05.04.1938
Efri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1329 í B-deild Alþingistíðinda. (1975)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Því miður heyrði ég ekki framsöguræðu hv. frsm. meiri hl. En ég býst við, að það sé það sama og fram hefir komið í n. Það er alveg rétt, eins og hann gat um, að ég hefi ekki orðið öðrum nm. samferða í að mæla með frv. Ég hefi að vísu ekki skilað neinu nál., en mun sennilega láta mína afstöðu koma alveg skýrt í ljós fyrir 3. umr., að því viðbættu, sem ég geri grein fyrir henni nú. Það er þá í fyrsta lagi, að ég lít svo á, að þetta frv. sé með öllu óþarft. Það, sem er ætlazt til með þessu frv., er, að útgerðarmenn stofni rekstrarlánafélög. Slíkt er mönnum heimilt nú án lagasetningar. Ég veit ekki betur en að það sé öllum frjálst, sem vilja hafa samtök og slá sér saman í félag, hvort sem það er öflun fjár til útgerðar eða í öðru augnamiði. Ýms ákvæði eru hér í frv., sem ég tel dálítið hæpin. Það er t. d. ætlazt til, að rekstrarlánafélag gangi lengra en að afla nauðsynja til útgerðar, það er einnig gert ráð fyrir, að þeir sömu félagsmenn afli sér til heimilisþarfa matvæla og annars slíks. Vitanlega er út af fyrir sig hverjum manni heimilt að vera í pöntunarfélagi og kaupfélagi, ef hann vill, eða skipta við verzlun einstakra manna. En í frv. er ætlazt til meira. Í 7. gr. er svo ákveðið með þessu frv., og eiginlega lögð skyldukvöð gagnvart innflutnings- og gjaldeyrisn. um, að hún leyfi gjaldeyri fyrir slíkum innkaupum, sem beint myndu lúta að heimilisþörfum manna. Með þessu er stofnað til afarmikils misréttar milli borgara í landinu. Þeir menn, sem eiga ekki rétt á að vera í slíku rekstrarlánafélagi, eiga þá ekki slíkan rétt til að krefjast gjaldeyris til heimilisþarfa samkvæmt þessu frv. Ég álít, að menn, þótt þeir séu í rekstrarlánafélagi, eigi ekki að hafa nein slík sérréttindi fram yfir aðra menn, sem verða að lúta að hvort sem það eru einstaklingsverzlanir, pöntunarfélög eða kaupfélög. Hér er því verið að krefjast réttar fyrir örfáa menn umfram aðra þegna þjóðfélagsins. M. a. af þeim ástæðum get ég ekki fallizt á að lögbjóða þetta, sem í frv. stendur jafnvel þó að þessir menn fáist við útgerð.

Það er hverjum hópi manna sem er heimilt að mynda með sér slíkan félagsskap, þó að ekki sé sett um það lagasetning. En í 1. gr. er svo til ætlazt, eftir orðanna hljóðan, að það sé nánast skylda fyrir menn að gera þetta, því að það stendur í 1. gr. frv., að útvegsmönnum sé rétt að stofna rekstrarlánafélög. Ég býst við, að þetta megi skilja svo, að nánast sé með þessu sett skyldukvöð á menn um að stofna rekstrarlánafélög eða vera með í því, ef útgerðarmenn í einhverju byggðarlagi vilja gangast fyrir slíkri félagsstofnun. Ég álít, að það eigi að vera frjálst, hvort menn vilji bindast samtökum um að afla nauðsynja til sinnar útgerðar og að þar um sé ekki rétt að setja neinar skorður með l.

Ég minnist þess, að þegar þetta mál lá fyrir hv. Nd., þá mun hafa verið um það leitað umsagnar bankanna. Ég hefi þá umsögn ekki hér við hendina. En ég hygg, að sú umsögn bankanna hafi frekar verið neikvæð heldur en jákvæð um frv. Þeir munu hafa litið svo á, að þetta fyrirkomulag, sem í frv. er till. um, væri miður heppilegt gagnvart bönkunum.

Um þær breyt., sem n. vill gera á þessu frv., er lítið að segja. Það er ætlazt til, að í staðinn fyrir 5 menn skuli það vera 10 menn, sem fæstir megi vera í slíku félagi, til þess að það megi stofna. Í frv. eru í því sambandi tilteknir 5 menn. Það skal ég játa, að þetta er nokkuð til að þrengja möguleikann fyrir stofnun slíkra félaga. — Meiri hl. sjútvn. leggur svo til, að niður falli úr á. gr. nokkur orð, sem ekki breyta eiginlega efni gr., og er þetta því fremur veigalítil breyt. En 6. gr. ætlazt meiri hl. n. til, að falli niður.

Ég hefði nú búizt við, að hv. 2. þm. S.-M. mundi ekki geta fallizt á 7. gr. frv., sem ég hefi gert að sérstöku umtalsefni. Mér virðist hún ganga svo langt í þeim efnum að heimta rétt handa ákveðinni stétt manna, að tæplega sé hægt að fylgja henni fram. Má vera, að það komi fram við þessa eða 3. umr. málsins, að menn líti svo á, að hún ætti ekki að standa í l.

Ýmislegt er það fleira í þessu frv., sem ég gæti nefnt, sem ég svona hnýt um. En í öllum aðalatriðum er mín afstaða til frv. sú, að ég tel löggjöf um þetta efni algerlega óþarfa. Ég tel, að menn í útgerðarplássum, ef þeim þykir nauðsynlegt, geti myndað samtök með sér um að afla sinna nauðsynja á ódýrari hátt en e. t. v. hver einstakur getur gert án slíkra samtaka, án þess að sérstök lagasetning sé sett þar um. Þess vegna geri ég ráð fyrir, að við 3. umr. geri ég till. um, að frv. verði fellt, og ég mun rökstyðja það með því að ég tel frv. óþarft.