07.05.1938
Neðri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1345 í B-deild Alþingistíðinda. (1995)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Hæstv. atvmrh. er orðinn nokkuð nýjungagjarn. Honum finnst undur, að ég skuli bjóða honum að koma ekki með neitt nýtt fyrir hann að brjóta heilann um, og segist hann munu verða sömu skoðunar og áður, að þessi löggjöf sé óþörf, af því að ég hafi þar ekki komið með neitt nýtt því til stuðnings.

Ég veit að vísu ekki, hve hæstv. ráðh. hefir verið mikið við smábátaútgerð, en það er a. m. k. nýjung fyrir mig, að hann skuli eiga að vita betur um þessi mál en útvegsmenn sjálfir. Fjöldi smáútgerðarmanna um land allt hafa beiðzt löggjafar um rekstrarlánafélög í svipuðu formi og þetta frv. er. En nú kemur hæstv. ráðh. og segist vita betur en þeir sjálfir. Hvaða ósköp hlýtur hann að hafa brotið heilann um þetta, fyrst hann þykist hafa úrlausn þessa alls tilbúna með kaupfélagsskap! Auðvitað má skilja þetta svo, að hann sé hræddur um að rekstrarlánafélögin kunni að draga úr viðskiptunum við kaupfélögin, en það er ekki hægt að gera við því, ef rás viðburðanna fer í þá átt, að smáútvegsmönnum er annað haganlegra en að láta kaupfélagsstjórann á Hvammstanga eða hvar sem er sjá um sölu afla sins. Ef þessum mönnum þykir haganlegra að snúa sér til kaupfélaganna, þá geta þeir það eins eftir sem áður, þótt þessi löggjöf verði sett. Á fyrirkomulag félaganna er minnzt bæði í 3. og 5. gr. frv., og álít ég ekki, að þau ákvæði séu því til fyrirstöðu, að tekið væri upp haganlegt fyrirkomulag á þessum félögum í alla staði, t. d. að mennirnir réðu því sjálfir, hvort þeir vildu hafa ótakmarkaða ábyrgð eða að ábyrgð hvers einstaks væri bundin við vissa upphæð. Í smá þorpum, þar sem hver þekkir annan og eru e. t. v. 5 eða 6 smáútgerðarmenn, þá getur vel verið, af því að þeir hafi nægan kunnugleika hver á annars högum og á skapgerð, að þeir áliti það áhættulaust og baganlegt að hafa sameiginlega ábyrgð á lánunum, en þar sem stærri bæir eiga í hlut, er líklegra, að misjafnari menn séu innan um, og þá kann mönnum að þykja haganlegra og ráðlegra, — og það hygg ég að sé algengast — að binda ábyrgð hvers félagsmanns við einhverja vissa upphæð. Skil ég ekki í því, að nokkur fari að mæla gegn því að leyfa mönnunum að velja um þetta og haga því eftir staðháttum, og bezt, að hver segi til fyrir sig, hvernig hagar staðháttum hjá honum. Hér er ekki verið að biðja um nein l. önnur en þau, sem þeir sjálfir, er reka þessa útgerð, hafa beðið um.

Ég held, að ekki sé ástæða fyrir mig að tala meira um þetta. Þetta mál hefir áður verið rætt á mörgum þingum og hefir ekki mótbyr valdið því, að það hefir ekki gengið í gegn, heldur hefir það dagað uppi í n. þar til nú, að það er komið á þann rekspöl, að hv. Ed. hefir afgr. það ágreiningslaust, en ýms atriði þess hafa auðvitað breytzt frá því það birtist fyrst á þingi.

Eins og ég hefi áður tekið fram, tel ég sjálfsagt, að menn afgr. þetta mál hver eftir sinni hyggju. Ef menn koma með einhverjar brtt., sem mér finnst vera til bóta, hefi ég ekki þá þverúð í þessu máli, að mér komi til hugar að standa á móti þeim.