07.04.1938
Efri deild: 43. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1981)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Frsm. meiri hl. (Jóhann Jósefsson):

Hv. 3. landsk. lagði fram rökstudda dagskrá í þessu máli, en ég verð að segja það, að mér finnst hún vera bein tilraun til að fella frv. Ég vil í þessu sambandi minna á það, að þótt alls ekki sé lagt neitt bann við því, að útgerðarmenn myndi með sér rekstrarlánafélög. sannar það alls ekki, að sú löggjöf sé óþörf, sem hér er stefnt að með þessu frv., vegna þess að í núgildandi l. er ekki heldur til neitt fyrirheit eða fríðindi fyrir þá, sem vildu starfa í félagsskap að þessum málum. En með þessu frv. er stefnt að því að örva menn til svona samvinnu, með því að heita þeim nokkrum fríðindum og gera aðstöðu þeirra sterkari með hjálp löggjafarinnar. Ég þarf ekki að telja það upp, því að ég gat þess við 2. umr. málsins, að hverju þessi löggjöf stefnir, enda ber frv. þess menjar. Hinsvegar vildi ég þó, að hv. 3. landsk. væri ekki við þessa umr. málsins að klifa á því að nýju, vegna þess að það kom svo oft fram við 2. umr. málsins, að ég er ekki sammála skoðun hans. Hann álitur, að með þessu frv. sé beitt nokkurri þvingun við útgerðarmenn, því að þeir væru skyldaðir til að ganga í svona félagsskap. Hv. 3. landsk. heldur því fram, að samkv. 1. gr. frv. sé útgerðarmönnum skylt að ganga í þessi félög, en það er mesti misskilningur. Þeir eru alls ekki skyldaðir til þess, eins og orðalagið ber með sér, heldur er stutt að því, bæði með 1. og 2. og öllum gr. frv., að gera það aðgengilegt fyrir útgerðarmenn að taka höndum saman um þessi efni. Ég stend ekki einn uppi með þá skoðun, að þörf sé að styrkja aðstöðu smáútgerðarmanna, bæði með vöruinnkaup og útvegun veiðarfæra. Hv. 3. landsk. svaraði fáu við 2. umr. frv., þegar hv. 2. þm. S.-M. hélt ræðu, sem staðfesti flest af því, sem ég hafði sagt um þetta mál, og benti í höfuðatriðum á það, að í því sjávarþorpi, þar sem hann á heima, sé samskonar reynsla í þessum efnum sem í Vestmannaeyjum, hvað snertir örðugleika útgerðarmanna að afla sér rekstrarfjár í tæka tíð. Hv. 3. landsk. heyrði ekki ræðu hv. 2. þm. S.- M.

Að lokum vil ég geta þess, án þess að fjölyrða meira um þetta frv., að það er rétt, sem hv. 2. þm. S.-M. tók fram, að ég hefði ekki .að öllu leyti skýrt rétt eina gr. í þessu frv. Það var sú gr., sem á að fella úr frv. Skilningur hv. 2. þm. S.-M. á þeirri gr. var réttur, en ég skildi hana rangt. Ég hefi áður sagt það — og ég býst ekki við, að sú skoðun mín breytist — að afstaða hv. 3. landsk. mun að minni hyggju mest byggjast á því, að honum er með öllu ókunnugt um kjör smáútvegsmanna víðsvegar um landið. Þess vegna á hann erfitt með að skilja það, að þessi löggjöf gæti orðið þeim að gagni.