11.05.1938
Neðri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1395 í B-deild Alþingistíðinda. (2053)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Emil Jónsson:

Hv. 4. þm. Reykv. sagði, að þetta væri ekki sambærilegt, af því að nothæft heitt vatn á Reykjum hefði ekki verið nema 40 lítrar á sekúndu. En þetta er ekki rétt. Sannleikurinn er sá, að þar voru mældir 106 lítrar af heitu vatni á sekúndu og raunar miklu meira, þó að það teldist ekki nothæft. — Svo að ég víki að hinu atriðinu, um það, að nú þegar sé búið að vinna fyrir 10% af þeim hluta lánsins, sem vænta má, að verði tekið strax, þá er því ómótmælt. En ég trúi því ekki, að nú þegar eigi að bjóða út 7 millj. kr. lán, þegar ekki er vitað, nema ein 12 ár kunni að liða. þangað til fullt vatnsmagn er fengið. Ég get ekki skilið annað en að það lán, sem kann að verða tekið nú, verði mikið yfir helming þess fjár, og þá eru 10% af því 350 þús. kr., en þeirri fjárhæð er nú búið að eyða í undirbúning verksins.

Um skilyrðin, sem hv. 2. þm. Reykv. minntist á, vil ég segja það, að í þessu frv. eru þau skýrð á þá leið, að ábyrgðin skuli veitt gegn þeim tryggingum, sem ráðh. tekur gildar. Í öðru tilfellinu er það ráðh., sem verður að fá tryggingar, en í hinu tilfellinu, samkv. brtt. okkar hv. þm. Ísaf., er það Reykjavíkurbær. sem þarf að fá 10% af láninu úr annari átt. Ég sé engan mun á því, — að það skilyrði, sem stendur í brtt. okkar, sé hættulegra en hitt, sem stendur í frv. sjálfu.

Ég hefi aldrei sagt né neinn innan Alþfl., að hitaveitan frá Reykjum væri vitleysa, og því síður hringavitleysa, en ég hefi sagt, og stend við það, þar til annað verður sannað, að ennþá er ekki fengið nægilegt vatn á Reykjum til að hita upp bæinn alveg, og ekki miklar líkur til þess, að það fáist þar. Mér hefir alls ekki dottið í hug að segja, að sú hitaveita, er hinn kunni sænski fræðimaður kom til þess að segja álit sitt um, sé vitleysa, en hann rannsakaði ekki tvo staði, sem vel getur komið til mála að leiða heitt vatn frá til Rvíkur. Á þeim tveim stöðum er ofgnótt af því. Hv. 2. þm. Reykv. talaði um, að kingja Henglinum og Krísuvík. Nú getur hann kingt sínum eigin fullyrðingum.

*