09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1363 í B-deild Alþingistíðinda. (2027)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Emil Jónsson:

Ég skal ekki lengja þessar umræður mikið, því að sízt vil ég tefja eða leggja stein í götu þessa máls á neinn hátt, en mér þykir rétt nú þegar við 1. umr. að segja nokkur orð um það frá sjónarmiði okkar alþýðuflokksmanna. Því hefir verið haldið fram opinberlega í blöðum af andstæðingum Alþfl., að hann væri á móti málinu, og einstakir menn innan hans sérstaklega. Ég vil nota tækifærið til þess að bera þetta til baka og skýra frá því, að flokkurinn vill allt gera, sem í hans valdi stendur, til þess að hrinda málinu í framkvæmd, og það sem fljótast. Hinu hefir hinsvegar verið haldið fram af Alþfl., að það væri ýmislegt í meðferð málsins og undirbúningi þess, sem hefði mátt öðru vísi og betur fara, og það er það, sem hefir verið notað til þess að segja, að við værum á móti málinu almennt, þó að það sé alveg öfugmæli.

Ég skal geta þess, að fyrst þegar þetta mál kom fram, 1926, þegar því var hreyft af Jóni heitnum Þorlákssyni, þá taldi hann þrjá staði koma til greina, þar sem möguleikar mundu vera fyrir hendi til þess að afla þessa heita vatns. Einn staðurinn var Reykir í Mosfellssveit, annar staðurinn Hengillinn og sá þriðji Reykjanes, án þess að nánar væri tiltekið hvar. Þessir staðir hafa nú verið aðgengilegir í öll þau 12 ár, sem liðin eru síðan, til athugunar og rannsóknar, án þess að mér vitanlega hafi verið farið út í að rannsaka nema aðeins einn þeirra, Reyki í Mosfellssveit, og með þeim árangri eins og hv. 4. þm. Reykv. lýsti áðan, að enn er ekki fengið nóg vatn til þess að hita upp Reykjavíkurbæ, en — bætti hann við — það er ekkert, sem bendir til þess, að ekki muni fást þar nóg vatn í framtíðinni. Það hafa þegar fengizt um 170 1/sek., en það er ekki nægilegt, því að með vexti bæjarins eykst það vatnsmagn, sem þarf til þess að hita upp bæinn, svo að sá árlegi vöxtur á vatnsmagninu verður að vera meiri en tilsvarandi vöxtur bæjarins.

Nú verður að skera úr því mjög fljótlega, hvort þessi staður skuli notaður, enda hefir, að því er mér virðist, að nokkru leyti verið úr því skorið með því, hvernig rannsókninni hefir verið hagað. Ég fyrir mitt leyti segi það sem mína skoðun og hef sagt það áður, að ég álít ekki rétt, að þeir aðir aðrir, sem talað hefir verið um, að gætu komið til mála í þessu sambandi, skuli ekki hafa verið athugaðir betur heldur en gert hefir verið. Sérstaklega er ég alveg viss um, að á einum staðnum, Krísuvík á Reykjanesi, er svo miklu meira hitamagn heldur en á Reykjum — maður sér það á yfirborðinu —, að það réttlætir fullkomlega., að athugun sé gerð á þeim stað, þó að hann liggi 16 km. lengra frá Reykjavík heldur en Reykir.

Ég vil benda á, að þessar mismunandi skoðanir á einstökum atriðum í sambandi við þetta eru allt annað heldur en að vera á móti málinu sem slíku. Ég veit ekki betur en ríkið eigi bor, sem sé í fullu standi til þess að vera notaður við boranirnar, svo að vel væri hægt að herða á rannsóknunum miklu betur en gert hefir verið.

Um fjármálahlið þessa fyrirtækis hafa hæstv. fjmrh. og hv. 1. þm. Rang. farið nokkrum orðum, svo að ég hefi þar litlu við að bæta öðru en því, að Alþfl. hefir ekki tekið ákvörðun um, hvort hann fylgir því að miða ábyrgðina við 80% af lánsfénu eða meira. Um það hafa engir samningar verið gerðir milli flokka. En ég get vel fallizt á, að það sé rétt, að þeir, sem eiga að njóta hitaveitunnar, láni að einhverju leyti féð til hennar, úr því að fyrirtæki úti um land eru látin sæta þeim sömu kjörum.

Það eru ýmis fleiri ákvæði í frv., þótt ekki sé langt. sem ástæða væri til að ræða, en ég get frestað því til 2. umr. málsins.

Alþfl. hallast að því, að ábyrgðin verði veitt í þessu formi, sem fyrir liggur, þó með því tilskildu, að ráðuneytið fylgist með lántökunni og því, að tryggt sé, að hún takist með sem beztum kostum.