09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1367 í B-deild Alþingistíðinda. (2031)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

Ólafur Thors:

Ég verð að viðurkenna, að það er engin goðgá, þótt hv. 1. þm. Rang., sem er formaður fjhn., óski eftir vissum upplýsingum um annað eins stórmál og þetta, áður en það fer til n. En það er óviðfelldið, að hann skuli með þessum fyrirspurnum ljósta því upp, að hann hefir ekki eingöngu vanrækt að lesa þetta frv., heldur einnig það frv., sem er á þskj. 344, sem hæstv. fjmrh. flutti og þessi hv. þm. hefir gefið út nál. um. Þessi hv. þm. er að gera sig tvíbreiðan og spyrja um það með rembingi, hvort nú sé svo komið, að vonlausl sé, að Reykjavíkurbær geti fengið lán, en ríkið geti aftur á móti fengið það. Hefir þessi hv. þm. ekki lesið frv.? Er það ekki um það, að Reykjavík taki lánið? Og svo að ég víki að hinu, sem var og þungskilið fyrir hans skarpa heila. Hann er alltaf að breiða sig yfir það, hvað fáránleg rök það séu í grg. frv., að vitna til þess, að nú sé komið fram frv. um erlenda lántöku, sem geti skipt máli í sambandi við lántökuna til hitaveitunnar. Það er auðséð á málflutningi hans, að hann hefir a. m. k. ekki lesið grg. frv. Hann staðhæfir, að því minni ástæða sé til að biðja um lán til hitaveitunnar sem nú sé komið fram frv. um lántöku og í því standi, að nota eigi lánsféð til að greiða skuldir ríkis, banka og bæjarfélaga. Ég vil nú fræða þennan hv. formann fjhn. um það, að lántakan er ætluð til greiðslu á skuldum ríkissjóðs, banka, bæjarstjórna, sveitarfélaga og þeim öðrum skuldum, sem ríkið er í ábyrgð fyrir, en því aðeins að ríkið sé í ábyrgð fyri: þeim. Það er því fullkomin ástæða til, með hliðsjón af þessu frv., að bera fram það frv., sem hér liggur fyrir. Með frv. hæstv. fjmrh. er beinlínís tryggður forgangur um afborganir og greiðslur vaxta af skuldum, sem ríkið er í eða stendur í ábyrgð fyrir. Allt þetta skyldi ég hafa sagt þessum hv. þm. við meðferð málsins í n., ef hann hefði haft þolinmæði til að bíða eftir því, en hann réð því miður ekki við tilhneigingar sínar í því. — Mér þykir rétt að benda hv. þm. á, hvar þessi setning stendur. Hún er í grg. fyrir frv. hæstv. fjmrh. á þskj. 344, í byrjun neðstu málsgr. á bls. 2, og hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkvæmt því, sem að framan greinir. nema afborganir af lánum ríkissjóðs, lánsstofnana, bæjar- og sveitarfélaga og annara, sem hafa ríkisábyrgð. um 3,3 millj. kr. af heildarupphæð árlegra afborgana.“

Síðan segir, að þessar afborganir eigi að inna af hendi með þessari nýju lántöku. — Annars veit hv. þm. vel, að nú mæðir mjög á okkur vegna gjaldeyrisskorts. og hann veit líka, að erlendum lánardrottnum þykir betra, að slík lán, sem hér um ræðir, hafi þennan forgang. Og úr því að fram er komið frv. um ríkisábyrgð fyrir slíku láni, þá liggur í augum uppi, að það spillir fyrir lántökunni, ef Alþingi neitar um slíka ábyrgð, og það eru þeir einir, sem spilla vilja fyrir þessu máli, sem gera tilraun til að koma í veg fyrir, að slík ábyrgð fáist, einkum eftir að frv. hæstv. fjmrh. er komið fram.

Ég sé ekki ástæðu til að fara að ræða við aðra hv. þm. um þetta mál nú, eins og um það. hvort ábyrgðin eigi að vera upp á 80 eða 100%. Það verður athugað í n., og eins þau atriði, sem hv. 7. landsk. gat um. Það eru eiginlega atriði, sem snerta sjálft málið, og eru eðlilega skiptar skoðanir um.

Svo vil ég að lokum segja, að mér er gleðiefni, að hv. 1. þm. Rang. skuli skilja svo vel óþreyju fólksins, sem sé svo lengi búið að biða eftir uppfyllingu vona sinna, og sannast sagna veit ég, að það er alveg rétt. En það er þó kannske minni ástæða fyrir þá til að vera óþreyjufullir heldur en t. d. flokksmenn hans marga, sem síðan 1931 hafa verið að bíða eftir því, að lækkaðir yrðu á þeim skattar og atvinnan aukin í landinu, og ýmsum öðrum loforðum, sem hann og hans flokksmenn gáfu, en hafa ekki verið efnd enn, því miður.