07.05.1938
Neðri deild: 67. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1349 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

28. mál, rekstrarlánafélög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti! Það er vafalaust nauðsynlegt að setja löggjöf til að tryggja betri afkomu smáúfgerðarinnar, sérstaklega til að tryggja hinum smærri útgerðarmönnum meiri rétt í sambandi við lánskjör. En eins og frv. er úr garði gert, er það til litilla bóta. Ég tel, að út af fyrir sig sé það spor í rétta átt, að með lagasetningu sé ýtt undir smáútvegsmenn til að útvega sér lán, og eins og tekið er fram í 10. gr., að ríkisstj. aðstoði þá. En meira að segja í þessari gr. er líka varnagli, sem gerir þetta tiltölulega þýðingarlítið, eins og hv. þm. hafa sjálfsagt tekið eftir. Í gr. stendur, þegar talað er um, að ríkisstj. skuli veita aðstoð: „eftir því, sem tryggingar standa til“. Þarna er ekki verið að skylda ríkisstj. til mikils, því að tryggingar munu sannarlega ekki vera miklar hjá smáútvegsmönnum, sem þeir geta boðið ríkisstj. En það, sem ég sérstaklega vildi gera að umtalsefni, er m. a. það, sem gert er ráð fyrir í 2. gr., að þessi félög geti haft með höndum sameiginleg innkaup á nauðsynjum félagsmanna til útgerðar og heimilisþarfa og sölu á afurðum þeirra. — Við vitum, að það hefir sífellt verið að aukast hér á landi að útvegsmenn myndi samtök sín á milli bæði um innkaup og sölu á afurðum sínum; ennfremur hafa að nokkru leyti verið sett l. um einn sérstakan þátt af þessari samvinnu, sem sé S. Í. F.

Mér virðist, að einn aðaltilgangur frv. sé sá, að úfvegsmenn komist að einhverju leyti undir samvinnulögin, því að í 8. gr. frv. er það sérstaklega tekið fram, að þessi rekstrarlánafélög greiði skatta til ríkis og bæjar og sveitarsjóða eftir sömu reglum og samvinnufélög.

En það er eitt atriði, sem a. m. k. alstaðar, þar sem ég þekki til, er gerólíkt, hvað snertir þessi samlög, sem útvegsmenn mynda, og þau, sem bændur og verkamenn hafa sín á milli, og það er viðvíkjandi atkvæðisréttinum í þessum samlögum. Það virðist vera meginreglan í þessum samlögum útvegsmanna, að láta atkvæðisréttinn fara eftir skippundum eða tonnum af fiski, og í lýsissamlögunum eftir tunnufjölda félagsmanna. Þetta er þveröfug regla við það, sem yfirleitt tíðkast í sambandi við samvinnuhreyfinguna og samvinnufélögin. — Nú finnst mér það ekki ná nokkurri átt, að það sé verið að mynda félög, sem eigi að einhverju leyti að njóta þeirra réttinda, sem samvinnufélögin hafa, en uppfylli ekki þær skyldur, sem lagðar eru á herðar samvinnufélögunum. Með því móti er í raun og veru verið að eyðileggja samvinnuhreyfinguna. Ég álít því nauðsynlegt, að þessum félögum, sem þannig fá ýmiskonar réttindi í samræmi við það, sem samvinnufélögin hafa, sé fyrir skipað að fylgja reglum þeirra um atkvæðisréttinn.

Nú hefi ég ekki séð, að það væri neitt ákvæði í frv. um það, hvernig þessum rekstrarlánafélögum sé stjórnað. Það stendur í 3. gr., að félagsmenn megi vera fæstir 10, en flestir 30. En það eru engin ákvæði um það, hvort þessi félög séu eiginlega opin fyrir öllum, eða hvort þeir, sem fyrstir verði til að stofna félögin, geti síðar lokað þeim. Ef svo væri, þá gætu þeir, sem efnaðri væru, útilokað þá, sem mínna mættu sín.

Ég álít nauðsynlegt, að þessi félög séu sem mest opin, þó að það verði náttúrlega að vera með einhverjum takmörkunum, því að það verður að ganga út frá því, að þetta sé almenn hreyfing meðal útgerðarmanna, sem miði að því að bæta þeirra kjör í heild, en að þetta sé ekki fyrir nokkra menn, sem geti útilokað að meira eða minna leyti þá, sem minna megi sín. Þetta finnst mér koma óljóst fram í sambandi við þetta frv. og vildi gjarnan fá nánari upplýsingar viðvíkjandi þessu frá nm., sem munn hafa athugað þetta, því að flm. eru í Ed.

Ég álit sem sagt, að aðaltilgangur frv. sé í raun og veru góður, að það sé nauðsynlegt, að smáútvegsmenn fái betri aðstöðu en þeir hafa hafi viðvíkjandi því, að geta útvegað sér rekstrarlán. Við vitum, að lánsfé er sérstaklega dýrt hér á landi, og væri þess vegna mjög heppilegt, ef frjáls samtök meðal útvegsmanna gætu einhverju áorkað í því að knýja fram betri lánskjör. Ennfremur er annað, sem hefir verið mjög slæmt fyrir smáútvegsmenn, og það er, hversu erfitt hefir verið að fá svör hjá bönkunum um það. hvort þeir fengju lán eða ekki. Það eru dæmi til þess. að smáútvegsmenn utan af landi, sem kosta sig hingað til Reykjavíkur til þess að reyna að semja við bankana, þurfi að bíða vikum saman til þess að fá nokkur svör. Það hefir komið fyrir, að smáútvegsmenn hafa ekki getað sett á stað sinn rekstur vegna þess, hve lengi hefir dregizt, að þeir fengju svör hjá bönkunum, og ef þetta yrði til þess að gera þeirra afgreiðslu betri, þá væri það þó nokkur bót í máli fyrir þá.

Hinsvegar vildi ég sérstaklega vekja eftirtekt á því, að í 2. gr. er gengið út frá því, að þetta geti orðið meira en rekstrarlánafélög, því að þar er gert ráð fyrir, að þessi félög geti einnig haft með höndum sameiginleg innkaup á nauðsynjum manna til heimilisþarfa, og þá er ekki ólíklegt, að þetta rekstrarfé yrði líka notað í sambandi við þessi innkaup. Við þessu er ekki nema gott að segja, en ef svo færi, eins og frv. gerir ráð fyrir, að í einu stóru sjávarþorpi slægju útgerðarmenn sér saman og mynduðu félag, sem útvegaði rekstrarlán, keypti inn vörur og seldi afurðir þeirra, þá ætti það að vera tryggt, að í slíku félagi, sem ætti að njóta sömu réttinda og samvinnufélögin, væri atkvæðisrétturinn þannig, að hver maður hefði eitt atkv., en að atkvæðisrétturinn færi ekki eftir því, hversu mörgum skippundum, tonnum eða tunnum af lýsi hver félagsmaður hefði yfir að ráða.

Viðvíkjandi þeirri brtt., sem fram hefir komið frá hv. þm. Barð., vil ég segja það, að ég álit, að það sé fjarri lagi að fella 10. gr. burt; eins og gr. er orðuð, get ég ekki betur séð en að það séu allmikið takmarkaðar þær skyldur, sem ríkisstj. eru lagðar á herðar, þar sem hún þarf ekki að veita þetta, nema „eftir því sem tryggingar standa til“, og þá veit maður, að þetta þýðir, að ríkisstj. geti skotið sér undan þessu, ef henni býður svo við að horfa. Þetta er aðeins siðferðisleg skylda fyrir ríkisstj. Ég mun þess vegna vera á móti þessari brtt., því að ég gæti trúað, að frv. næði nógu skammt, þó að þetta væri með.