11.05.1938
Efri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1319 í B-deild Alþingistíðinda. (1943)

34. mál, atvinna við siglingar

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forseti! Það er nú svo, að hv. 3. landsk. er búinn að halda hér margar mjög tæmandi ræður um þetta mál, og ég vil þakka honum fyrir þær. Hann hefir í þeim tekið fram flest af þeim rökum, sem liggja að því, að þetta frv. er til stórkostlegs skaða fyrir sjómannastéttina í heildinni, og hefir hv. 3. landsk. talað af náinni þekkingu á þessu máli. Ég vildi nú benda þeim þm., sem fylgja þessu frv., og sérstaklega þeim þeirra, sem hafa staðið að því að knýja það fram hér á Alþ., á að um það verður ekki deilt, að þetta frv. er borið fram á móti eindregnum vilja sjómannastéttarinnar í heild. Hún er alveg óskipt í þessu máli. Mótmæli hafa borizt til Alþ. gegn þessu frv: frá flestöllum samtökum sjómanna og farmanna í landinn m. a. frá farmanna og fiskimannasambandinn. frá Vélstjórafélagi Íslands. nemendum vélstjóraskólans, Stýrimannafélagi Íslands, Vélstjórafélagi Reykjavíkur, Vélstjórafélagi Akraness og Sjómannafélagi Reykjavíkur. Öll þessi félög fordæma frv. og telja það stórkostlega hættulega árás á stéttina og öryggi sjómanna yfirleitt. Nú er ekki nóg með það, að þessi félög hafi mótmælt frv. út af fyrir sig án þess að rökstyðja mál sitt. Þau hafa sent ýtarlegan rökstuðning á þessum mótmælum og sýnt fram á það með óhrekjandi rökum, hver skaði það yrði, ef þetta yrði að l., og hvílík hætta því fylgir fyrir öryggi sjómannanna. Nú virðist það vera fullkomið gáleysi af hv. þm. að ætla sér að samþ. svona l., sem sú stétt, er stundar þá atvinnu, sem er svo hættuleg, að henni hefir verið líkt við hernað, hefir mótmælt eindregið og óskipt á þeim grundvelli, að þetta muni verða til þess að draga úr öryggi sjómannanna. Það er alveg furðulegt, að þm. skuli telja sér sæma að samþ. slíkt frv. að litt athuguðu máli og án þess að leitað hafi verið atkvæða og samstarfs þeirra, sem hlut eiga að máli, þeirra, sem helzt hafa vit á því, sem hér er um að ræða. Mér finnst það satt að segja nokkuð djarft af hv. þm., sem sjálfir vita það, að þeir eru ekki dómbærir á þetta mál, sem hér liggur fyrir, að hafa þannig að engu öll slík rök, sem fram hafa komið í móti málinn. Ég vildi þess vegna skora á þdm., áður en þeir greiða atkv. um málið, að lesa a. m. k. vandlega öll plögg, sem Alþ. hafa borizt og komið hafa frá samtökum sjómannastéttarinnar. Hv. 3. landsk. hefir haldið hér mjög margar ágætar ræður um þetta mál og skýrt flest aðalatriði þess hér frammi fyrir þessari d. En það ber svo undarlega við, að það er engu líkara en þdm. séu alveg daufir fyrir þessum rökum. Þeir hafa ekki gert neina tilraun til þess að mótmæla þeim, og meðan þeir ekki gera það og geta ekki brundið rökstuddum staðhæfingum stéttarfélaganna, að með þessu máli sé stórkostlega dregið úr öryggi sjómanna, þá er það óforsvaranlegt ábyrgðarleysi að ljá slíku máli fylgi sitt. Ef það er svo, að hér sé ekki farið með rétt mál, ef þessi rök af hálfu sjómannastéttarinnar gegn frv. eru einskis virtar, hvers vegna koma þeir þm., sem fylgja frv., ekki með gild rök á móti? Þetta frv. er árás á eina fjölmennustu og þýðingarmestu stétt landsins, svo að ég noti þau orð, sem standa hér í grg. fyrir þáltill. frá hv. þm. S.-Þ. Frv. af líku tagi sem þetta er í sjálfu sér ekkert einsdæmi hér á þessu þingi. Það hefir sem sé hvert málið rekið annað á þessu þingi, sem eru bein árás á hinar ýmsu greinar verkalýðsstéttarinnar í landinu, og ég tel einmitt, að þetta frv. sé ein allra ósvífnasta og hættulegasta árásin. Þesskonar frv., sem legið hafa fyrir þinginu og verða þau sennilega flest að l., er frv. um breyt. á iðnaðarnámslöggjöfinni og löggjöfinni um stéttarfélög og vinnudeilur, gerðardómsl. í togaradeilunni og frv. um skattfrelsi togaraútgerðarinnar, sem liggur fyrir þingi, og önnur þau frv., sem skaða óbeint almenning í landinu ennþá frekar en orðið er. Hér er um keðju af málum að ræða, sem borin hafa verið fram á Alþ. og eru bein árás á verkalýðsstéttina í landinu. Það, sem er sérstaklega athyglisvert, er það, að um öll þessi mál hefir verið meiri eða minni samvinna milli Framsfl. og Sjálfstfl., og í sumum þeirra hefir líka verið samvinna milli þessara tveggja flokka og þingflokks Alþfl. gegn Kommfl. einum. Það er þess vegna alveg sýnilegt, að hér er um að ræða stórfellda nýja sókn, sem hafin er hér á Alþ. gegn verkalýðnum í landinu. Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er ekki annað en einn hlekkur í þeirri keðju, einn þáttur í þeirri sókn, og það, sem maður veitir sérstaklega athygli. er, að margt af þessum l., sem hér hafa verið borin fram, eru breyt. á löggjöf, sem nýbúið er að setja hér á Alþ., t. d. löggjöfin um iðnaðarnám er breyt. á l., sem sett voru á Alþ., 1936, og þetta frv., sem nú er til umr., er líka breyt. á l., sem sett voru 1936. Hér er verið í fyrsta lagi að hefja sókn til þess að taka aftur þau réttindi, sem alþýðustéttirnar hafa aflað sér á síðustu árum, og ekki nóg með það, heldur er hér, eins og hv. 3. landsk. tók fram hvað þetta frv. snertir, verið að taka þau réttindi af verkalýðnum, sem hann hefir aflað sér fyrir alllöngu síðan. Þannig er það með þá samvinnu, sem ýmsir menn bæði í Framsfl. og Sjálfstfl. hafa óskað eftir, að hún n er komin á milli íhalds- og afturhaldsaflanna í landinu, og hún er þegar byrjuð hér á Alþ. í hverju málinu á fætur öðru. En það er skylt að taka það fram, að það hafa verið ýmsir góðir menn, líka meðal þm. hér á Alþ. í báðum þessum flokkum, sem hafa risið móti þessari árás á lýðréttindi og mannréttindi þau, sem íslenzka þjóðin hefir aflað sér á síðari árum, og þetta hefir orðið til þess, að í meðferð þessara mála hafa þau tekið allmiklum stakkaskiptum, þannig, að dreginn hefir verið úr þeim broddurinn. Það má segja um iðnnámslöggjöfina og líka um þessa löggjöf, að allmiklar bragarbætur hafa verið gerðar á þeim, og ég vona, að það verði gerðar ennþá meiri bragarbætur á þessu frv., svo framarlega sem ekki verður unnt að koma í veg fyrir, að þetta frv. nái afreiðslu á þessu þingi. Þetta, að menn úr öllum flokkum hafa risið gegn þessum frv., kemur heim við reynsluna á öllum öldum, því að ætið hafa risið upp menn, sem hafa gert tilraunir til þess að draga úr sókn afturhaldsins. Það gefur góðar. vonir um, að takast muni að skapa nokkuð breiðan múr til varnar gegn þeirri sókn, sem hafin er af afturhaldinu í landinu móti þeim mannréttindum, sem þjóðin hefir aflað sér á undanförnum árum. Ég ætla ekki að hafa þetta mál lengra að þessu sinni.

Þá fór hv. 3. landsk. fram á það, að því yrði svarað af hæstv. atvmrh., sem hann spurði hann um, hvort hann myndi ekki geta fallizt á, að þessu máli yrði frestað á þessu þingi og samþ. yrði þáltill. á þá leið, að l. um siglingar yrðu endurskoðuð milli þinga og kvaddir til þess sérfróðir menn, sem væru fulltrúar þeirra manna, som hlut eiga að máli. Mér finnst í raun og veru. að þessi málaleitun sé svo sjálfsögð, að það sé næstum alveg óskiljanlegt og erfitt að skýra það, ef ríkisstj. getur ekki orðið við þessum tilmælum. Þess vegna er ég mjög spenntur að fá að heyra svör hæstv. ríkisstj. við fyrirspurn hv. 3. landsk., og vonast til að heyra þau áður en þessari umr. verður lokið.