09.05.1938
Neðri deild: 68. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1375 í B-deild Alþingistíðinda. (2036)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eg er hv. þm. G.-R. sammála um það, að þetta mál þarf að leysa með samtökum. Ég vil enda þess,r umr. frá minni hálfu með því, að það hefði meira að segja verið æskilegt, að þau samtök hefðu komið fyrr til greina, og að sjálfstæðismenn hefðu ekki freistazt til þess að nota þá aðstöðu, sem skapaðist um tíma, til þess að slá sér upp, þegar fullyrt var, að fengið væri lán án ríkisábyrgðar.

Út af orðum hv. 7. landsk. ætla ég að taka fram, að þeir, sem að framkvæmdunum standa. ætlast til, að undin verði mjög bráður bugur að því að útvega lán og byrja á verkinu, svo að ekki myndi verða tími til fyrir neinar verulegar boranir eða rannsóknir nú á þessu ári. Það er enginn vafi, ekki sízt vegna ófriðarhættunnar,. að mikil þörf er á því að flýta verkinu, en ef menn hafa sannfæringu fyrir því, að málið eigi að ganga fram nú. er ekki rétt að taka sömu afstöðu og hv. 7. landsk. Ég vil spyrja hann, hvort þá lægi ekki í augum uppi, að engin framkvæmd yrði í sumar? Ég vil spyrja hann, hvort ætti að eyða sumrinu í rannsókn og áætlun? Þeir hv. þm., sem ekki vilja fylgja því „projekti“, sem fyrir liggur, ættu þá að skýra frá ástæðum sínum við síðari umr. málsins. því fylgir ákaflega stór ábyrgð, að tefja málið um nauðsyn fram.