11.05.1938
Neðri deild: 74. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 1400 í B-deild Alþingistíðinda. (2059)

137. mál, hitaveita í Reykjavík

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil með engu móti tefja umr., en ég vildi aðeins segja örfá orð út af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Mér skildist, að hann áliti, að Akureyri væri búin að taka lán til rafvirkjunar, en því er nú ekki þannig farið, heldur hefir Akureyri fengið lánstilboð, sem ekki hefir ennþá verið samþ. Þetta lánstilboð er með raunverulegum vöxtum 51/4% Mér skildist á hv. þm., að vextirnir væru yfir 51/2% m. a. vegna þess, að ríkisábyrgð væri ekki nema fyrir 80% af stofnkostnaðinum. Vaxtakjörin eru ekki betri en þetta af því, að tilboðið er frá Danmörku, en vextir í Danmörku eru, eins og við vitum, hærri en bæði í Svíþjóð og Englandi. Það mun láta nærri, að vextir af dönskum ríkisskuldabréfum séu liðlega 5%, svo að þetta eru eftir dönskum mælikvarða mjög hagstæð vaxtakjör. En þetta tilboð hefir ekki verið samþ. ennþá, og ekki vist, að það verði úr þessari lántöku.

Ég hefi áður gert grein fyrir því, af hverju ég held fast við það, að ekki sé veitt ábyrgð fyrir meira en 80% af stofnkostnaðinum. af því að ég tel, að það hafi verið mjög misráðið af Alþ. að ábyrgjast allt andvirði fyrirtækja, sem sett hafa verið á stofn, og ég fullyrði, að ýms af þeim fyrirtækjum, sem ríkissjóður er nú að tapa stórfé á, hefðu ekki verið sett á fót, ef þessi regla hefði verið höfð um ábyrgðarheimildir til handa ríkisstj. Ég vona, að hitaveitan verði ekki í þessum flokki, — en hvernig eigum við að standa á móti því, að ábyrgjast að fullu fyrir aðra, ef það er gert fyrir Reykjavík? Hvernig er hægt að segja: Við viljum ekki ábyrgjast fyrir ykkur nema 80%, en við getum ábyrgzt 100% fyrir Reykjavík? Ef horfið verður að því ráði, að samþ. 90% eða 100%, þá þýðir það, að hv. þm. hverfa frá þeirri reglu, að ábyrgjast 80%, og þá er allt í sama farinn og áður var.

Ég mun svo ekki fara lengra út í að ræða þetta. Eg sé ekki, að það hafi neina þýðingu, því að ég geri ráð fyrir, að við séum allir sammála um að flýta fyrir málinu.