09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1364 í B-deild Alþingistíðinda. (2028)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

Einar Olgeirsson:

Það mun ekki fara milli mála, að hitaveitan sé eitthvert mesta velferðarmál Reykjavíkur. Við kommúnistar höfum alltaf, síðan við komum í bæjarstjórn, staðið með því. Tillaga um að veita ríkisábyrgð fyrir láninu er réttmæt. Það hefði aðeins verið heppilegra, að hún hefði komið fyrr og sjálfstæðismenn í bæjarstjórn ekki verið svona lengi með sitt brauk á eigin spýtur. Það skiptir miklu, að verkið geti byrjað sem fyrst. Það væri eitthvert mesta slys, ef ekki yrði búið að koma upp þessari hitaveitu, áður en næsta stríð skylli á. Í þeim kringumstæðum gæti hún orðið öllu landinu að gagni. Því minni kol sem Reykjavík þarf þá, því hægara verður að sjá öðrum landshlutum fyrir kolum.

Við kommúnistar styðjum þetta mál, því að það er mál allrar þjóðarinnar.