11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1380 í B-deild Alþingistíðinda. (2043)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

Steingrímur Steinþórsson:

Ég hefi hér ásamt hv. 1. þm. Rang. og hv. 4. landsk. borið fram brtt. á þskj. 357 viðvíkjandi þessu frv. Er sú brtt. borin fram af okkur hv. 1. þm. Rang. í samhandi við þá yfirlýsingu, sem hæstv. fjmrh. gaf við 1. umr. málsins hér í deildinni, um það, að Framsfl. myndi fylgja því, að Reykjavíkurbær fengi ábyrgð fyrir láni vegna hitaveitunnar, en þó því aðeins, að ábyrgð ríkissjóðs tæki til 80% af stofnkostnaði hitaveitunnar. Ég þarf ekki að færa mörg rök fyrir þessu. Það er svo, að þingið hefir tekið upp þann sið nú síðustu árin, þegar ríkið hefir gengið í ábyrgð fyrir stórum lánum til framkvæmda, þá hefir það aðeins verið ábyrgð fyrir 80% til 85% af stofnkostnaði. Nú síðast ábyrgðist ríkið aðeins 80% af stofnkostnaði rafveitu á Akureyri. Þetta er orðin regla, sem Framsfl. telur sjálfsagt að halda fast við, hver sem í hlut á. Hann telur, að þegar bæjarfélög eða aðrar deildir þjóðfélagsins leggi í einhverjar stórar framkvæmdir, þá sé rétt og sjálfsagt, að þeir aðiljar sjái sjálfir um einhvern hluta af stofnkostnaði fyrirtækjanna. Ég verð að segja, að ég álit, að Reykjavík eigi ekki að hafa neina sérstöðu að því er þetta snerti. Ég lít meira að segja svo á, að Reykjavík ætti að vera betur stödd í þessum efnum en ýms önnur bæjarfélög, a. m. k. ef dæma má eftir því, sem forráðamenn þessa bæjar segja, því að þeir halda því fram, að Reykjavík sé langbezt stæða bæjarfélagið á þessu landi, og sé það rétt, þá ætti það sannarlega ekki að vera til of mikils ætlazt, að það yrði látið sitja við sama borð í þessum efnum eins og önnur bæjarfélög landsins.

Mig undraði stórmikið að heyra það, sem flm. þessa frv., hv. 4. þm. Reykv., sagði áðan í sinni ræðu. Að vísu byrjaði hann á því að þakka fjhn. fyrir afgreiðslu málsins, en öll hans ræða var stóryrði um þá menn í fjhn. og þá flokka, sem ekki vildu samþ. frv. óbreytt, og hann telur það furðulegan og einstakan fjandskap við þetta mál. Ég verð að segja, að ég tel það furðulegt, að þessi hv. þm. skuli leyfa sér að viðhafa svona orðbragð vegna þeirrar afstöðu, sem tekin hefir verið í þessu máli. Hann segist hafa álitið, að hver þm. teldi sjálfsagt að leggja þessu lið og fylgja því eindregið strax og það kom inn í þingið. Má vel vera, að þessi hv. þm. sé svo kokvíður, að hann gleypi 7 millj. kr. í einum munnbita, en ég verð að segja, að hér sé um svo dýran bita að ræða, að mér finnst eðlilegt, að hv. þm. vildu velta þessu fyrir sér í 1 eða 2 daga og athuga, hvernig þessu máli er farið.

Ég verð að segja í þessu sambandi, að ég tel málið í sjálfu sér vera gott, en að það sé forsmánarlega undirbúið, því að það er hægt að hafa stór orð, fyrst þessi hv. þm. leyfir sér að við hafa stóryrði. Hvernig er svo málið undirbúið? Það liggur fyrir áætlun um, að þetta eigi að kosta 7 millj. kr., en svo er ekki til nema heimingur af því vatni, sem þarf til að hita upp bæinn. Það er sagt, að það þurfi 350 sekúndulitra, en nú eru aðeins til 170 sekúndulítrar, eftir því sem hv. þm. segir. Hvaða sönnun er fyrir því, að nóg vatn fáist á Reykjum, þegar ekki er komið meira en þetta eftir allar þær boranir, sem framkvæmdar hafa verið? Og svo talar hv. þm. nm furðulegan og einstakan fjandskap, þó að þingið vilji láta Reykjavík sjá um 1/5 hl. lánsins. Ég verð að segja, að mér finnst furðulegt, að menn skuli leyfa sér að við hafa svona ummæli. eins og þetta mál hefir verið undirbúið. Því er kastað inn á síðustu dögum þingsins, eftir að hv. flm. er búinn að vera úti um öll lönd til þess að leita eftir láni, og eftir að hann er búinn að lýsa því yfir fyrir bæjarstjórnarkosningarnar, að það þurfi enga ríkisábyrgð fyrir láninu. Nú er þessu snúið við. Hv. þm. talar nú um það, að þetta sé ekki sérmál Sjálfstfl. Ég hygg, að það myndi hafa verið betra fyrir bæjarstjórnarmeiri hl. í Reykavík að hafa þetta ekki eins mikið sérmál Sjálfstfl. eins og þeir hafa gert til þessa, og undirbúa málið dálítið meira í samvinnu við aðra flokka heldur en þeir hafa gert. — Ég vil taka það fram, að ég hefði ekki komið inn á þessi atriði hér, ef hv. þm. hefði ekki gefið svo sérstakt tilefni til þess með framkomu sinni.

Hv. flm. talaði um, að það væri algerlega ófullnægjandi að fá ábyrgð fyrir 80% af stofnkostnaði hitaveitunnar. Hann viðurkenndi, að tekin hefði verið upp ný regla, og að rétt hefði verið að beita þessari reglu um að ábyrgjast 80% af stofnkostnaði hliðstæðra fyrirtækja, en hann sagði, að þetta væri aðeins gert til að hindra það, að ríkissjóður gengi í ábyrgð fyrir fyrirtæki, sem ekki væru örugg fjárhagslega, en að óréttmætt væri að beita þessari reglu, hvernig sem á stæði. En ég verð að segja, að ég veit ekki, hve öruggt fyrirtæki þessi hitaveita er. Ég vil af heilum hug óska þess, að hér sé um öruggt fyrirtæki að ræða. En hvaða öryggi er í því fólgið. þegar á þessum eina stað, sem rannsakaður hefir verið, er aðeins helmingur þess vatnsmagns, sem þarf til þess að hita bæinn. Ef svo skyldi fara, sem við vonum, að ekki komi fyrir, að leiðslurnar t. d. tærðust upp á 10–12 árum, og viðhaldskostnaður yrði miklu meiri en gert er ráð fyrir, þá veit ég ekki, hversu öruggt þetta fyrirtæki er. Þetta er eitt m. a.. sem ekki hefir verið rannsakað. Það er ýmislegt fleira, sem gerir það að verkum. að þetta fyrirtæki er í mínum augum ekkert öruggara en t. d. rafveitan í Akureyrarkaupstað, sem þingið veitti ábyrgð fyrir í vetur með sömu skilyrðum og við, sem berum fram brtt. á þskj. 557, leggjum til, að gert verði.

Hv. þm. talaði mikið um það, að þetta væri gjaldeyrisspursmál. Á þennan hátt væri hægt að fá gjaldeyri inn í landið. Ég álít heppilegra, að það sé ríkið sjálft, sem taki lán vegna almennra gjaldeyrisráðstafana, en að það lán verði ekki tekið í gegnum Reykjavíkurbæ.

Ég vil að lokum algerlega mótmæla að nýju þeim ummælum, sem hv. flm. viðhafði um þann fjandskap, sem þessu máli væri sýndur. Ég vil taka það fram, að ég vil samþ. málið á þeim grundvelli, sem ég tel rétt, að það sé gert. Ég get ekki skilið, að málið strandi, þó að ekki fáist ábyrgð nema fyrir 80% af stofnkostnaðinum. Það er þá eitthvað bogið við Reykjavíkurbæ, ef hann getur ekki fengið það, sem á vantar. — Hv. þm. Ísaf. hefir borið fram brtt., sem gengur út á það, að Reykjavíkurbær fái ábyrgð fyrir 90% af stofnkostnaði hitaveitunnar. Ég sé enga ástæðu til að ganga svona langt í þessu efni. Eins og ég hefi tekið fram áður, tel ég rétt að halda sér við þá reglu, sem sköpuð hefir verið og fylgt var á síðasta þingi í sambandi við rafveituna á Akureyri, og tel þess vegna rétt að miða ábyrgðina við 80 % hér eins og þar, a. m. k. hefir flm. frv. ekki enn þá fært nein rök fyrir því, að ekki sé hægt að koma málinu í framkvæmd á þennan hátt, enda er vitanlegt, að sú upphæð, sem ábyrgð væri veitt fyrir, er meira en fyrir erlendu efni til þessa fyrirtækis.

Ég skal svo ekki segja meira, a. m. k. að sinni, um þetta mál.