætlað að leggja afla sinn á land daglega. Það er m. ö. o. svo, að óbilgjörnum útgerðarmönnum og skipstjórum er gefið undir fótinn með það, að ganga framhjá þessu ákvæði, þó sá skilningur hafi að vísu veril lagður í þetta við 2. umr. af hv. flm., að ákvæðið bæri að skilja þannig, að það ætti eingöngu að gilda um þau skip, sem daglega reru úr landi eða notuð væru til landróðra, eins og það er kallað. En mönnum er samt gefið undir fótinn með að ganga framhjá þessu ákvæði, eins og það er orðað nú, því það má auðvitað um það deila, hvort skipi er ætlað að leggja afla sinn daglega á land eða ekki.

Við leggjum því til í brtt. okkar á þskj. 548, að í þessu ákvæði sé skýrt tekið fram, að átt sé við þá báta, sem stunda þorskveiðar og koma daglega að landi með afla sinn. Ég man eftir því, að einu sinni í vetur kom fram till. frá landbn. við lögin um byggingar- og landnámssjóð, sem nm. voru ekki sammála um, hvernig ætti að skilja. — en till. var um það, hverjir skyldu sitja fyrir þeim styrk, sem varið væri til húsabófa í sveitum —, svo d. þótti þá alveg sjálfsagt að fella þá till. vegna þess, að hún væri ekki nógu skýrt orðuð. Hv. d. hélt því þá fram, að það væri ljóður á d. og þinginu í heild, ef samþ. væri till., sem hægt væri að skilja á tvo eða fleiri vegu. Ég vænti þess, að hv. þdm. séu enn sömu skoðunar og þeir voru þá, og ekki síður nú, þar sem um er að ræða öryggi fjölmargra manna, og samþ. ekki till., sem hægt er að skilja á fleiri en einn veg, og muni í því skyni samþ. brtt. okkar hv. 3. landsk., þar sem ákvæðið er skýrt og greinilegt.

Þá er einnig í 1. gr. ákvæði um það, að þau skip. sem stunda síldveiðar tvö um nót, séu líka undanþegin þessu ákvæði. Þetta ákvæði er vitanlega komið inn, eins og sýnt var greinilega fram á við 2. umr., vegna einskonar vanþekkingar, og af engu öðru. Það er dálítið einkennilegt, að þessir hv. þm. skuli ekki taka nokkurt tillit til þess, sem stýrimannafélagið, sjómannafélagið, farmannasambandið og skipstjórafélagið hafa að segja um þetta mál, og vilja ganga framhjá þeim mönnum, sem bezta þekkingu hafa á þessum málum faglega, og treysta eingöngu á sjálfa sig um málefni, sem sumir þeirra hafa enga hugmynd um. Það var mjög greinilega farið út í þetta af hv. 3. landsk., svo ég gæti í raun og veru sleppt því, en ég vil þó undirstrika það, hvernig farið getur, ef aðeins er skipstjóri og einn vélamaður. Ég vil þá reyna að lýsa því, hvernig hagar til, þegar bátar eru á leiðinni í land með feng sinn. Ég veit ekki, hversu margir hv. þdm. hafa verið á Siglufirði yfir síldveiðitímann og séð, hvernig þessu er háttað. Þessir bátar fara oft langt frá landi, og það, sem veiðist, er losað í annan bátinn, og fer hann svo í land, þegar hann er orðinn nógu hlaðinn. Þegar þessir bátar sjást frá landi, þá eru þeir svo að segja allir í kafi, aðeins endinn upp úr. Ef eitthvað kæmi nú fyrir vélamanninn, þá yrði skipstjórinn að fara niður og hugsa um vélina. — og hver á þá að stjórna, ef eitthvað kæmi fyrir, sem auðvitað getur skeð? Ég er sannfærður um, að ef hv. þdm. sjálfir ættu að stunda þessa atvinnu, þá myndu þeir ekki bera fram slíka till., sem hér hefir verið gert, né láta á nokkurn hátt rýra öryggi þeirra manna, sem stunda þessa atvinnu. Það virðist líka óskynsamlegt, að þeir menn, sem eru útgerðarmenn. skuli vilja rýra öryggi þeirra manna, sem færa þeim feng í bú og auka auð þeirra.

2. brtt. á þskj. 548 er um það, að gera 3. gr. skýrari á sama hátt og 1. gr., og jafnframt að fella úr það ákvæði, sem sett hefir verið inn í 3. gr., að bátar, sem séu tveir um nót, séu ekki skyldir til að hafa undirvélstjóra, ef skipstjóri hefir öðlazt vélgæzluréttindaskírteini samkv. 36. gr. Ég get haft um þetta sömu rök og ég hefi áður tekið fram, þegar ég var að mæla fyrir fyrri brtt., að það nær engri átt, eins og ég hefi þegar skýrt, að hafa ekki nema einn skipstjóra og einn vélamann. Það nær vitanlega engri átt, eins og fram hefir verið tekið áður, að þegar breyta á l. eins og þessum, sem varða öryggi heillar stéttar, og það þeirrar stéttar, sem leggur mest í hættu og jafnvel er hægt að segja um, að hætti lífi sínu og limum, þó það séu að vísu aðrir, sem leggja meiri fjármuni í hættu, að breyta slíkum 1. án þess að tilkvaddir séu einhverjir úr hópi þeirra manna, sem um þessi mál hafa fjallað og þekkja til, hvað það er, sem þarf til þess að auka sem mest öryggi þessara manna. Það nær engri átt, að á sama tíma, sem uppi er öflug hreyfing um það að vinna sem mest að auknum slysavörnum og þjóðin leggur á sig mikil fjárútgjöld og mikla vinnu til að halda uppi auknum slysavörnum, þá skuli vera bornar fram till. til þess að draga úr því öryggi, sem fengizt hefir fyrir langa og harða baráttu þeirra manna, sem á sjónum vinna. Þeir hljóta sjálfir að vita bezt, hvernig bezt er hægt að búa að öryggi þeirra. Þeir vita þetta betur heldur en útgerðarmenn, sem ekki hafa stundað þessa atvinnu, a. m. k. ekki nú um langan tíma. Það er nú búið að vinna að því í fjölda mörg ár, af þessari stétt að auka þetta öryggi og gera allan aðbúnað þessarar stéttar sem beztan og auka þægindin um borð í skipunum, og þá fyrst og fremst að auka öryggi skipanna, að þá skuli nokkrir þm. risa upp og flytja frv. illa undirbúið, sem miðar að því að draga úr örygginu á sjónum og auka hættu þeirra sjómanna, sem þar vinna. Það ætti vitanlega að vera skylda hv. d. að fella þetta frv. En ég vil a. m. k. vænta þess, að til að draga úr skaðsemi þess, þá samþ. hv. þdm. þær brtt., sem hér liggja fyrir á þskj. 548, og sýni með því, að þeir vilji ekki verða þess valdandi, að dregið sé á neinn hátt úr öryggi sjómannastéttarinnar.