09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1372 í B-deild Alþingistíðinda. (2034)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Ólafur Thors:

Ég vil ekki, og þá einkum vegna ræðu hæstv. fjmrh., fara út í þær hörðu deilur út af þessu máli, sem fyllsta tilefni væri til þess að gera, ef maður tæki alvarlega ræðuhöld hv. 1. þm. Rang. Hann lét í ljós undrun sina út af því, að hv. frsm. málsins hefði flúið úr umr., eins og hann orðaði það. Ég hélt nú, að hann ætti því að venjast, að samherjar hans og andstæðingar færu út úr d., þegar hann talaði. Mönnum leiðist svo þetta japl í honum.

Það er rétt, sem hér hefir verið sagt, að bæði blöð sjálfstæðismanna og ýmsir af málsvörum flokksins höfðu í opinberum umræðum talið, að þetta lán væri fengið, og mér er engin leynd á því, að ég var meðal þeirra, sem töldu, að lánið væri fengið. Það lágu fyrir skýlaus og óyggjandi loforð um það, að lánið fengist án ríkisábyrgðar. Þessi fyrirætlun hefir nú verið stöðvuð, þar sem lánið hefir ekki fengizt í Englandi, þar sem þetta loforð hafði verið gefið. Hvaða ástæður liggja fyrir því, skal ég ekki fara út í að ræða. Það hefir sumpart verið sagt frá þeim ástæðum í flokksblaði hv. 1. þm. Rang. í grein eftir sjálfan formann flokksins, 20. apríl síðastl. Ég skal svo ekki fara lengra út í það. Hitt stendur óhaggað, að þetta loforð lá fyrir, annarsvegar, og að þessu loforði hefir verið riftað hinsvegar.

Af því leiðir þó ekki, að vonlaust sé um að fá lán án ríkisábyrgðar. Það var rangt. sem hv. þm. sagði, að þegar borgarstjórinn kom heim úr för sinni, þá hafi hann komið með tvær hendur tómar. Það stóðu og það standa enn talsvert miklar vonir til þess að fá lán án ríkisábyrgðar. En að samt er beðið um ríkisábyrgð er vegna þess, að allir þeir, sem með alvöru í huga hugsa um atvinnuborfur fyrir almenning. vita, að það dugir ekki að tefla á tvær hættur um það. hvort byrjað er á þessari framkvæmd árinu fyrr eða síðar. Af þessum ástæðum hefir Sjálfstfl. fremur kosið að koma til ríkisins og biðja um ríkisábyrgð heldur en að eiga á hættu. að verkið frestist um eitt ár. Við gerum þetta til þess að vera við öllu búnir, ef þær vonir, sem við höfum í dag, en þær eru mjög miklar. skyldu bregðast. Það hefði kannske frá flokkslegu sjónarmiði verið betra að reiða sig á þá stóru von, sem við höfum um að fá lánið án ríkisábyrgðar. En það er ekki leyfilegt að gera það, því að þetta verk verður, með samtökum bæjarfélagsins og ríkisins, að hefjast á þessu sumri. Um það verða allir að vera sammála, sem nokkurt skyn bera á hagi landslýðsins. Það mun líka vera ástæðan til þess, að Framsfl., sem finnur til ábyrgðar, hefir viljað fylgja ríkisábyrgð fyrir þessu láni.

Ég finn mig ekki tilkvaddan til þess að svara fyrir hin kaldranalegu orð, þar sem hv. þm. var að tala um, að fyrst hefði átt að framkvæma hitaveituna og svo hefði átt að virkja Sogið. Hann var að ráðast á Sjálfstfl. fyrir það, að enn væri ekki nægileg sönnun fyrir hendi um það, að nægilegt vatn væri til að hita bæinn. Fyrst er ráðizt á okkur fyrir það. að ekki sé nóg vatn til, en svo er sagt, að fyrst hefði átt að framkvæma hitaveituna og virkja svo Sogið þar á eftir. Ég hefði gaman af því að heyra þennan hv. þm. halda þessa ræðu, þegar hann kemur austur fyrir fjall. Eg býst við, að þá verði farinn af honum mesti völlurinn. — Þá ætla ég að öðru leyti ekki að svara geðríki þess:) hv. þm., svo að maður ekki segi geðvonzku.

Þá ætla ég að víkja örfáum orðum að ræðu hæstv. fjmrh. Ég skil grg. frv. á annan veg en hann. Ég vil spyrja hann að því, hvort hann minnist þess, að ég hafi spurt hann, hvernig bæri að skilja þetta. (Fjmrh: Ég minnist þess ekki ). Ég skal ekki gegn hans mótmælum staðhæfa neitt um það. En eins og hann man. þá sendi hann mér frv. og grg. töluvert áður en það kom fram, hvort sem ég nú má segja það með sönnu eða ekki, að sá skilningur á frv. sé frá launum, þá er það víst, að eftir að ég átti þetta samtal við hæstv. ráðh., þá skýrði ég Sjálfstfl. þannig frá, að sá væri réttur skilningur frv., sem ég hér hefi haldið fram. Ég er ekki viss um nema orðalag frv. gefi tilefni til sama skilning;. Þar er talað um afborganir af lánum ríkissjóðs, lánstofnana, bæjar- og sveitarfélaga og annara, sem hafa ríkisábyrgð. Orðið „annara“ taldi ég víst, að vísaði til þess, sem á undan var farið. Ég skil, hvað fyrir hæstv. ráðh. vakir. Ég veit líka, að hann skilur það, að þetta orðalag gefur tilefni til þess skilnings, sem ég hefi lag í frv. Ég veit, að margir aðrir skilja það líka þannig.

Ég ætla svo aðeins að segja það, enda þótt ég geri mér nokkuð ríkar vonir um það, að hið íslenzka ríki fái lán utanlands, ef það leitar láns, því að hvaða stjórnmálaflokki. sem menn tilheyra, þá hljóta allir að óska þess, að hið íslenzka ríki hafi lánstraust, þá getur verið, að sá fræðilegi möguleiki sé til, ef svo mætti segja, að þótt hið íslenzka ríki hafi ekki eitt út af fyrir sig lánstraust og bærinn hafi ekki einn út af fyrir sig lánstraust, þá geti þó bærinn fengið lán með aðstoð ríkisins. Ég held, að málið liggi þannig fyrir, að Rvíkurbær hafi ástæðu til að halda, að hann geti fengið lán án ríkisábyrgðar. En það, að beðið er um ríkisábyrgð, stafar af því, að ekki má hætta á það, að framkvæmd verksins frestist, og Sjálfstfl. vill ekki tefla á tvær hættur með það. Ef það kæmi á daginn, að ekki væri hægt að fá lán án ríkisábyrgðar, þá vill hann ekki taka á sig þá sök, að hafa ekki leitað hennar, enda þótt hann telji líkur fyrir því að geta fengið lán án hennar. Af þessum ástæðum hefir hann beðið um ríkisábyrgð fyrir þessu láni.