11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2047)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. Mér finnst það alveg ástæðulaus ótti, að það geti orðið til að tefja málið, þótt ekki sé veitt ríkisábyrgð nema fyrir 80% af andvirði hitaveitunnar. Það er vitað, að mikill áhugi er fyrir málinu hjá borgurum bæjarins, svo að það er enginn vafi á því, ef rétt er skýrt frá þeim áhuga, að það verður engum vandkvæðum bundið að fá lán í bænum til þess að greiða 20% af andvirði þessa fyrirtækis. Þegar það virðist jafnvel liggja fyrir, að Akureyrarbær geti fengið 20% af andvirði rafveitunnar, sem hann ætlar að byggja, þá er engin ástæða til að ímynda sér, að það sé vandkvæðum bundið að fá þetta fé hér í Rvík. Það mun líka hafa verið gengið út frá því af forgöngumönnum þessa máls, að ef ekki fengist erlent lán nema fyrir efninu, þá myndi það ekki vera vandkvæðum bundið að fá fé innanlands til þess að greiða innlendan kostnað. Það er því úr lausu lofti gripið, að menn vilji ekki framgang málsins, þótt við viljum halda fast við þá reglu, sem reynt hefir verið að taka upp á Alþ. til þess að takmarka ríkisábyrgðir.

Ef þessar brtt. verða felldar, þá liggur fyrir að taka afstöðu til þess, hvort Framsfl. vill vera með málinu eða ekki. Ég sé ekki ástæðu til að gefa yfirlýsingu um það nú í augnablikinu, því að það mun sýna sig, ef brtt. verða felldar.