11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1387 í B-deild Alþingistíðinda. (2048)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Sveinbjörn Högnason:

Ég skal ekki hafa þetta langt mál, þar sem sérstaklega menn úr fjhn. hafa rætt um það á breiðum grundvelli og tekið fram það, sem þarf, þótt það sé fyllsta ástæða til að tala um þetta mál á þeim grundvelli, sem hv. flm. hefir leitt það inn á við þessa umr. Það virðist sama ógæfan ætla að hvíla yfir forgöngu þessa máls í höndum þessa manns, hvort sem hann er utan lands eða innan. utan þings eða innan. Þegar hann byrjar hér á Alþ. að reyna að halda uppi þeirri afstöðu um þetta mál, sem Sjálfstfl. tók í vetur í fávizku sinni við bæjarstjórnarkosningarnar, að gera þetta að sérmáli sinu, þá virtist beinlínis að því stefnt hjá hv. flm. í ræðu hans í dag, að víkja sem flestum mönnum frá því að styðja þetta mál, Þegar þetta frv., sem hann flytur, hefir fengið sennilega þær beztu undirtektir, sem nokkurt stórmál hefir fengið hér á Alþ., að það er afgreitt á einum einasta degi í n., — mál, sem er heimild upp á 7 millj. kr. lántöku og hver einasti þm. viðurkennir, sem hefir nokkurn snefil af þekkingu á þessu, að er svo herfilega undirbúið, að ekkert stórmál hér á landi hefir nokkurn tíma sætt slíkum undirbúningi. Það gegnir alveg furðu, þegar hv. flm., sem flytur þetta mál hér inn á síðustu dögum þingsins, leyfir sér að hafa þau orð um þetta, að verið sé að sýna málinn fullan fjandskap, þar sem enginn þm., svo að ég hafi heyrt, hefir talað gegn málinu eða reynt að hefta framgang þess. Ég fullyrði, að ef það er nokkur, sem tefur eða heftir framgang þessa máls hér í þinginu þessa daga, þá er það hv. flm. sjálfur með ræðu sinni og þeim grundvelli, sem hann valdi undir það, að halda á sinu máli, þegar hann sagði, að það væri eins og andstæðingar Sjálfstfl. væru að gera þetta að sérmáli Sjálfstfl. og fjandskapast út í það á þann hátt. En hverju hafa gert þetta að sérmáli Sjálfstfl.? Það eru kannske þeir menn, sem yfirleitt hafa ekki fengið að koma nálægt undirbúningi þessa máls og helzt ekki mátt sjá, hvað verið væri að gera? Skyldi það ekki heldur vera sá maður, sem laumaðist af landi burt í vetur, án þess að láta hálfa bæjarstjórnina vita um það, til þess að reyna að afla sér láns til að framkvæma þetta verk? (PHalld: Var það svo slæmt?). Ég býst við, að borgarstjóranum sé þetta manna kunnugast, a. m. k. sögðu margir bæjarstjórnarfulltrúar, að þeir hefðu ekkert um þetta vitað. Og það er undarlegt, að mikill hluti af þjóðinni skuli ekki fá að vita, í hvaða erindum borgarstjórinn fer utan. Ég verð að segja, að það út af fyrir sig, að einn maður eða flokkur tekur á sinar herðar að leita að stórfelldu láni erlendis, og það alveg í laumi, er mikið ábyrgðarleysi. Þegar á að taka lán til stórframkvæmda, þá eiga bankarnir og ríkisstjórnin að fá að fylgjast með í þeim efnum. Það er ekkert að vita, hversu heppilegur sá maður er, sem sendur er utan. Það má vera, að hann haldi þannig á málunum — ég er ekki að segja, að þessi hv. þm. sé slíkur sendimaður —, að hann stórspilli fyrir lánstrausti landsins erlendis. Það er a. m. k. vitað, að þegar Sjálfstfl. hefir ætlað að fara að flytja inn einhver erlend verðmæti, þá hefir hann jafnan verið mjög óheppinn, hvort sem hefir verið að ræða um verðmæti á hinu andlega sviði eða hinu efnislega. Það var einn sinni maður, ungur og efnilegur, sem af helztu mönnum Sjálfst.fl. var sendur í heit lönd og köld til þess að fá andann og verða mikill rithöfundur. Þetta bar svo litinn árangur, að þessi maður er nú lektor við einn af háskólunum í Þýzkalandi. þar sem það er næstum því dauðasök að hafa nokkra andlega, sjálfstæða skoðun. Nú hefir annar maður verið sendur út af örkinni í laumi, hv. 4. þm. Reykv., til þess að reyna að flytja inn milljónir í staðinn fyrir hin andlegu verðmæti. Hann hefir líka farið um heit lönd og köld í vetur, og ég hygg, að allir hv. þm. séu sammála um það, að árangurinn af þeirri sendiför sé, eftir þeim plöggum. sem fyrir liggja, álíka lítill og af för þess manns, sem átti að flytja inn hin andlegu verðmæti.

Það er alveg rétt, sem hv. flm. sagði, að þetta mál er alveg einstakt að því leyti, að það virðist vera mikil framtíð hér á landi í því að nota jarðhitann. En það er ekki einstakt að því leyti, að það sé fyrst nú, sem á að fara að nota jarðhitann. Þar hefir annar flokkur rutt brautina í fullri andstöðu við Sjálfstfl. Þetta mál er líka einstakt að öðru leyti. Það er einstakt að því leyti, hvernig með það hefir verið farið, bæði utan þings og innan, og það virðist vera, eftir því sem hv. flm. hefir flutt það hér á Alþ., einstakur maður, sem flytur það.

Hv. flm. sagði, að það væri fyllsta þörf á því að fá lánið allt erlendis vegna gjaldeyrisins, á sama tíma og hann og allir hans flokksmenn sitja hér og halda að sér höndum, þegar verið er að fara fram á að taka gjaldeyrislán fyrir þjóðina, um leið og þeir eru búnir að viðurkenna, að fyllsta þörf sé, ekki aðeins fyrir það lán, heldur segir hv. flm., að fyllsta þörf sé fyrir 7 millj. kr. í viðbót. Sér er nú hvað samræmið.

Þá kom líka fram eitt atriði. sem ómögulegt er að láta hjá líða að drepa á, í þessari mjög merkilegu ræðu hv. flm., þar sem hann sagði, að verkalaunin kölluðu strax á þörfina fyrir erlendan gjaldeyri hér. Borgarstjórinn hefir með öðrum orðum hugsað sér, að verkamennirnir hér skuli einungis lifa á erlendri vöru. Þetta kemur ekki undarlega fyrir sjónir, því að það er einmitt þessi hv. fim., sem hafizt hefir handa í Rvík gegn því, að innlendar afurðir séu notaðar sem neyzluvörur, svo sem mjólk og kjöt. Ég man eftir því, að hann stóð upp á fundi í bíó og fór að kenna fólkinu að nota gráblöndu í stað mjólkur. Það er náttúrlega eðlilegt, að þessi hv. þm. haldi, að aðrar innlendar vörur, sem við framleiðum, séu álíka hættulegar fyrir Rvíkurbúa eins og mjólkin, þar sem hann taldi gráblönduna betri heldur en mjólkina. Þess vegna er það eðlilegt, að borgarstjóranum finnist, að verkamennirnir með sínum verkalaunum framkalli einungis þörf fyrir erlendan gjaldeyri. Þetta er í fullu samræmi við framkomu hans áður. og ég tel hann mann að meiri fyrir það, að hann skuli vera sjálfum sér svo samkvæmur í sínum hugsanagangi. Hitt er svo annað mál. hvað sá hugsanagangur er hollur fyrir fólkið og þjóðina yfirleitt.

Um það, að það sé hagur allrar þjóðarinnar, að þessi hitaveita sé framkvæmd, þá má það vel vera, ef vel er á þessu máli haldið. En það þarf áreiðanlega að vera í höndum annara manna en hv. flm., ef af því á að verða hagur fyrir alla þjóðina. En ég vil benda á, að það má sjálfsagt segja svo um hvert einstakt framfarafyrirtæki, ekki aðeins það, sem gert er í Rvík, heldur líka það, sem gert er fyrir fólkið annarsstaðar. Ég vil segja, að þörfin er áreiðanlega meiri fyrir lífsþægindi hjá fólki alstaðar annarsstaðar en í Rvík, þar sem það hefir alltaf verið talið sjálfsagt að ábyrgjast hvert lánið á fætur öðru til framfara og þægindaauka hér í Rvík, en alitaf verið heldur deilt á það, sérstaklega af flokksmönnum hv. flm.. þegar hefir verið tekið lán erlendis til þess að auka lífsþægindin hjá fólkinu úti um hinar dreifðu byggðir landsins. Það þarf ekki annað en minna á framfaralánið, sem tekið var 1931 0g talið var eftir af flokksmönnum hv. þm. Það voru ekki talin eftir eyðslulánin. sem fóru í bankatöp og gjaldþrot. En framfaralánið. sem tekið var til þess að koma af stað Búnaðarbankanum, til þess að byggja síldarverksmiðjur og til stórfelldra framkvæmda í sveitum, var af þessum mönnum falið eftir. Þetta teljum við, að hafi verið hagur allrar þjóðarinnar, en það er allt talið eftir sem gengur til annara en Reykvíkinga hjá flokksmönnum þessa hv. þm. Þótt ég telji, að eins og komið er, þá eigi að styðja þetta á heilbrigðum grundvelli, og ef ekki er flanað í neina vitleysu, þá verð ég að segja það sem mína skoðun, að ég álit, að það séu ýmsar umbætur annarsstaðar á landinu, sem hafi átt að sitja í fyrirrúmi fyrir þessu. Ef til stríðs kemur, þá er fjöldi af íbúum héraðanna miklu verr settir heldur en Reykvíkingar, þótt engin kol og engin olía flyttist til landsins. Það er búið að byggja rafveitu nú nýverið fyrir Rvík með ábyrgð ríkissjóðs fyrir í millj. kr. láni. Það er ekki farið að nota nema lítinn hluta af þeirri orku, sem þar er hægt að fá. Það er vitað, að úti um allar sveitir og í fjölmörgum kaupstöðum, biða menn með mikilli óþreyju eftir því, að geta fengið rafljós og rafhitun. Ég vil líka benda á, að það getur orðið nokkuð háskalegt fyrir afstöðuna í okkar þjóðfélagi nú á tímum, að veita fjármagninu um of á einn stað. Það hlýtur að hafa það í för með sér, að fólkið leitar á þennan eina stað, því að þangað, sem veltuféð er, leitar fólkið. Ég hygg, að Rvík fái að kenna nokkuð á því. að straumurinn þangað þyki nokkuð ör, og byrðarnar af þeim straum fari vaxandi.

Ég skal svo ekki tefja þetta meira. Ég vildi aðeins benda á, að það er harla einkennilegt hjá hv. flm., þegar hann telur, að hann fái ekki sæmilega afgreiðslu á þessu láni, ef ábyrgðin nái ekki yfir það allt, þar sem hann hélt því fram við 1. umr., að það þyrfti ekki annað en tryggingu fyrir yfirfærslu á afborgunum af láninu. Hvernig er hægt að samræma þetta? Ég álít, að slík framkoma, sem verið hefir að undanförnu í þessu máli, hvað undirbúning þess snertir, og slíkur málflutningur, sem hafður hefir verið í því, þegar það var loksins flutt hér inn á Alþ. til þess að afgreiðast hér á 1–2 dögum, þá sé það eitthvert það einstakasta mái í allri meðferð, eins og hv. flm. er líka einstakur maður í allri meðferð á því af öllum þeim. sem haft hafa með höndum opinber mál hér á landi.