11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1355 í B-deild Alþingistíðinda. (2014)

28. mál, rekstrarlánafélög

*Bergur Jónsson:

Ég vil bara enn á ný benda hv. þm. Borgf. á það, sem ég sagði áðan, að það er í fullu samræmi við frv. sjálft, að þau ákvæði frv., sem gilda um gjaldeyrisleyfi, séu eingöngu miðuð við útgerðarvörur til þeirrar starfsemi, sem þessi félög eiga að reka. Aðrir menn á þessum stöðum, og auðvitað útvegsmenn líka, geta gengið í allskonar verzlunarfélagsskap, t. d. samvinnufélagsskap, til þess að skapa sér þennan sama rétt til þess að fá nauðsynjar til heimila sinna. Það er fullkomlega séð fyrir því með öðrum lögum, sem hv. þm. er kunnugt um.

Ég sé, að það er rétt, sem ég sagði, að hv. 6. þm. Reykv. hefir fullkomlega skilið þær ástæður, sem vaka fyrir mér í þessu efni, enda þótt okkur greini á um bað, hvort rétt sé að leggja eins mikla áherzlu eins og ég geri á það, að með 10. gr. frv., eins og hún er nú, sé bönkunum beinlinís gefið undir fótinn með að látast ekkert reiðufé hafa til þess að veita þessum félögum lán. Það má búast við, að svo framarlega sem bönkunum væri lítið um að lána þessum félögum, þá mundu þeir alltaf grípa til þess úrræðis, að reka menn til ríkisstj. og láta heimta af henni, að hún gangist í að útvega þeim lánsfé, og samkv. frv. er ríkisstj. á engan hátt veitt meira vald heldur en hún hefir að lögum til þess að fá bankana til að veita félagsmönnum lán, en er lögð sú skylda á herðar, að útvega lánsfé. Hvers vegna ekki að heimta almennt af ríkisstj. að útvega lánsfé til útvegsins, hvort sem um rekstrarlánafélög eða einstaklinga er að ræða eða til annara félaga?