11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1378 í B-deild Alþingistíðinda. (2042)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Pétur Halldórsson:

Ég má þakka fyrir það, að fjhn. leggur með því í aðalatriðum, að deildin fallist á að veita þessa ábyrgð ríkissjóðs fyrir láni til hitaveitu Reykjavíkur. En ég verð að játa það, að ég tel það ekki fullnægjandi afgreiðslu hér á málinu, ef það skyldi nú fara svo, að meiri hl. þdm. teldu nauðsynlegt að binda þessa heimild við 80% eða 90% af láninu til verksins. Mér finnst satt að segja, að nú beri undarlega við, þegar talað er um dirfsku, eins og gert var við 1. umr. málsins, af hálfu þeirra, sem fylgja þessu máli fram og dirfsku af mér, að bera þetta fram fyrir hið háa Alþingi. En það eru þeir menn, sem tala um dirfsku í sambandi við þetta mál, sem sérstaklega hafa orðið berir að því í meðferð málefna að flytja mál af dirfsku. Því að ómögulegt er að neita því, að það hefir verið djarft teflt og djarft siglt á undanförnum tímum á voru landi. Og þess undarlegra er að heyra það í þessari deild, þegar nú kemur fram annað eins málefni, sem alþjóð varðar og öllum þm. ætti að vera ánægja í að leggja lið sitt, — að þá skuli vera talað um það, að hér hafi verið dirfskulega farið af stað, og að þess sé krafizt af Alþingi, sem dirfsku þurfi til að bera fram! Ég hélt satt að segja, að þessu máli yrði tekið hér með mjög mikilli vinsemd, og að hv. þdm. myndu skilyrðislaust veita þessa ríkisábyrgð, sem farið er fram á, af því að þeir vita sjálfir, hvað sem annars er um það að segja, að hér er um einstakt þjóðþrifamál að ræða, sem ekki er aðeins gagnlegt fyrir Reykjavíkurbæ, heldur og líka fyrir allt landið. Ég hélt, að hver einasti þm. vildi styðja að því með atkv. sínu, að þetta mál mætti komast sem allra fyrst í framkvæmd. En eftir þeim umr., sem fram hafa farið um málið. virðast þm. í öðru orðinu hlynntir því. En svo verður ekki annað skilið á því augnabliki, sem málið nú kemur fram og eins og það nú ber að, en að alveg furðulegur og einstakur fjandskapur liggi á bak við það, að vilja ekki taka því á þann hátt, sem ég vonaði, þ. e. með því að verða við óskinni strax. Og mér er alveg ljóst, í hverju sá fjandskapur er fólginn. Hann er ekki fjandskapur við málið, sem hv. þdm. vilja gjarnan, að nái framgangi, heldur er það einhver fjandskapur við meiri hl. bæjarstjórnar Reykjavíkur og Sjálfstfl., því að þeir telja það hans mál. En þetta er ekki mál Sjálfstfl., heldur allrar Reykjavíkur fyrst og fremst, og allrar þjóðarinnar. Það er svo einstakt mál, að þess er varla að vænta, að nokkurn tíma komi fram á Alþingi svipað mál, sem svo augljóst er, hve mikið þjóðþrifamál er. Ég verð þess vegna að álita, að þm. hefðu helzt kosíð að taka ekki slíka afstöðu. heldur styðja málið, en þeim finnst ekki annað hægt, því að í sínum huga hafa þeir þann skilning, að þetta sé sérmál Sjálfstfl. Það er fullkominn misskilningur. Ég get ekki neitað því, að mér fannst við 1. umr. þessa máls, á því hvernig því var tekið hér úr ýmsum áttum, eins og ég hefði lent í ljónagryfju með þetta góða mál. Það stóð hver þm. á fætur af öðrum til þess að sýna því ónot.

Viðvíkjandi ríkisábyrgð fyrir öllu hitaveituláninu, eins og farið er fram á, ber fyrst að líta á það, hvað hefir gerzt í okkar fjármálum nú undanfarið. Nú þegar þessar till. eru fluttar, um að veita ekki fulla ríkisábyrgð fyrir hitaveituláninu, verðum við að gera okkur ljóst, að með hitaveituláninu er verið að taka afstöðu til gjaldeyrismálanna. Það er vitað, að tilgangurinn með því að fá erlent lán er jafnt að standa í skilum með þær greiðslur, sem falla nú bráðlega á næstu árum. Þessi mótstaða þm. er ekki af því, að þörfin sé ekki á erlendum gjaldeyri. Fyrst og fremst er það, að allt, sem þarf til fyrirtækisins, þarf að greiða í erlendum gjaldeyri. Það er og nauðsynlegt að hafa erlendan gjaldeyri vegna eftirspurnar, sem skapast af vinnulaunum hér heima. Það þarf að hafa greiðslugetu erlendis til þess að mæta þessu útborgaða fé. Nú væri ekki nauðsyn á að sjá fyrir þessum hluta lánsins í erlendri mynt, sem nota á í vinnulaun, ef ekki væri hinn megnasti skortur á getu til þess að mæta erlendis þeim kröfum, sem eftirspurnin á innlendum peningum veldur á gjaldeyri gegnum bankana hér í landi. Það er því ekki með nokkrum rökum hægt að segja, að þörfin sé ekki að taka lánið í erlendri mynt. Ef ekki er hægt að fá allt lánið þannig, verður að gera einhverjar aðrar ráðstafanir til að mæta þessari eftirspurn, sem verður, þegar verkalaun eru útborguð hér heima. Nú efast ég um, að hafi verið tekið tillit til þess þegar ákveðið var, hve mikils láns skyldi leitað fyrir ríkið, og það hafi verið gengið út frá því, að líka þyrfti að sjá fyrir erlendum gjaldeyri vegna hitaveitunnar og útborgunar vinnulauna. Ég efast mjög um, að það hafi verið tekið með í reikninginn. Ef það stendur okkur til boða að fá allt lánið erlendis, þá getur bara hin almenna skynsemi sagt hverjum einasta manni, hve sjálfsagt það er, og dreifa því á 25–35 ár, eftir því sem möguleikar eru á, og láta hitaveituna og framkvæmd verksins að þessu leyti standa undir sér sjálfa. Þess vegna finnst mér ákaflega undarlegt, að á þessum sama tíma, sem svona stendur á að öðru leyti, skuli þeir þm. mest vera á móti fullri ríkisábyrgð, sem fyrst og fremst þýðir ábyrgð á yfirfærslum, sem hvað mest hafa áður notað slíka ábyrgð. Skemmst er að minnast á ríkisábyrgðina, sem veitt var fyrir öllu Sogsláninu, svo sem eðlilegt var og nauðsyn þótti þá. Nú er sagt, að síðan hafi verið tekin upp ný regla um ábyrgð fyrir ríkissjóð. Ég veit, að það er rétt. En ég hélt, að sú regla væri hentugust til að verjast ábyrgðum fyrir fyrirtæki, sem lítt eru talin örugg. Það verður að fara eftir því, hvernig málið er vaxið á hverjum tíma, og þingið verður að haga sínum heimildum eftir því, sem viturlegast er í hverju elnstöku tilfelli.

Ég vil að lokum drepa á eitt atriði, að ég held. að hæstv. Alþingi megi gera sér það ljóst, að það er ekki auðhlaupið að því lengur að fá lán fyrir þetta þjóðfélag erlendis.

Ég held, að vissa þurfi að vera fyrir, þar sem lánsfé þarf til fyrirtækis, að gagnsemi þess sé augljós. Ég bara set upp þann fræðilega möguleika, að á þessu ári fengist ekki annað lán af þeim, sem hér er talað um, heldur en ef það kynni að vera hitaveitan. Og ég spyr um leið: Er ekki rétt að nota að fullu þennan möguleika til lántöku. ef hann er þá til, og haga lántökunni þannig, að hitaveituframkvæmdin þyngi ekki enn meir heldur en orðið er um gjaldeyrisástandið í landinu? Ég held, að þessu beri að svara játandi.