11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1354 í B-deild Alþingistíðinda. (2013)

28. mál, rekstrarlánafélög

Pétur Ottesen:

Það haggar engu hjá mér, þó að hv. 6. þm. Reykv. hafi að einhverju leyti gengið til móts við hv. þm. Barð. að því er það snertir, að það hefði litla þýðingu, að þessi félagsskapur væri m. a. notaður til þess að afla nauðsynja til heimilisþarfa fyrir hlutaðeigandi menn. Það er vitað, að á afskekktum svæðum hér á landi er útgerðin rekin þannig, að allir eru þátttakendur í henni, því að það er yfirleitt höfuðreglan, að því er mótorbátaútgerð okkar snertir, að menn róa upp á hlut, og þó að það væri ekki nema útgerðarmaður eða útgerðarmenu hvers báts — því að þeir geta verið margir um einn bát — sem gengju í þennan félagsskap, þá yrði það vafalaust ekki brot á ákvæðum þessa frv., þó að aflað yrði heimilisnauðsynja handa þeim mönnum, sem á bátunum eru, og þeir fengju þannig á hagkvæmari hátt sínar heimilisnauðsynjar; bæði yrðu vörurnar ódýrari og flutningskostnaðurinn á vörunum minni. Þess vegna er engin ástæða fyrir hv. 6. þm. Reykv. að vera að reyna að breiða yfir það með hv. þm. Barð., að hér er verið að rýra gildi frv. í þessu efni.

Aðalatriðið í þessu sambandi er, að hér er verið að þrengja aðgang manna til gjaldeyrisnota og gera að engu þann stuðning fyrir þennan félagsskap, sem felst í því, að bankarnir geta ekki borið það fyrir sig, að þeir hafi ekki fé til að lána þeim mönnum, sem í þessum félögum eru, því að samkvæmt frv. geta þessir aðiljar snúið sér til ríkisstj. og er henni þá skylt, ef þetta ákvæði í 10. gr. stendur óbreytt, að skerast í leikinn og hlutast til um við bankana, að þessir aðiljar fengju þar lán ekki síður en aðrir eftir því sem ábyrgðir þeirra stæðu til. En með ákvæði 3. brtt. hv. þm. Barð. er þetta alveg að engu orðið og það nær vitanlega engri átt, sem hv. þm. sagði áðan, að með þessu ákvæði frv. væri verið að gefa bönkunum undir fótinn með að segja, að þeir hefðu ekki lánsfé handa þessum félögum, og vísa svo til ríkisstj. í því efni.

Ég álít því, að þessi brtt. sé frv. til stórtjóns, ef hún verður samþ.