05.04.1938
Efri deild: 41. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1337 í B-deild Alþingistíðinda. (1978)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Ingvar Pálmason:

Það er ekki af því, að ég ætli að hlaupa í skarðið fyrir hv. þm. Vestm., að ég tek til máls, en það hafa komið fram ýms atriði, sem ég tel rétt að segja nokkur orð um.

Ég vil fyrst víkja að því, að það getur kannske valdið misskilningi, hvernig hv. þm. Vestm. útskýrði brtt. okkar, þar sem við lögðum til, að 6. gr. falli niður. Mér skildist hann halda því fram, að með því að leggja til, að 6. gr. verði felld niður, vildum við útiloka meðlimi þessara félaga frá því að útvega sér lán annarsstaðar heldur en í gegnum félögin, en það vakti a. m. k. ekki fyrir mér, heldur vildi ég láta þetta standa alveg opið, þannig að félögin gætu í sínum samþykktum opnað þetta eða lokað, eftir því sem við ætti á hverjum stað, en ef þetta er sett fast í l. þá verður því ekki breytt, að félögin hafi heimild til þess að binda félagsmenn þeim skilyrðum, að taka ekki lán annarsstaðar. Það getur verið, að það sé ekki rétt að láta slíkt standa í l., en hinsvegar er ekkert við því að segja, ef félögin hafa það í sínum reglum, að félagsmönnum sé heimilt að taka lán annarsstaðar en gegnum félögin.

Það var sérstaklega eitt atriði, sem kom fram hjá hv. 3. landsk., sem ég er algerlega mótfallinn. Hann hélt því fram, – - að smáútvegsmenn hefðu yfirleitt alveg eins góðan aðgang að rekstrarlánum hjá bönkunum eins og aðrir. Hann sagði, að hér í Reykjavík kæmust smáfleyturnar af stað eins og hinar, og þetta kæmi ekkert að sök. Þetta stafar ótvírætt af ókunnugleika hans. Ég get nefnt nærtækt dæmi frá þessari vertíð. Tveir bátar komu hingað suður úr öðrum landsfjórðungi. Þeir reyndu að fá lán til útgerðarinnar, þegar þeir voru heima hjá sér. en fengu ekki svar. Bátarnir voru fyrst fjórir og fóru af stað án þess að fá svar, vegna þess að ef þeir hefðu ekki gert það, hefðu þeir misst af vertiðinni. Eftir að bátarnir komu suður, fengu tveir lán, en tveir ekki. Bátarnir, sem lánið fengu, gátu fengið það hjá verzlunarrekanda, — og hvernig fekk hann það? Í bönkunum. af þessu leiðir, að þessir bátar verða að hafa millilið til þess að geta farið á veiðar á vertíðinni, og sá milliliður gerir þetta vitanlega hagnaðarins vegna, og sá hagnaður er fólgin í því, að mennirnir verða að leggja fiskinn úr sjónum inn til hans. Það sjá allir, að af þessu stafa talsverð óþægindi. Ef þessir fjórir bátar eða fleiri hefðu gengið í félag um rekstrarlán, hefðu þeir allir getað fengið rekstrarlán og skipt þeim á milli sín og borið uppi hver annars lán að meira eða mínna leyti. Mér er kunnugt um, að það er rétt, sem hv. þm. Vestm. hélt fram, að það vildi verða óhæfilegur dráttur á ákvörðun bankanna um rekstrarlán smáútgerðarinnar, svo að af því hlytist oft stórtjón í mörgum fleiri tilfellum en þessu.

Ég skal játa, að þetta frv. er ekki nein allra meina bót, en þó að það ráði kannske ekki bót á örðugleikunum í þessu efni nema að litlu leyti, þá sé ég enga ástæðu til að leggjast á móti því, að það nái fram að ganga, því að ég tel það spor í áttina til þess, að létta undir með smáútveginum, að því er rekstrarlán snertir.

Að endingu vil ég minnast á 7. gr., sem hv. 3. landsk., gerði að umræðuefni. Hann telur, að þarna sé rekstrarlánafélögunum veitt sérstök hlunnindi, sem hljóti að valda geysimiklum misrétti. Hver er sá misréttur? Hann er sá, að þeim er áskilinn réttur hlutfallslega við aðra borgara þjóðfélagsins um gjaldeyris- og innflutningsleyfi, eftir þeim reglum, sem gilda á hverjum tíma. Þetta er ekki alveg ófyrirsynju, því að þetta er allt ný starfsemi, og þess vegna má búast við, að þessum félögum veitist dálítið örðugt að fá gjaldeyris- og innflutningsleyfi, því að þau hafa ekki starfað áður.

Ég held, eins og ég sagði áðan, að það sé alls ekki rétt að fella frv., en ég skyldi taka því með þökkum, ef menn gætu komið með lagfæringu á þessu frv., sem gerði það að verkum, að það næði betur tilgangi sínum, en ég veit, að það getur gert mikið gagn, vegna þeirra erfiðu kringumstæðna, sem við er að etja.

Ég taldi rétt að láta þessi orð fylgja, bæði til þess að leiðrétta það, sem fram kom hjá hv. frsm., og til þess að sýna, að ég er ekki með þessu frv. aðeins til þess að sýnast, heldur er mér það full alvara, að á þessu máli þarf að taka, og ef til vill miklu betur en í þessu frv. er gert.