09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1371 í B-deild Alþingistíðinda. (2033)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Sveinbjörn Högnason:

Þess gerist ekki þörf að fara ýtarlega í þetta atriði, enda hefi ég ekki tíma til þess, þar sem líka hæstv. fjmrh. hefir svo rækilega rekið hv. þm. G.-K. á rassinn með þær blekkingar, sem hann hafði hér í frammi. Ég vona, að þessi orð hneyksli ekki hv. þm. G.-K., því að hann er ekki svo þinglegur, hvort sem hann situr, stendur eða talar. — Þar sem hann minntist á, að ég hefði ekki lesið frv., þá kemur það greinilega í ljós, að þótt hv. þm. hafi lesið frv., þá hefir hann ekki skilið það. Eftir þær upplýsingar, sem hæstv. fjmrh. gaf, þá sýndi það sig greinilega, að þótt hv. þm. hafi reynt að fara yfir frv., þá hefir það hent hann, að hann hefir ekki skilið það. Þar sem hann nú hefir fengið þá fræðslu, sem nauðsynleg er hverjum meðalmanni til þess að komast að raun um hið rétta, þá vona ég, að hann deili ekki um það lengur.

Annars þykir mér það hálfleiðinlegt, og það sýnir, að samvizkan er ekki í bezta lagi hjá hv. flm., að hann skuli vera flúinn, a. m. k. sé ég hann hvergi nálægan. Það er einkennilegt, að þegar hv. flm. þessa frv. er beðinn um upplýsingar, þá skuli hann sjá sér það hentugra að hverfa á brott. En mig undrar það ekki eftir þeirri framkomu, sem á undan er gengin. Hv. þm. G.-K. taldi, að ég hefði verið hér með rembing. Ég vil bera það undir hv. d., hvort ég hafi ekki talað hógværlega í sambandi við þær fyrirspurnir, sem ég beindi til hv. fim. Ég hefði talið það vera til bóta, ef upplýst hefði verið betur um ýms atriði. Annars held ég, að það sitji sízt á sjálfstæðismönnum að vera að tala um rembing í þessu máli. Ef það er nokkuð til, sem kalla má uppblástur og rembing, þá er það framkoma sjálfstæðismanna í meðferð þessa máls. Það er vafalaust sú hneykslanlegasta meðferð, sem höfð hefir verið á nokkru máli, hvernig Sjálfstfl. notaði það í bæjarstjórnarkosningunum í velur. Ég hefi lesið nokkur ummæli, sem blöð þeirra voru þá með, þar sem þeir töldu sig ekki þurfa aðstoðar neinna við. Þar var líka sagt, að þetta verk myndi ekki komast í framkvæmd, nema Sjálfstfl. tæki það á sínar herðar. Og þá var það, að hv. flm. þessa frv., borgarstjórinn í Rvík, laumaðist af landi burt, án þess að láta alla bæjarstjórnina vita, hvað hann væri að gera, alveg eins og hann laumast út úr d. nú, þegar verið er að ræða þetta mál, sem hann flytur. Það var fullyrt, að lánið væri fengið. og hv. þm. G.-R. sagði, þegar til var svo vantrúuð sál, að draga þetta í efa, að Pétur Halldórsson hefði sagt þetta og það væri óhætt að treysta því, sem hann segði. Það hefir nú sýnt sig, hvað hægt var að treysta þessu. Reykjavíkurbúar eru a. m. k. ekki farnir að sjá, að hægt hafi verið að treysta þessum orðum. Mig undrar það því ekki, þótt hv. flm., borgarstjóranum í Rvík, þyki það nokkuð þung spor að koma með þetta hingað og biðja aðra flokka um að hjálpa sér til að koma þessu í framkvæmd. Það er leiðinlegt, að hann skuli hafa svo mikla blygðunartilfinning, að hann skuli ekki treysta sér til að hlusta á réttmætar aðfinnslur, sem fram hafa komið um meðferð þessa máls að undanförnu.

Annars virðist mér, að hér sé um svipaðar framkvæmdir í bæjarmálum Rvíkur að ræða eins og oft hafa átt sér stað áður, að farin er vitlaus leið. Vitanlega hefði hitaveitan átt að koma á undan rafmagnsveitunni. En það var farin öfug leið, þar sem rafmagnsveitan var komin áður, sem ekki er hálfnotuð. Svo á að bæta það upp með hitaveitu á næstu árum og fá til hennar milljóna króna lán. Það er sama aðferðin og jafnan hefir verið viðhöfð bjá þeim, sem farið hefir með stjórn bæjarmálefna Rvíkur. Fyrst var ráðizt í gasstöðina, í stað þess að byrja strax á rafveitu, síðan í Elliðaárstöðina og loks í Sogsstöðina. Það er því ekkert að undra þótt þeir, sem staðið hafa fyrir málefnum Rvíkur upp á síðkastið og notað hafa mestar blekkingar, séu fyrstir til þess að flýja af hólmi. þegar rætt er um þetta og einhver leyfir sér að benda á aðstöðu Sjálfstfl. til þessa máls hingað til.

Um það atriði, sem nú hefir nokkuð verið rætt, að frv. um gjaldeyrislánið sé ástæðan til þess, að beðið er um ríkisábyrgð, þá er því til að svara, að það kom ekki fram fyrr en á síðustu stundu. Ég veit ekki betur en að þegar borgarstjórinn kom heim úr siglingunni og var búinn að fá nei alstaðar, að þá hafi það ekki verið til fyrirstöðu. Þegar sagt var frá því í Morgunblaðinu þá. að lánið myndi ekki fást, þá var talað um að leita heimildar fyrir Rvíkurbæ, til að fá lán innanlands. Það er óviðkunnanlegt, að Sjálfstfl., sem búinn er að vera með slíkan rembing og gífuryrði í þessu máli, skuli ekki nú, þegar bersýnilegt er, að hann þarf á stuðningi annara að halda og getur ekki gert þetta einsamall, kannast við þær raunverulegu ástæður, sem fyrir liggja. Það er óþolandi, enda ósamboðið hverjum manni, sem fer með einhverja ábyrgð fyrir aðra.